Einbúi við Staðará

Ábúendatal

Árin 1877-1882 bjuggu í Einbúa við Staðará, Bjarni Guðmundsson, f. 1846. og kona hans Guðrún Árnadóttir f. 1838. Guðrún dó í Einbúa árið 1878, þá 40 ára gömul. Áður höfðu þau hjón misst bæði börn sín. Bjarni kvæntist aftur, Steinunni Jónsdóttur f. 1845. Börn þeirra voru: Benedikt, f. 1883 og Jóhanna Guðrún, f. 1885 og stjúpdóttir Steinunn Bergsdóttir, f. 1874. Bjarni kom frá Brunnum að Einbúa og fór þaðan að Holtum á Mýrum. Þau hjón Bjarni og Steinunn fluttu síðan til Vesturheims ásamt systkinum Bjarna.[1] [2] 

1890-1892 bjuggu í Einbúa Einar Sigurðsson f. 1857 og kona hans Hólmfríður Bjarnadóttir f. 1852 með fimm ungum börnum sínum. Einar bjó fyrr í Hömrum, fór að Geirsstöðum, en flutti síðan til Mjóafjarðar og þaðan til Vestfjarða. Börn þeirra voru níu og áttu þau barnaláni að fagna: Margrét, f. 1880, Sigurður, f. 1882, Guðfinnur, f. 1883, Benedikt, f. 1884, Helgi, f. 1887, Kristjana, f. 1889, andvana mey­barn, f. 22.10. 1890, Sveinn, f. 1892, Lúðvík, f. 1894. [1] [2] 

Þegar komið var fram undir aldamótin 1900, sáu leiguliðar og kotbændur opnast leið til betra lífs með því að flytja sig um set til annarra landshluta, jafnvel annarra landa eins og ferðir til Vesturheims eru gott dæmi um. Þetta átti við um þær fjölskyldur er bjuggu í Einbúa og vegnaði þeim vel á nýjum slóðum, þó ekki hafi það verið átakalaust og án efa krafist mikilla fórna.

Heimildir

[1] Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is  
[2] Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849-1879; 1881-1888 og 1890-1905. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is Sóknarmannatal 1849 –1879 

Scroll to Top