Mannvist á Mýrum

Verkefnið Mannvist á Mýrum er ætlað að draga fram brot úr sögu Mýrasveitar í Hornafirði, sveitar sem lýst gæti sem vatnabyggð. Mýramenn bjuggu við óvenjulegar og oft krefjandi aðstæður langt fram eftir 20. öld. Framgangur jökla, jökulár sem flæmdust um og jökulhlaup spilltu nytjalöndum og urðu þess valdandi að margar fjölskyldur hröktust á milli staða. Þessar erfiðu aðstæður urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði. Hér kynnum við brot um mannvist á Mýrum sem varðveittar minjar bera vitni um.

Vatnabyggð

Mýrar í Hornafirði er ein af fimm sveitum í Austur-Skaftafellssýslu. Sveitin markast af Hornafjarðarfljótum í austri, að fyrrum farvegi Heinabergsvatna í vestri, frá ströndinni í suðri til jökuls í norðri. Skriðjökulstungur frá Vatnajökli ganga niður dalina og fram á sléttlendið. Tveir þeirra, Heinabergsjökull og Fláajökull eru oft nefndir Mýrajöklar. Fyrir sunnan fjalllendið er sveitin að miklum hluta láglend flatneskja, áraurar myndaðir af vatnaframburði frá jöklunum. Mýrar mætti með réttu kalla vatnabyggð, í ljósi alls vatnaágangs sem sveitin hefur mátt þola á liðnum öldum. Flestir bæirnir standa á klapparholtum eða moldarhólum sem árnar hafa sótt að, svo oft og ákaft að færa þurfti bæi en aðrir fóru í eyði.

Jöklarnir

Í lok átjándu aldar hafði byggðin á Mýrum þegar látið mikið á sjá samanborið við fyrri tíð, vegna ágangs jökla og vatna. Ljóst er af samtíma heimildum að vötnin frá Mýrajöklum höfðu aukist að vexti um miðja átjándu öldina. Í Ferðabók Eggerts og Bjarna frá 1752-1757 lýsa þeir landeyðingu á Mýrunum þannig: „Heinabergsjökull hefir eytt allan miðhluta Hornafjarðar, sem liggur fyrir framan hann. Álma úr honum teygist alveg niður á jafnsléttu að bænum Heinabergi, sem enn er byggður.“ Stórárnar Kolgríma, Heinabergsvötn og Hólmsá flæmast niður um sléttlendið og hafa „gereytt öllum jarðvegi í kringum sig og eru mjög erfiðar yfirferðar sakir sandbleytu.“[1]

Um 1840 höfðu jöklarnir aukist að umfangi enn frekar. „Mýrajöklarnir áttu það sammerkt með öðrum jöklum í sýslunni að þeir héldu áfram vexti sínum. Gengu meira fram á undirlendið og það sem verra var að þykkt jöklanna fór enn vaxandi.“ [2]

Landslagið á sléttlendinu er votlent mjög, sums staðar móar, líka hér og hvar þúfnalönd, en mest kveður þó að eyðisöndunum og grafningunum eftir vötnin. So, þegar rennt er aðgætnu auga yfir sóknina af fjöllunum, virðist vart fjórði partur hennar vera grasi vaxinn, heldur hingað og þangað eins og jarðdílar innan um vatnaklasana og sandleirurnar, sem öll líkindi eru til, að áður hafi verið grasi vaxnar og sums staðar blómleg engjatakmörk; eftir sem gamlir menn segjast sjálfir muna og heyrt hafa.“[3

Mýrajöklar voru í hámarki um 1890, líkt og flestir jöklar landsins eftir að land byggðist. Fláajökull gekk mjög nærri byggð seint á 19. öld og skreið yfir algróið land. Á fyrstu áratugum 20. aldar voru jökulvötnin á góðri leið með að leggja sveitina í auðn. Áður en til þess kom var ráðist í miklar varnaraðgerðir til að beisla vötnin, m.a. með fyrirhleðslum og brúargerð. Upp úr 1960 hófu bændur að rækta upp sandana sem vötnin höfðu borið fram. Það var gert að mestu í félagsræktun með góðum árangri og gerbreytti þar með búskaparháttum og afkomu íbúa á Mýrum.[4]

Heimildir:

[1] Eggert Ólafsson, Schøning, G., Bjarni Pálsson, Steindór Steindórsson, & Jón Eiríksson (1981). Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar um ferðir þeirra á Íslandi árin 1752-1757, 2. bindi (4. útgáfa). Örn og Örlygur.

[2] Egill Jónsson (2004). Jöklaveröld – Náttúra og mannlíf. Ritstj. Helgi Björnsson, Egill Jónsson og Sveinn Runólfsson. Skrudda ehf.

[3] Jón Bergsson (1997). Einholtsprestakall 1839. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna), Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 107-122). Reykjavík: Sögufélag.

[4] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ.

Vötnin

Hvað vötnunum viðvíkur, þykir hentast að byrja með lýsingu þeirra að vestanverðu álíkt og fjallaröðina; ekki þykir mér samt auðvelt að greina skilmerkilega frá rennsli þeirra, so eru þau breytingasöm, ekki einasta þegar þau koma fram á sléttlendið, hvar þau skipta sér eður kvísla sig, hvar við þau fá ýms nöfn, heldur líka breytist útfall þeirra úr jöklunum.[1]

„Heiðnabergsvötn, sem falla úr Heiðnabergsjökli, fyrir vestan Geitakinn; fá vötn held ég oftari breyti farveg eða rennsli en þau; ýmist falla þau vestur af Heiðnabergssandi og yfir takmörk sveitarinnar að vestanverðu og falla þá í Kolgrímu, austasta vatnsfall í Suðursveit […]. Aðra stundina falla þau austur á bóginn í sokallað Landvatn, sem brýtur sig út í jökulsporðinum milli Geitakinnar og Rótafjalls og rennur eftir Heiðnabergsdal. Þegar áminnst Landvatn kemur fram eður suður eftir sveitinni nefnist það Hellirsholtsvatn og tekur þá nafn af holti því, er það rennur hjá.

Hólmsá; hún kemur úr Fláajökli og tekur nafn af bæ þeim, er Hólmur heitir. Hún fellur fyrst til suðurs, þar eftir nokkuð austur á við og breytir sér þá í fleiri vötn, er síðan nefnast Axarkíll, Geirstaðará og Staðará. Geirstaðará tekur nafn af bænum Geirstöðum, en Staðará af gamla prestasetrinu Einholti; varð hún hér um bil fyrir 16 árum so nærgöngul bænum, að hún flóði upp í kirkjugarðinn, og var þá kirkjan eftir það flutt að jörðunni Holtum, hvar hún enn er. Ströng eru vötn þessi, hvörra nú var getið, helst að innanverðu eður nálægt útfalli þeirra, en lygnari, þegar koma fram eftir sléttlendinu. Ekki eru þau sérlega vatnsmikil, utan þegar hlaup er í þeim, er menn so kalla, þegar vatnsbúr þau, er virðast vera í kringum útfall þeirra í jöklunum, opnast, hlaupa þau þá fram með ærsla miklum og kasta jökulstykkjum víðs vegar um sléttlendið. Sjaldan hefur þetta samt orðið mönnum eða kvikfénaði að tjóni, – því er öllu hlíft sem guð hlífir, – en að jarðvegur, engjar og hagbeit eyðist, má nærri geta.

Djúpá: hún hefur sín upptök í jökultanganum, sem er fyrir stafninum á Kolgrafardal, rennur eftir honum miðjum, en eftir það beygist hún við og við til austurs og fellur í Hornafjarðarfljót eður jafnvel Hornafjörðinn, eftir sem hún nú er farin að breyta farvegum sínum. Fljótið, nefnilega Hornafjarðarfljót, takmarkar sóknina að austanverðu, eins og upphaflega sagt er. Á því eru tveir alfaravegir, ytra og innra, er so nefnist; á þessum ytra er það breitt og lygnt, en stundum háskalega blautt, og hefur það til borið, að ei hefur hestum orðið bjargað. Innri vegurinn er háskaminni og verður sjaldan ófær yfirferðar.“[1]

„Sú var sögn að förukall hafði misst pokann sinn ofan í Heinabergsvötn. Honum sárnaði svo missirinn að hann lagði það á vötnin að þau skyldu alltaf þaðan í frá verða einhverjum til ills og bölvunar.“[2]

Heimildir:

[1] Jón Bergsson (1997). Einholtsprestakall 1839. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna), Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 107-122). Reykjavík: Sögufélag.

[2] Þórður Tómasson (1988). Þjóðhættir og þjóðtrú, skráð eftir Sigurði Þórðarsyni frá Brunnhól. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf