Einbúi við Staðará

Einbúi var býli í landi Kálfafellsstaðar. Það var austur við Staðará, suðvestan undir stakstæðum kletti sem ber sama nafn. Þar sér greinilega til tófta, en bæjarskipan er óljós. Kartöflugeymsla frá Jóhanni Björnssyni bónda á Brunnum var byggð ofan í tóftina. Tóftirnar eru því aflagaðar og auk þess hefur Staðará brotið af landinu austan við þær. Einbúi var stutt í byggð, á árunum 1877-1891 og ekki samfellt.[1] Býlið virðist hafa verið öreigakot og þeir sem bjuggu þar hafa ef til vill miðað við að hafa lífsviðurværi af sjósókn frá Bjarnahraunssandi frekar en búskap, eins konar húsmannsbýli. 

Þórbergur Þórðarson segir um Einbúa: „Einbúi var austur við Staðará, kannski um tólf mínútna gang frá Staðnum, dálítið fyrir sunnan háaustur. Bærinn dró nafn af einstæðingskletti, sem hann stóð sunnan undir, fast við ána vestan megin. – Ég hugsaði oft um Einbúa, áður en ég sá hann, og alltaf þegar ég heyrði hann nefndan, sá ég framan á karlmannsfót upp að hné og hendur á sama karlmanni vera að bjástra við að draga skinnsokkinn upp á fótlegginn, ég man ekki hvorn. Ég sá skinnsokkinn mjög greinilega. Hann var til dæmis ekki harður og ekki blautur, en linur. En hendurnar voru í hálfgerðum ósýnilegheitum. Ég held það hafi ekki lengi verið búið á Einbúa. Þar bjó síðast – og máski fyrst – Einar, sonur Sigurðar, bróður Guðnýjar ömmu minnar. Ég heyrði oft nefndan „hann Einar á Einbúa“, þegar ég mundi fyrst eftir. Mér þótti vænt um, þegar þessi bær lagðist í eyði. Mér fannst hann vera svo sárgrætilega mikill einstæðingur.“[2]  

Heimildir

[1]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatöl 1849-1879; 1881-1888 og 1890-1905 . Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is 
[2]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning. 

Scroll to Top