Sævarhólar

Um Sævarhóla

Sævarhólar var austasta jörð í Suðursveit, austan Kolgrímu. Bærinn stóð í samnefndri hólaþyrpingu út undir fjörunni í suður frá Austurlandi og stutt var til sjávar. Þar eru Sævarhólaklettar, annar í fjöruborðinu en hinn skammt frá landi.[1] Jörðin var í byggð frá fornu fari, var metin til 6 hundraða  og ávallt í bændaeign.[2] Í Sævarhólalandi ofan við hólana er mikið sléttlendi og voru þar góð engjalönd áður en vötnin fóru að taka af landinu og leggja undir sig gróðurlendi. Gjarnan var tvíbýli á Sævarhólum og tíð ábúendaskipti. Á 19. öld var þar skráð húsmannsbýli sem þriðja býli jarðarinnar.[3]

Ekki er vitað nákvæmlega hvar bæjarstæðin voru í Sævarhólum, en samkvæmt herforingjaráðskorti Dana frá 1903 er býli merkt vestast í Sævarhólum. Vitað er að býli var einnig í austasta hólnum, en þar var síðar kartöflugarður og tóftir því jafnaðar við jörðu. Hólarnir eru mjög sandorpnir og mótar fyrir misfellum í vestasta hólnum er bent gætu til mannvistar. Framan undir hólunum miðja vegu að austanverðu, rétt við litla tjörn eru ógreinilegar vallargrónar tóftir sem ekkert er vitað um. Ofar í Sævarhólalandi er minjaheild margra misgamalla tófta, þar á meðal fjárborgir og vegleg sauðahús með heygörðum.

Þórbergur lýsir aðstæðum í Sævarhólum þannig: „Í suður frá bænum í Austurlandi, um 50 mínútna gang, voru Sævarhólar. Sá bær lagðist í eyði af vatnagangi. Það hefur ekki verið löngu fyrir mitt minni. Hann stóð á sléttu út undir örmjóu lóni, sem var á milli bæjanna og fjörunnar. Þar hefur verið fallegt, óslitin undrasýn til fjalla alla leið vestan frá Öræfajökli austur að Horni, og bláir reykir tilsýndar í logni á Uppsölum og Smyrlabjörgum og Skálafelli og í Skálafellsseli og Austurlandi, og lónið rétt fyrir framan bæjarhúsin og niður Atlantshafsins hinu megin við fjöruna og þungir brimdynkir í Sævarhólaklettunum, sem voru stutt fyrir utan brimgarðinn.“[4]

Sævarhólar var jörð í bændaeign og gekk jörðin kaupum og sölum frá því á 17. öld en eignarhlutar skiptust stundum í tvennt. Þeir sem bjuggu á  jörðinni voru því oftast leiguliðar. Jörðin var í byggð 1709 þegar Ísleifur gerir jarðabók sína og einnig talin í byggð í jarðaskrá Jóns Ísleifssonar 1721. Í manntali 1762 er tekið fram að jörðin sé í eyði og 1735 er þar enginn bóndi skráður.[2]

Á 19. öld voru ábúendaskipti tíð í Sævarhólum. Síðustu ábúendur þar frá árinu 1869 voru hjónin Steinunn Stefánsdóttir og Jón Þorsteinsson að undanskildum tveimur árum er þau bjuggu á Skálafelli 1874 – 1876. Þau tvö ár voru Sævarhólar ekki í byggð. Jón Þorsteinsson var að mestu alinn upp í Sævarhólum hjá föður sínum Þorsteini Brynjólfssyni, hann var sonur hans af fyrra hjónabandi. Jón lést árið 1886 en Steinunn bjó áfram á jörðinni með 9 manns í heimili.[3] Hún giftist aftur, Magnúsi Magnússyni og bjuggu þau á Sævarhólum til ársins 1892 en þá lagðist jörðin í eyði vegna mikils vatnaágangs og grjótfoks. Bæjarhólarnir voru þá umflotnir vatni svo illa horfði með búpening og engjar.[1] Magnús kom upphaflega vestan af Síðu og gerðist vinnumaður í Hólum í Nesjum. Þorleifur Jónsson í Hólum bar honum vel orðið. „Hann reyndist röskur piltur, góður fjármaður og smali. Sjómaður  var hann líka og sótti sjó, þegar gaf, og reyndist yfirhöfuð bezti þénari. […] Hann var skrafhreifinn og skemmtilegur, lá við, að hann stamaði ofurlítið, en þó allhraðmæltur á milli. […] Magnús reyndist árvakur og dugandi bóndi.“[5]

Synir Steinunnar og Jóns voru m.a. Þorsteinn síðar bóndi á Sléttaleiti, Stefán hreppstjóri á Kálfafelli og Guðni sem var einn af frumbyggjum Hafnar. Guðni lýsir sambúðinni við vötnin í æviminningum sínum. Honum var minnisstæður fótakuldinn á haustin en þeir óðu oftast vötnin berfættir.  „Dofnir voru fætur að jafnaði þegar komið var yfir þessi jökulvötn, grágul, leirblandin frá jöklinum, straumþung, blaut í botn af framburði, leirmauk svo skepnur sátu fastar í ef út af braut fór sem troðin var.“[6]

Eftir að Sævarhólar fóru úr byggð árið 1892 keyptu Skálafells- og Smyrlabjargarbændur jörðina og nytjuðu til slægna og beitar.[1]

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2]  Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[3]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.).Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879 & 1881-1888. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[4]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[5]  Þorleifur Jónsson (1954). Þorleifur í Hólum, Ævisaga. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar
[6]  Guðni Jónsson (á.á.). Bernska mín. Þættir úr æviminningum Guðna Jónssonar. Óútgefið. Menningarmiðstöð Hornafjarðar: HérA-Skaft, H-3-1, óskráð.

Scroll to Top