Viðborð

Bæjarstæði Viðborðs er í suðaustur frá Viðborðsfjalli skammt frá Hornafjarðarfljótum. Víðsýnt er frá bæjarhlaðinu, yfir fljótin til innri hluta Nesjasveitar og Nesjafjalla. Ekki er annað vitað en bærinn hafi ávallt staðið á sama stað. Nafn jarðarinnar er oftast ritað Viðborð (Vidbord) í eldri heimildum, einkum máldögum en seinna tíðkaðist nokkuð að nefna jörðina Vindborð, einkum á 18. og 19. öld.

Í Landnámu segir: „Þorsteinn hinn skjálgi keypti land að Hrollaugi allt frá Viðborði suður um Mýrar og til Heinabergsár. Hans son var Vestmar, er Mýramenn eru frá komnir“.[1] Ekki er vitað með vissu hvar bústaður Þorsteins var en í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu segir: „Jörðin Viðborð var landnámsjörð. Þar bjó fyrstur Þorsteinn skjálgur“.[6]

Á Viðborði var hálfkirkja til forna og bænhús lengi eftir að kirkjan var aflögð. Elsta heimild um Viðborðskirkju er máldagi Árna Þorlákssonar biskups (Staða-Árna) frá 1270.[2] þar er getið Maríukirkju og „skal syngja annan hvern dag helgann og hinn fjórða hvern óttusöng.“ Í gömlum máldaga frá 1523 í biskupatíð Ögmundar Pálssonar eru taldar upp eignir Þorlákskirkju á Viðborði.[3] Samkvæmt Gíslamáldaga frá 1576 átti kirkjan fjögur kúgildi og tvær klukkur kólflausar.[4] Eftir að kirkjan var lögð niður var þar bænhús um langan tíma. Um aldamótin 1900 sást ennþá móta fyrir bænhústóft fyrir framan kálgarðinn á Viðborði og grafreit í kringum hana. Grafreiturinn var í tvennu lagi og greina mátti nokkur leiði innan hans. Nú er þar slétt tún og eru ofangreindar heimildir eini vitnisburðurinn um tilvist þessara mannvirkja frá fyrri öldum í heimatúni Viðborðs.

Í Jarðaskrá Ísleifs Einarssonar frá 1708-1709 segir: „Vindborð. Bænda eign. xx hdr. Landsk. 1 hdr. Ixxx áln. Kúg. ekkert. Kvaðir aungvar.“ Jörðin átti reka ítak á Viðborðsfjöru fyrir Einholtslandi, beit fyrir 9 hross og nokkurt geldfé í Hólalandi og reiðingsristu í landi Keldholts.[5]

Grjótá kemur niður Grjótárgljúfur og rennur vestan við Grjótárhraun og hefur ætíð ógnað bænum og túni á Viðborði með vatnsflaumi og aurframburði. Heimatúnið var ekki stórt en slétt. Undir miklum hluta þess er aur frá Grjótá og var túnið kallað harðbalatún áður en erlendur áburður kom til sögunnar.[6] Það reyndist erfitt að útfæra heimatúnið en ræktarlönd voru nokkuð góð í hraunum suðvestur frá Viðborði.

Í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu um Viðborð segir: „Engjalönd á Viðborði voru grasgefin og víðlend, mikil gulstararengi, blautlend og langsótt. Engi þetta var misjafnt eftir því hvernig Hornafjarðarfljót léku hverju sinni. … Afréttarlönd á Viðborði eru nokkuð mikil og sæmilega góð Viðborðshraun voru orðlögð fyrir gæði og hagsæld til vetrarbeitar og þá reyndist beitin þar best, þegar hart var í högum og féð lagði sig mest eftir beit á klettum, skóf og mosa.[6]

Samkvæmt manntali 1703 er fjórbýli á Viðborði, en síðar oftast tvíbýlt fram undir þess tíma að Viðborð fór í eyði 1945.[7][6]

Vestan Viðborðs er hvammur í hraunboga er kallast Hvammar, þar var búið þegar fleirbýli var á Viðborði. Víða í Hvömmum má finna mannvistarminjar frá ábúðartíma Viðborðs, m.a. tóftir Dilkalambhússins og bæjarhúsanna í Hvömmum, sem stóðu undir Hvammaklettum fast við Fjósaklett. Í Hellra-hraunum eru nokkrir skútar, Búrsi, Útiskjól og Norðurhellir, þeir voru nýttir sem fjárskjól. Upp af Stekkatúni vestast í Hellrum er hellisskúti sem kallast Skútustaðir, þar var búið í nokkur ár.[8]

Kristján Benediktsson í Einholti er heimildarmaður örnefnaskrár Viðborðs en þar lýsir hann staðháttum á uppvaxtarárum sínum á Viðborði í lok 19. aldar. Þegar ég man fyrst eftir mér á Viðborði, voru þar þrjú bæjarhús, baðstofa í miðið undir skarsúð og kýr undir palli, eldhús til annarra handar með hlóðum hótré og hó, sem potturinn var hengdur á, og tað, þegar til var, í innri enda þess. Til hinnar handar við baðstofuna var geymsluhús, þar sem höfð voru keröld með skyri og tunnur með kjöti og slátri og ýmis fleiri ílát. Fjalir voru á bitum í skemmunni, og var þar ýmislegt lagt upp á, svo sem ull og tólg, aðhleyptir magálar og fleira. Öll voru hús þessi fremur léleg. Fjórða húsið var þar í námunda við hin húsin: Það var smiðja. Þar smíðaði faðir minn hestjárn og fleira. Þar voru geymdir reiðingar og reipi og ýmislegt fleira, en hangikjötið í eldhúsi. Hesthúsin voru heima á túni en kindahúsin voru hingað og þangað upp um kletta.[8]

Jörðin fór í eyði 1945.

Heimildir:

[1] Íslensk fornrit I. bindi s. hluti (1968). Íslendingabók – Landnámabók. Reykjavík: Jakob Benediktsson gaf út.

[2] Íslenskt fornbréfasafn II. bindi. 1253-1350. Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmenntafélag, 1893.

[3] Íslenskt fornbréfasafn. IX. bindi 1262-1536. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélagi, 1909-1913.

[4] Íslenskt fornbréfasafn. XV. bindi 1567-1570 (og síðar). Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélagi, 1947-1950.

[5] Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið.

[6] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ.

[7] Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.

[8] Stefán Einarsson (1971). Örnefnaskrá fyrir Viðborð. Skrásetjari: Kristján Benediktsson, f. 1881. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.