Á Breiðamerkursandi voru nokkur býli sem teljast víða í heimildum hjáleigur Fells. Vitneskja um staðsetningu þeirra er glötuð nema vitað er um býlið Bakka. Það stóð í austur frá bæjarhúsum á Felli, við bakka Fellsár. Þar sjást enn veglegar tóftir og var búið þar samkvæmt manntali 1703. Bakki er talinn með bújörðum í Jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 og er það hið síðasta sem vitað er um hjáleigu þessa.[1] Vera má að búið hafi verið lengur á Bakka og það talið eitt af býlum Fells á 18. öld. Oftast var tvíbýli á Felli en einnig er dæmi um þríbýli um tíma. Þórbergur segir að Bakki hafi staðið 150 faðma í austurnorðaustur frá Fellsbænum. Þar sáust ennþá tættur á grasi grónum bakka, sem kallaður var Fellsbakki. Sú jörð mun hafa lagst fyrst í eyði af hjáleigum Fells.[2] Vekur það furðu, ekki síst vegna þess hversu greinilegar bæjarhúsatóftir er þar að finna, virðast þær ekki svo gamlar að sjá í samanburði við lágreistar tóftirnar af Fellsbænum.