Eskey / Selbakki

Landsvæðið frá Efri-Skinney og norður að Selbakka kallast Skinneyjarland. Þar voru aðalengjar Skinneyjarbænda og ætla má að þar hafi verið haft í seli með búsmala um sumur. Telja má líklegt að seljamannvirkin hafi síðar verið nýtt sem beitarhús frá Eskey, eftir að Skinneyjarbærinn var fluttur þangað um aldamótin 1700. Þar voru öll fjárhús frá Eskey utan einn lambakofi sem stóð á heimatúninu.[1]

Lítil vatnskvísl er á milli Eskeyjar og engjanna og í þessa kvísl náði sér oft mikið vatn frá Heinabergsvötnum, að illkleift var orðið að komast á milli engja og bæjar með heyfeng að sumarlagi.[3]

Á síðustu árum byggðar á Eskey lágu, Heinabergsvötn svo í Eskeyjarkvísl að mjólka varð ærnar út á Selbakka og reiða málnytina í hvert sinn upp yfir kvísl, en sundreka kýrnar í og úr haga. Árið 1902 fékk Magnús Magnússon á Bakka byggingu á Eskey. Var þá strax um vorið byggður bær á Selbakka. Túnstæðið var lítið og óhentugt. Eftir að Jón tók við búi þar, var mikið gert af stíflugörðum út frá bænum og vatni veitt á til engjabóta. Þá var og garður gerður fyrir norðan bæ, bakka á milli og út eftir vesturbakkanum, til að verja landið hið næsta bænum fyrir hinum illræmdu Vatnsdalshlaupum. Þau hlaup byrjuðu árið 1898 og voru árviss á þessar slóðir til 1945, er þau ásamt Heinabergsvötnum, náðu sér farvegi vestur í Kolgrímu og voru þá orðin mikið vatnsminni.[3]

Um 1910 er bænum á Selbakka lýst sem torfbæ með 2 heilþilum og timburstofu að auki.[2] Síðustu ábúendur á Selbakka (áður Eskey) voru Jón Magnússon og Jóhanna Kristín Guðmundsdóttir. Þau tóku við búi af Magnúsi föður Jóns árið 1914. Bróðir Jóhönnu, Vilhjálmur Guðmundsson dvaldi á Selbakka sem unglingur í tíu ár, tímabilið 1913-1923. Greinagóð lýsing Vilhjálms á bæjarstæði Selbakka birtist í örnefnaskrá fyrir Eskey:   „Húsatóftir á Selbakka eru lágkúrulegar því að grjót var tekið úr veggjum og sandbyljir skófu torfhleðslur. Húsaskipan var þessi: Austast var fjós, þá íbúð á gólfi með langvegg mót suðaustri og stafni gegnt suðvestri, gerðum af timbri og járnklæddir. Herbergi 4 og eldhús. Þá var stór hlaða með langvegg, járnklæddum, mót suðvestri. Næst í röðinni var vænt torfhús með árefti og hellu, sem hafði upphaflega verið hlaða en síðar nýtt sem eldiviðargeymsla m.fl.. Innst var hrútakofi og smiðja. Bak þessara síðast töldu húsa var lítil skemma með lofti. Peningshús voru þessi; Yst á túnbakkanum var hesthús, þá hlaða með tveimur fjárhúsum, aðeins innar stórt fjárhús. Innan við bæ var fyrst hesthús, þá litlu innar einstakt fjárhús, því næst stórt fjárhús, kofi, heygarður og fjárrétt“.[3]

Að áratug liðnum eftir að Jón tók við búi föður síns á Selbakka var honum ekki lengur vært á jörðinni vegna vatnaágangs. Í desember 1924 kom Vatnsdalshlaup á freðna jörð og ísi lögð vötn. Flóðið sprengdi skörð í vörslu- og áveitugarðana og gekk mjög nærri bænum.[3] Vorið 1925 flutti Jón og fjölskylda í Breiðdal og lagðist Selbakki í eyði í kjölfarið. [1] Þar með lauk aldalangri búsetusögu hinnar fornu jarðar Skinneyjar.

Heimildir:

[1] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ.

[2] Manntal á Íslandi 1910. I Skaftafellssýslur.(1994).Reykjavík: Ættfræðifélagið.

[3] Stefán Einarsson (1971). Örnefnaskrá fyrir Eskey. Skrásetjari: Vilhjálmur Guðmundsson, f. 1900. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.