Krókur, Fljótsbakki eða Slétta

Ábúendatal

Á árunum 1849 – 1863 bjuggu í Króki Magnús Guðmundsson f. 1815 og fyrri kona hans, Ingibjörg Benediktsdóttir f. 1820, d. á Fljótsbakka 1860. Börn þeirra voru Guðmundur, f. 1840, Sigríður, f. 1842, Guðrún, f. 1843, Benedikt, f. 16.11. 1844, Halldór, dó ungbarn 18.4. 1846, Halldór, f. 1848, Guðmundur, f. 19.10. 1849, d. 17.11. 1849, Jón, f. 1852, Guðmundur, f. 22.11. 1855, d. 12.1. 1860, Herdís, f. 26.8. 1857, d. 5.1. 1858. Fósturbarn þeirra var Sigríður Benediktsdóttir, f. 1834 (systir Ingibjargar). Seinni kona Magnúsar var Björg Þorláksdóttir f. 1835 og voru þau gefin saman 13.11. 1860 í Kálfafellsstaðarkirkju. Börn þeirra: Ingibjörg, f. 1862, Þorlákur, f. 2.8. 1871, d. 6.8. 1871. Ekki er hægt að sjá annað af heimildum en að þau hafi búið í Króki í Hellalandi öll þessi ár, en byggð lagðist þar af þegar þau fluttu á fjórða býli á Skálafelli. [1][3]  

Samkvæmt Sýslu- og sóknarlýsingum Skaftafellssýslna árin 1839 – 1873 segir séra Þorsteinn Einarsson prestur á Kálfafellsstað, að hann hafi látið flytja bæinn frá Hellum niður í landið í suðvestur, á svokallaðan Fljótsbakka árið 1849 og telur til nýbýla (skráð 1855).[2] Ekki fóru Hellar samt endanlega í eyði fyrr en 1864, svo ekki hefur Þorsteini tekist ætlunarverk sitt strax. 

Heimildir um þetta býli eru mjög misvísandi hjá séra Þorsteini Einarssyni. Í sóknarmannatali hans og prestþjónustubók frá þessum árum notar hann mörg nöfn um stað þann sem Magnús Guðmundsson og Ingibjörg kona hans bjuggu á. Sem dæmi má nefna að árið 1850 skráði hann þau á Fljótsbakka, árið 1851 í Hellum, árin 1852 og 1853 á Sléttu og 1855 á Fljótsbakka. Hann skráir samt Guðmund son þeirra fæddan á Sléttu árið 1855. Árin 1858 – 1859 eru þau skráð á Fljótsbakka og árin 1862 – 1863 í Króki. Herdís dóttir þeirra hjóna dó 1858 og í kirkjubók eru þau skráð í Króki við andlát hennar, sem ber þá ekki saman við sóknarmannatal þess árs.[1] Niðurstaða þeirra sem hafa rannsakað búsetusögu þeirra hjóna er að þetta sé allt sama býlið en með mismunandi nöfnum. Magnús og Björg fluttu síðan á 4. býli á Skálafelli sem sennilega hefur verið Austurlandið ,og þaðan að Króki í Borgarhöfn árið 1867.[3] 

Það hafa verið þung örlög sem mættu þeim Magnúsi og Ingibjörgu niður í Hellalandinu, þar sem þau reistu sér býli. Þangað fluttu þau með fimm af börnum sínum sem þá voru á lífi. Þar á meðal var Halldór á fyrsta ári, en sonur hans var Snorri Halldórsson síðar læknir á Breiðabólsstað á Síðu. Það hljóta að hafa verið mikil viðbrigði að flytja þarna niður á sléttuna, þar sem ekkert skjól var fyrir næðingsvindum og votlendi allt um kring. Í Fljótinu var reyndar ágæt silungsveiði rétt við bæjardyrnar og sjósókn frá Bjarnahraunssandi var rétt austar. 

Þau hjón eignuðust tíu börn en lánið var valt hjá leiguliðunum á sléttunni í Hellalandinu. Ingibjörg húsfreyja dó 7. júní árið 1860 úr taksótt sem þá gekk. Sama dag dó Sigríður dóttir þeirra hjóna átján ára gömul úr sömu veiki, en Guðmundur elsti sonur þeirra dó þremur dögum áður. Magnús bóndi horfði þar á eftir tveimur elstu börnum sínum og eiginkonu í gröfina á nokkrum dögum, allt fólk í blóma lífsins. Í byrjun árs 1860 dó Guðmundur yngri, sonur þeirra fimm ára gamall. Tveimur árum áður dó ung dóttir þeirra hjóna ársgömul og tveir synir höfðu látist sem ungabörn áður en þau fluttu í Hella. Það hafa því án efa verið sárar minningar sem Magnús átti frá búsetu sinni í Hellum og nágrenni. Ef til vill var það ástæðan fyrir því að Snorri Halldórsson (1889-1943) sonur Halldórs Magnússonar (1848-1924) lærði til læknis og var lengi starfandi læknir á Breiðabólsstað á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Dæmi voru um að Suðursveitungar leituðu sér lækninga hjá honum, þó það hafi verið langsótt og yfir margar jökulár að fara. Magnús gafst samt ekki upp, hann kvæntist aftur strax um haustið Björgu Þorláksdóttur (f.1836) og voru þau skráð í búsetu í Króki til ársins 1864 samkvæmt sóknarmannatali.[1][3] 

Að vandlega skoðuðu máli og eftir athugun í fumritum prestþjónustubóka og sóknarmannatala séra Þorsteins Einarssonar, virðist Magnús búa á þessum stað þ.e. Króki á Króksbakka í Hellalandi til ársins 1864.[1][3] Ekki sjást nein merki um að hann hafi flutt í Krók í Borgarhöfn 1861 eins og fram kemur í Byggðasögu Borgarhafnarhrepps.[4] Býlið er oft kallað Krókur í skráningu séra Þorsteins fyrir árið 1860 svo og fram til 1864. Í Borgarhöfn finnst ekki nafnið Krókur á þessum tíma, þar er talað um Borgarhöfn þ.e. 1.býli, 2.býli o.s.frv. Því ber þessari frásögn ekki saman við fyrri skrif um Magnús Guðmundsson og fjölskyldu hans. 

Það er gaman að ganga í hlað á Króki/ Sléttu/ Fljótsbakka á góðum degi. Best er að keyra niður með Steinavötnum að austan og síðan austur fjörurnar á móts við Hellakletta og ganga þaðan upp í landið vestan Fljótsins. Það kostar reyndar nokkuð kjag á milli þúfna, krækja þarf fyrir væsur og læki og betra að vera vel skóaður. Áin Fljót sem áður er getið bugðar sig niður Hellalandið austan bæjartóttanna og mætir Krókskvíslinni rétt austan við Krókstætturnar. Fljótið er mikill farartálmi með háum bökkum og djúpum hyljum og leita þarf vaða til að komast austur yfir það. Tóftin á Króksbakkanum lætur lítið yfir sér, er einmana þarna á sléttlendinu, en engu að síður greinileg. Á fallegum degi er víðsýnt til allra átta og sjávarhljóðið sem ómar þarna á sína eigin tóna, sem ekki heyrast annars staðar en í Suðursveit. 

Heimildir

[1]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is  
[2]  Þorsteinn Einarsson, (1997). Kálfafellsstaðarsókn ár 1855. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna), Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 125-143). Reykjavík: Sögufélag. 
[3]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is 
[4]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.