Steinar

Ábúendatal

Steinar voru í byggð öldum saman, en þó ekki samfellt. Fyrst er vitað  að 1601 – 1603 bjó þar uppgjafaprestur séra Gissur Eyjólfsson. Hann átti í málaferlum og missti jörðina á  dómaþingi í Holtum 11, mai 1603[1] Um hann er lítið vitað annað en það sem snertir þetta dómsmál sem rekið var af séra Katli ÓLafssyni á Kálfafellsstað, og ekki einu sinni vitað hvar hann var áður prestur.

Við manntal 1703 er ábúandi í Steinum prestsekkjan Margrét Magnúsdóttir, sjá nánar manntal 1703 undir þessum lið. Maður Margrétar f. 1649 var Bjarni Hallsson prestur á Kálfafellsstað 1670 – 1688. Páll sonur Margrétar er sagður bóndi í Steinum 1707.[2] Margrét var dóttir séra Magnúsar Péturssonar á Hörgslandi sem orti Tyrkjasvæfu.[3]

Ekkert er vitað um ábúð í Steinum um langt árabil og heimildir slitróttar, fyrr en þangað kemur Þorvarður Björnsson f. 1699 sonur Björns Þorleifssonar f 1662 lögréttumanns á Reynivöllum. Þorvarður fór til náms í Skálholtsskóla og lærði bæði til prests og sýslumanns en kaus að verða bóndi í Suðursveit Hann bjó í Steinum á árunum 1735 – 1743, með vissu, en skráður á Breiðabólsstað 1753 og síðar á Reynivöllum.  Einar Bragi telur hann hafa hlotið að hefja búskap á Steinum fyrr en árið 1735.[4] Talað er um að Steinar hafi farið úr byggð vegna skriðufalla 1743, en hugsa má að jörðin hafi verið nytjuð áfram fyrir búpening. Þorvarður var talinn fjárríkasti bóndi í Suðursveit er hann flutti frá Steinum.[5] Þorvarður var skikkaður til  prests í Sandfelli 1751 en þáði ekki og afsakaði sig með heilsubresti. Hann giftist aldrei og var barnlaus, en getgátur eru um að hjá honum hafi verið bústýra Gróa Bjarnadóttir f. 1717.[6] Sagnir lifðu í Suðursveit um ríkidæmi Þorleifs í Steinum.

1753 í bændatali er skráð búandi í Steinum, ekkjan Gunnhildur Stefánsdóttir f. 1692 Hennar maður var Gísli Eiríksson, f. 1684, lögréttumaður og hreppsstjóri, hún kemur frá Breiðabólsstað. Börn þeirra: Eiríkur, f. um 1724, Stefán, f. 1732, Hannes, Guð­rún, Guðrún. Eiríkur og Stefán synir Gísla munu hafa átt hálfan Breiðabólstað 1762 (samtals 15 hundruð). Engar heimildir eru um hve lengi ekkjan bjó í Steinum[7]

Um 1760 er í Steinum Jón Jónsson f. 1692. Um hann er lítið vitað með vissu og einu heimildir er krambúðarbækur frá Djúpavogi.[8]

1760 – 1763 býr þar  Hallur Ásgrímsson lögréttumaður og hreppsstjóri, ekki vitað nákvæmlega um fæðingarár og kona hans Vilborg Gissurardóttir f. 1718. Hallur deyr 1761 og Vilborg býr áfram á jörðinni. Börn þeirra: sonur, f. 1739, Ásgrímur, f. 1744, Gissur, f. 1746, Guðrún, f. 1749. Þau bjuggu á Breiðabólsstað í bændatali 1753. Hallur tíundaði 7 hundruð í lausafé 1753. Hann kom nýnefndur til alþingis 1757 og reið aftur til þings 1760.[9] Margt er óljóst um þeirra ættir og afkomendur . [10]

1771 í allmörg ár Þorsteinn Pálsson f. 1741/ 1742 dó í bólunni á Felli 1786. Kona hans Guðrún Gísladóttir yngri. Börn þeirra: Jón, f. 1767, Hannes, d. 1786 (þeir nafngreindir hjá biskupi Steingrími og prófasti Einari á Hofi),Vilborg, f. 1771 (biskup vissi af dóttur; við manntal 1816 á Breiðaból­stað sést,að Vilborg fæddist í Steinum). Ekki vitað hve lengi þau bjuggu í Steinum.[11]

1785 – 1787 Jón Jónsson og Rannveig Jónsdóttir f. 1752 . Jón deyr úr Stórubólu 1786 og Rannveig er áfram í Steinum. Dóttir þeirra Valgerður erfir hlur Halls Jónssonar föðurbróður síns í Fellinu  eftir að faðir hennar deyr. Þau Jón og Rannveig voru í hjónabandi í 11 ár en eignuðust bara þetta eina barn. Rannveig átti síðar í barnsfaðernismálum og Einar Bragi telur líkur á að Jón hafi ekki verið faðir Valgerðar þar sem að þau eignuðust ekki fleiri börn, heldur hafi gifst henni til að gangast við barninu.[12]

1787 – 1788 Eyjólfur Jónsson f 1735 og Rannveig Jónsdóttirf 1752, hann annar maður Rannveigar. Þeirra börn Jón f. 1788 og Gróa f.1790. Eyjólfur 17 árum eldri en Rannveig. Þau flytja síðan að Felli á jarðarhluta Valgerðar 1788. Einar Bragi skráði: “Af ýmsum ástœðum hallast ég að því, að Rannveig hafi verið ófrísk eftir annan mann, þegar hún giftist Eyjólfi, og hjónaband þeirra mest á yfir­borðinu til að komast hjá árekstrum við öfugsnúin lög og almenningsálitið. Eyjólfur er tekinn að reskjast og gengur ekki heill til skógar…”. Rétt er, að sem ekkja gift­ist Rannveig en var ekki gefin að frændaráði, svo að enginn tók ábyrgð á, að hún færi kona einsömul. Ef hún var ólétt eftir annan, gæti Eyjólfur hafa keypt hana sér til fjár. Áhöfn Eyjólfs 1787 var þrjár kýr, tveir kálfar, fjórar ær, aðrar tvær ær veturgamlar, tveir sauðir veturgamlir og þrír tamdir færleikar. Í heimilinu voru fimm manns. [13]

1788-1792 Þórarinn Jónsson, f. 1738. Kona: Ragnhildur Sigurðardóttir, f. 1730. Sex voru í heimili Þórarins árið 1787.  Áhöfn hans var fjór­ar kýr, þrír tamdir færleikar og einn ótaminn. Þórarinn bjó fyrr á Uppsölum, fór að Gerði.[14]

1792-1794 Þórður Ófeigsson, f. 1757. og kona hans  Guðný Árnadóttir, f. 1765, . Börn þeirra finnast öll sem skírð í ministerialbók séra Magnúsar Ólafssonar: Vilborg, f. 1788, Jón, f. 1789, Ófeigur, f. 1794, Jón, f. 1796, Guðmundur, f. 1797, Ragnhildur, f. 1799, Árni, f. 24.8. 1803, d. 18.8. 1804, Ólöf, f. 1805. Ef Þórður og Guðný eignuðust börn í Suðursveit, má ætla þau hafa verið skammlíf. Áhöfn Þórðar 1787 var tvær kýr, kálfur, sex ær, tvær ær veturgamlar, sauður veturgamall, tveir tamdir fær­leikar og einn ótaminn. Þrír voru í heimili. Þórður fór að Þinganesi.

1794-1796 Hákon Jónsson, f. 1750. og kona hans Katrín Árnadóttir f 1754. Hann fyrri maður hennar. Þeir skipta á jörðum Þórður og Hákon, konur þeirra voru systur. Börn þeirra: Bárður, f. 1788 (var í foreldrahúsum 1790), andvana barn, greftrað 29.8. 1790, andvana meybarn, f. 29.8. 1793, Hjörleifur, f. 21.3. 1794, sálaðist strax að fenginni skemmri skírn. Hákon átti eina dóttur af fyrra hjónabandi Gunnhildi f. 1782. Áhöfn Hákonar 1787 var þrjár kýr, fjórar ær, tvær ær veturgamlar, þrír sauðir veturgamlir, tveir tamdir fær­leikar og folald. Fimm manns voru í heimilinu. Hákon drukknar í Skeiðará 1795 0g býr ekkjan Katrín Árnadóttir í Steinum einu ári lengur. 
Nokkrar sagnir hafa varðveist um Hákon þar á meðal málaferli út af reknum hálfétnum hákarli. Hákon var í Steinum og ritaði stiftamtmanni 12.6. 1794, því að nokkuð étinn hákall hafði 10 dögum fyrr rekið á fjöru jarðarinnar en nýfarinn ábúandi, Þórður Óf­eigsson forboðið hon­um fiskinn, sem Hákon þó áleit sjónarlegt, að Guð hefði gefið sér þurfandi því frekar sem hann væri duglegri en Þórður að rækta jörðina með áburði og annarri skyldu, auk þess sem hinn hefði neytt sig til jarðaskiptanna og fyrir fardaga flutzt upp á sig í Þinganesi. Hákon bað nú hávelborinheitin að leggja úrskurð á.[15] Einnig kvartaði Hákon í bréfi til stiftamtsmanns undan versluninni á Djúpavogi og ef til vill hefur það verið erindi hans vestur á Skeiðarársand að koma bréfinu áleiðis með þeim hörmulegum afleiðingum að hann drukknar þar. [16] Í aðventuskýrslu séra Vigfúsar Benediktssonar 1795 er sagt að 45 ára eiginmaður úr Suðursveit hafi drukknað á kirkjuárinu í Skeiðará og verið greftraður í Örœfum.[17]

1798-1804 Bjarni Eiríksson, f. 1757. Hann giftist ekkjunni Katrínu Árnadóttur og er orðinn bóndi í Steinum 1798. Þau eignuðust ekki börn en hjá þeim í Steinum 1801 eru Gunnhildur Hákonardóttir og Bárður Hákonarson og 2 fósturbörn Jórunn Jónsdóttir f. 1797 og Sveinn Sveinsson  f. 1798 sonur Rannveigar og Sveins á Felli.[18]

1809-1810 í byggð en ekki vitað um ábúendur

1810-1817 Úr byggð vegna skriðufalla .[19]

1823-1825 búa í Steinum Jón Eyjólfsson, f. 1788 og Elín Guðmundsdóttir f 1791. Jón kom frá Kálfafelli og fór að Butru. Jón var sonur Eyjólfs Jónssonar og Rannveigar á Felli. Börn þeirra: Ragnhildur, f. 20.3. 1816, d. 26.3. 1816, Ragnhildur, f. 1817, Elín, f. 1821, Margrét, f. 1823, Rannveig, f. 27.7. 1829, d. 12.8. 1829, Benedikt, f. 10.10. 1832, d. 23.10. 1832.  Í þjóðsögum Torfhildar Hólm eru margar sagnir hafðar eftir Elínu Jónsdóttur dóttur þeirra hjóna sennilega um 1878, en kenndar við Elínu Guðmundsdóttur móður hennar.[20]  Sagnirnar eru margar með þjóðsögulegum blæ og bera merki þess að hafa breyst í frásögnum á milli kynslóða.

1825-1826 koma að Steinum Jón Jónsson, f. 1800. og kona hans Hólmfríður Guðmundsdóttir f.1795. Þau skipta á búsetu við Jón og Elínu, koma frá Butru.  Börn þeirra voru sjö: Guðmundur, f. 10.6. 1826, d. 15.6. 1826, andvana meybarn, f. 10.6. 1826, Margrét, f. 1827, Sigríður, f. 30.12. 1828, d. 7.1. 1829, Guðný, f. 1832, Málfríður, f. 1836, Sigríður, f. 28.7. 1836, d. 12.8. 1836 (tvíburi við Málfríði). Þau  fóru að Hofskoti en síðan austur á Mýrar og hann ferst eða týnist í Skinneyjarslysinu 1843. Jón kom frá Þiljuvöllum á Berufjarðarströnd með foreldrum sínum en ólst upp á Gerði í Suðursveit frá 1907. Steingrímur bróðir hans var tengdafaðir Oddnýjar á Gerði.   Guðný dóttir þeirra  Jóns og Hólmfríðar varð síðar húsfreyja á Breiðabólsstað, giftist Gísla Þórarinssyni, þeirra sonur Þórarinn.[21]

1826-1829 koma Ingimundur Þorsteinsson, f. 1794 og Helga Bjarnadóttir f. 1799 kona hans að Steinum frá Hofskoti í Öræfum . Þeirra börn voru : Þorsteinn, f. 1822, Guðný, f. 10.6. 1825, d. 10.3. 1839, Bjarni, f. 17.12. 1827, d. 12.6. 1838, Sigurður, f. 1829, Ingunn, f. 27.4. 1832, d. 12.5. 1837, Guðlaug, f. 1835, Jón, f. 5.8. 1839, d. 1.7. 1840. Það eru þau sem tóku á móti örlögum sínum í vatnsflóði og miklu hrapi úr fjallinu 7. júlí 1829, og undir steini í hlíðinni fæddist sonur þeirra Sigurður Ingimundarson  þessa örlagaríku nótt. Um atburð þennan hefur mikið verið skrifað og skráð og verður frekar fjallað um æviferil Ingimundar og Helgu í ítarefni á síðunni. Það voru þau sem síðan fluttu bæinn að Sléttaleiti . Fjölskylda Ingimundar dvaldi um veturinn 1929 – 1930 á bæjunum sunnan Steinasands og gekk Ingimundur til gegninga í Steinum, en byggði síðan nýjan bæ vestur með hlíðinni sumarið eftir.[22]  Ingimundur fékk þau ummæli að hann hefði verið listasmiður og sáttamaður , en það skráir Einar Bragi eftir Sveini Sveini Einarssyni frænda sínum  er síðar bjó á Sléttaleiti.[23]  Eitt er víst að á Sléttaleiti og í Steinmum er miklar minjar um byggð og margar hverjar rústir af veglegum byggingum. Þar má örugglega sjá handverk Ingimundar í Steinum og ætla má að smiðjuna á Sléttaleiti sem enn stendur uppi hafi Ingimundur byggt þau ár sem hann bjó þar. Um hana eru nokkrar sögur til  sem verða birtar sem ítarefni. 

Sveinn Sveinsson, f. 1751 á Gerði, d. 19.5. 1818 á Kálfafelli, úr holdsveiki og ellilasleika, sagður 67 ára. Átti heima í Borgarhöfn 1786, bóndi á Gerði 87-89, á Kálfa­fellsstað 89-90, á Felli 90-91, fyrirvinna þar 91-93, vinnumaður þar 93-95, fyrirvinna þar 95-98 (var talinn fyrir búinu í búnaðarskýrslu 1705), fangi á Kálfafellsstað 98-00, vinnumaður þar 00-01[1] (51 árs 1801), ef til vill í Hoffellssókn 09-10 (lýst var með honum og seinni kon­unni “við báðar kirkjurnar”, en hún átti heima í Bjarna­nessókn), bóndi á Taðhól 10-18 (65 ára 1816). “Einn með þeim beztu forsjónar-, atorku- og vinnumönnum, tryggur, gestrisinn og greiðasamur, skikkanlegur, stjórn­samur, frómur og ráðvandur,” vottuðu séra Vigfús Benediktsson, Sigurður Guttormsson, Þorsteinn Vig­fússon, Steinn Jónsson og Ásgrímur Hallsson (höfuð Sveins lá við, að einhver mælti honum bót). “Mjög sjónlítill, daufur í g. orði,” skráði séra Magnús Ólafsson við húsvitjun 1818, en þá var Sveinn reyndar gamal­menni á grafarbakkanum.

Fyrri kona: *Þórdís Sigurðardóttir, f. 1727. Barnlaus. Hún varð kararmanneskja af holdsveiki. Seinni kona 23.5. 1810: *Guðrún Finnbogadóttir, f. 1760, d. 1830, seinni maður hennar. Barnlaus. Barnsmóðir: *Rannveig Jónsdóttir, f. 1752. Börn þeirra: *Sveinn, f. 1791, Sveinn, f. 7.5. 1797 (líklega skammlífur, sbr EB1973 II:236, 247), *Sveinn, f. 1798. Sveinn var dœmdur til dauða, því að börnin voru hórgetin. Kristján VII. kon­ungur breytti dóminum í 6 mánaða fangahald. Jón Helgason sýslumaður gaf í skyn, að *Jón Þorsteinsson, f. 1794, sem enn var sonur Rannveigar, væri rangfeðr­aður, hvort sem rétt er eða Sveinn kom þar nærri. Þau ummæli voru þó innlegg í mál hans.

Jón Sigurðsson í Steinum undir Eyjafjöllum var bréfa­vinur Jódísar Sveinsdóttur og skráði í ljóðahandrit sitt: “Ætt / Jódísar Sveinsdóttur / Sveinssonar / móðir Sveinns / Guðrún dóttir / Flugna-Þorgeirs / Péturssonar / Magnússonar prests og / prófasts á Hörgslandi / Pét­urssonar bónda / Gunnarssonar á Viðivöllum / er hélt Reyni staðar klaustur / Gíslasonar á Hafgrímsstöð­um…”. Hér ræðir um sama Svein og í þessari æviskrá. Hann var föðurfaðir Jódísar. Eins hafði Jón ættina í ætt­artölubók sinni, sem skráð mun um 1873. Og Sveinn Jónsson í Fagradal skráði einnig, að móðir Sveins hefði verið “Guðrún dóttir Þorgeirs Pjeturssonar, Magnús­sonar prests og prófasts…”. Sveinn var sonur Oddnýjar, systur Jódísar. Pétur Magnússon, f. 1648 (Lbs 184 4to 669), og kona hans, Kristín Sæmundardóttir, f. 1656 (Lbs 186 4to 1579), bjuggu 1703 í Bakkakoti undir Eyjafjöllum. Espólín hafði þau ekki, og biskup Stein­grímur nefndi ekki börn þeirra. Þorgeir Pétursson finnst ekki í manntali 1703 og þekkist ekki annars staðar frá.

Ættartalan gæti í báðum þessum gerðum helzt verið komin frá sonardœtrum Sveins, sem voru greindar konur. Ekki er víst, hvað Sveinn faðir þeirra kynntist föð­ur sínum, sem fluttist úr Suðursveit. Þess vegna er var­legt að nota ættartöluna eins og aðrar ungar heimildir af því tagi, sem ekki hafa stuðning af öðrum heimildum eða líkindum, að hver ættliðurinn, sem fyrnari er, sé nokkru óvísari en sá yngri, og ekkert fullvíst, sem ekki finnast sönnur fyrir. Þótt móðir Sveins hefði heitið Guð­rún, sé ekki eins víst um föðurnafn hennar, enn óvísara um afanafnið og svo framvegis. Staldra verður við, þeg­ar nafnkunnir menn, eins og prófastur Magnús, koma við sögu, því að slík minni geta geymzt réttilega, þó að liðum á milli skeiki. Ef nafnið Guðrún Þorgeirsdóttir er rétt eftir haft, var kona með því nafni í Suðursveit, hún *f. 1723, virðist hafa orðið ekkja 1753 eða fyrr og var 1771 í Borgarhöfn, sama bœ og Sveinn finnst fyrst á. Karlleggur hennar leiðir ekki til prófasts, þótt átt gæti hún hafa einhvern niðja hans.

Einar Bragi benti á, að systir Sveins kynni að vera *Oddný, f. 1749, sem höfundur er sammála.

Sveinn kom á Djúpavog um miðjan júlí 1786, lagði inn dálitla vöru, keypti tóbak og brennivín og lét borga sér mismuninn í reiðufé. Hann var kenndur við Borgar­höfn. Þetta var skráð með staðgreiðsluviðskiptum, og hann var ekki í reikningi hjá verzluninni þetta ár. Ef til vill var hann því vinnumaður. Búandi í Borgarhöfn þetta sumar hafa verið séra *Brynjólfur Guðmundsson, *Gísli Arason, ekkja *Gissurs Sigurðssonar [líklega *Ingibjörg Sigmundsdóttir] og *Stefán Gíslason.

Áhöfn Sveins 1787 var tvær kýr, kálfur, tíu ær, aðrar fimm ær veturgamlar, fjórir sauðir veturgamlir, tveir tamdir færleikar og einn ótaminn. Í heimilinu voru fjórar manneskjur. Túngarður Sveins stóð 80 danska faðma [150,6 metra] en lengdist ekki það árið.

EB1973 II:34nn, 178-275 (ekki samfellt); ÞÞ1975 249nn, 271, 277, 459; Ra 140 #422 fol 341; ÍB 545 8vo 327; Skógar JS-ljóð 8vo 265; Lbs 4440 4to; Stam III #110 (27.2. 1788); Alþb XVII:411, 417nn, 421, 423, 442n, 446, 450nn

[1] “Reyndar er þetta ekki rétt í manntalinu, því að Sveinn sat í tugthúsinu fyrir barneignabrot, þegar það var tekið. En hann hefur átt heimili hjá yfirvaldinu”, skráði Einar Bragi (EB1973 II:100).

Þórdís Sigurðardóttir, f. 1727 (aðeins ein heimild til­tæk um aldur Þórdísar, svo að árið þarf ekki að vera nákvæmt). For. ef til vill: *Sigurður Þorleifsson, f. 1701, og kona hans, *Hólmfríður Ólafsdóttir, f. 1702. Væri þá bóndadóttir frá Hestgerði og síðar Borgarhöfn (kannski heimasæta á síðarnefnda bœndum við manntal 1762, en enginn aldur er skráður við merkistrikið um dóttur), húsfreyja á Gerði 1787-89 (ef til vill nokkru fyrr í Borgar­höfn), á Kálfafellsstað 89-90, handbjargarómagi á Felli 90-00, á Kálfafelli 00-01 (74 ára 1801, þá í heimili Rannveigar Jónsdóttur). Varð líkþrá og lá í kör með blóðuppgangi á efri árum.

Maður: *Sveinn Sveinsson, f. 1751, d. 1818, fyrri kona hans (hann giftist aftur 23.5. 1810). Barnlaus, og hún hafði aldrei barn átt.

ÞÞ1975 249, 459; EB1973 II:80, 179n, 197, 199, 209, 247, 249, 257, 274n; Alþb XVII:442n

[1] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[2] Manntal 1703
[3] Þorsteinn Guðmundsson ByggðasagaII bindi bls 242
[4] Einar Bragi Þá var öldin önnur II bindi bls 63
[5] Þorsteinn Guðmundsson Byggðasaga II bindi bls 242
[6] Sigurður Ragnarsson Æviskrár, netútgáfa í einkaeigu.
[7] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[8] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[9] Sigurður Ragnarsson Ættarskrá netútgáfa í einkaeigu
[10] Einar Bragi Þá var öldin önnur II bindi bls 63 og Sigurður Ragnarsson Æviskrár
[11] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[12] Einar Bragi. Þá var öldin önnur II bindi bls 177
[13]  Einar Bragi Þá var öldin önnur II bindi bls 187 – 188
[14] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[15] Einar Bragi ; Þá var öldin önnur II bindi bls 212
[16] Einar Bragi; Þá var öldin önnur II bindi bls 217
[17]  Sigurður Ragnarsson Æviskrár ; netútgáfa í einkaeigu
[18] Einar Bragi ; Þá var öldin onnur II bindi bls 67
[19] Sigurður Ragnarsson ; Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[20] Torfhildur Hólm Þorsteinsdóttir ; Þjóðsögur og sagnir
[21] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[22]  Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgágfa í einkaeigu
[23]  Einar Bragi, Þá var öldin önnur I bindi bls 42

Scroll to Top