Helluhraun

Í Borgarhöfn voru áður fyrr fjölmörg býli. Við manntal 1703 eru skráð fimm býli í Borgarhöfn en flest voru þau skráð 12 talsins í byggð á sama tíma sbr. Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu.[1][2] Munnmæli eru um að búið hafi verið á 15 býlum í einu í Borgarhöfn, en er þá miðað við að þar sem eldstæði var, þar hafi verið býli.[3] Það voru þá svokölluð húsmannsbýli.

Láglendi í Borgarhöfn er allt sett holtum og hraunum sem liggja í skipulegum línum frá austri til vesturs, þar eru sum staðar fagrar klettaborgir.[2]

Helluhraun er miðja vegu á milli Staðarár og Vagnsstaða norðan við svokallað Teigshraun. Hraunið er klettótt að austan og sunnan  en ekki mjög hátt. Að norðan er það slétt og er þar hlaðinn mikill garður úr grjóti eftir endilöngum klettunum. Þar eru greinilegar bæjarhúsatættur enda var búið þar á árunum 1871– 1885. Síðar voru þar sauðahús.[4]

Í og við Helluhraun eru miklar búsetuminjar, veglegastar eru bæjartóftirnar í hvilft austast á milli kletta. Er þar útsýni til suðurs og bærinn vel falinn á skjólgóðum stað innan klettaborgarinnar. Í vestur frá bæjartóftum eru þrjár tóftir undir hrauninu. Þær eru vallgrónar og virðast því vera mun eldri. Vestast undir hrauninu eru ummerki uppsprettu og virðist vera hleðsla við hana. Þar er hugsanlegt að hafi verið vatnsból bæjarins.

Rétt vestan við Helluhraun er forn fjárborg, hringlaga og mjög greinileg. Að líkindum hefur hún verið hlaðin úr steinum því hringurinn er vel mótaður að sjá, þó er algerlega gróið yfir hleðslurnar.

Á árunum 1871 – 1885 bjuggu í Helluhrauni Jón Daníelsson og kona hans Guðrún Runólfsdóttir. Þau komu frá Hvoli í Fjótshverfi. Guðrún var systir Eyjólfs Runólfssonar hreppsstjóra á Reynivöllum.[5] Meðal afkomenda þeirra var Eyjólfur Ingvar Runólfsson Jónssonar er ólst upp á Reynivöllum, hjá Eyjólfi ömmubróður sínum og bjó síðar á Höfn í Hornafirði.

Heimildir

[1]  Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
[2]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[3]  Halldóra Gunnarsdóttir, Höfn (2021). Munnmæli.
[4]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Borgarhöfn. Heimildarmaður: Skarphéðinn Gíslason á Vagnstöðum.     Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[5]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is

Scroll to Top