Suðurhús

Um Suðurhús

Byggðahverfið Borgarhöfn nær frá Staðará austur að Hestgerðiskambi. Að fornu mati var jörðin 80 hundruð að dýrleika, hundraðaflest allra jarða í sýslunni.[1] Um tíma átti Skriðuklaustur 60 hundruð í Borgarhöfn og þekktar eru sögur um að vermenn hafi komið yfir jökul frá Skriðuklaustri og nýtt sér útræði frá Borgarhafnarhálsum til fiskveiða og haft verbúðir í Kambtúni. Konungur eignaðist síðan hlut Skriðuklausturs við siðaskipti, en 10. Júní 1743 var kóngshlutinn lagður til kirknanna að Kálfafellsstað og Einholti, 30 hundruð til hvors staðar. Eftir 1691 var Borgarhöfn þingstaður Suðursveitar og byggðin nefnd Borgarhafnarhreppur. Fjórðungur Borgarhafnar var þó alltaf í bændaeign eða 20 hundruð.[2] 

Í  gögnum er talað um Borgarhöfn sem eina jörð, þó getið sé um marga bændur og vitað er að býlin voru mörg og báru hvert sitt heiti. Einar Bragi rithöfundur segir ógerlegt að átta sig á hvaða bóndi bjó hvar á 18. öld. Sama má segja um 19. öldina allt framundir árið 1890, enda mikið um flutninga á milli bæja á þeim tíma. 

Gömul munnmæli herma þó að í Suðurhúsum hafi verið fyrsta byggð í Borgarhöfn. Einar Bragi telur öruggt að búið hafi verið í Suðurhúsum, Lækjarhúsum og Gamla-Garði á 18. öld samkvæmt heimildum og verið tvíbýli á einhverjum þeirra. En ómögulegt að segja til um heiti býlanna.[2] 

Í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu segir: „Árið 1956 var grafið fyrir votheysgeymslu hjá Suðurhúsum í Borgarhöfn. Komið var niður á gólf af gufubaðstofu ásamt veggjahleðslu. Í gólfinu var vatnsþró gerð af deiglumó. Í henni lá einn heitusteinn mjög eldbrunninn og augóttur. Á honum var gat um miðju til að krækja í til að færa hann upp úr glóðinni og ofan í vatnið í þrónni.“[1] Þetta var  ekki rannsakað meira, en þykir benda til fornrar byggðar. 

Í Suðurhúsum stendur steinhús mikið sem ekki hefur tekist að varðveita sem skyldi. Það byggðu þeir Sigjón Jónsson og Guðmundur Jónsson í byrjun 20. aldar. Allmargar tóftir eru í kringum Suðurhúsin. Jóhanna Stefánsdóttir frá Neðribæ í Borgarhöfn gaf eftirfarandi skýringar á tóftum umhverfis Suðurhúsin á göngu um svæðið, 30 apríl 2003. „Við gengum meðfram Suðurhúsunum, gamla bæjarstæðið var þar sem gömlu húsin eru, þar var síðan fjós. Húsin við hliðina á fjósinu eru tvær hlöður og byggingin með skúrþakinu fjós. Í íbúðarhúsinu steinsteypta bjuggu Sigjón austan megin en Mundi bróðir hans vestan megin. Sigjón leigði einhvern tíma eystri hlutann og var þá í Reykjavík. Kona Munda dó 1948, veiktist snögglega og dó eftir 3 daga. Neðan og vestan við Suðurhúsin er lambahús með fallegum hleðslum.“[3] 

Suðurhús voru kirkjujörð áður fyrr. Lækjarhús voru einnig kirkjujörð, en konungur gaf kirkjunni 60 hundruð samtals úr Borgarhöfn árið 1743, Einholtskirkja fékk 30 hundruð og Kálfafellsstaðarkirkja 30 hundruð.[1] Prestar frá þessum sóknum sátu kirkjujarðirnar í Borgarhöfn, a.m.k. er vitað með vissu að prestar frá Kálfafellsstað sátu jörðina vegna skriðufalla á prestsetrinu á Staðnum, en ekki nákvæmlega hvar eða á hve stórum hluta kirkjueignarinnar. Sagt er að séra Vigfús Benediktsson hafi búið í Borgarhöfn 1787 – 1796 þegar hann flutti sig frá Einholti og tók við Kálfafellsstaðarsókn. Hann sat alla kirkjueignina og einnig hluta af bændaeign.[2] 

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó. 
[2]  Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf. 
[3]  Jóhanna Stefánsdóttir frá Neðribæ í Borgarhöfn. Viðtal við Þorbjörgu Arnórsdóttur 30. apríl 2003. 

Scroll to Top