Bakki

Í suðvestur frá Borg stóð býlið Bakki, á moldarhól í um eins kílómetra fjarlægð frá sjó. Landareignin nær frá strönd og norður í Hellisholt og er skorin af farvegum Heinabergsvatna og annarra vatnakvísla. Jörðin er sand- og leirborin eftir vatnságanginn og lá fyrir svo miklu sand- og grjótfoki að túnið þurfti að hreinsa árlega.[2]

Ekki er vitað hvenær Bakki var fyrst byggður. Í byrjun 18. aldar voru tveir ábúendur skráðir og í stuttan tíma á nítjándu öld voru býlin þrjú.[4][3] Einbýli var á Bakka frá 1900 og þar til búsetu lauk um miðja síðustu öld.

Bakki átti rekafjöru fyrir sínu landi og skógarítak á Heinabergsdal. Vatnsból var brunnur rétt við bæjardyrnar. Torfrista var engin. Tún var sæmilega gott á Bakka, þegar það spilltist ekki af sandfoki, og var slétt frá náttúrunnar hendi. Engjalönd voru oft góð þegar vötnin veittu þeim mátulegan skammt af jökulleir til áburðar, en beitiland var mjög takmarkað. Mesti kostur jarðarinnar var hve bærinn stóð nálægt sjó því fjaran gaf oft mikið til matar.[3]

Í grein sinni Bernskuminningar frá Bakka sem birtist í 21. árgangi Skaftfellings, segir Guðrún Hálfdánardóttir frá æskuárum sínum á Mýrum.[1] Hún fæddist þar árið 1928, ein fimm systkina sem ólust upp á Bakka á fyrri hluta síðustu aldar. Guðrún lýsir þar bæði lifnaðarháttum fjölskyldunnar, nærumhverfinu og þeim áhrifum sem náttúran og jökulvötnin gátu haft á daglegt líf Mýramanna.

Mér finnst gott að hugsa til þess að vera uppalin í torfbaðstofu þar sem við ólumst upp til 18 ára aldurs … Það var alltaf hlýtt og notalegt í litlu baðstofunni þar sem ekki var hátt til lofts né vítt til veggja. Þarna var nú samt farskóli hluta úr vetri. Mátti segja með sanni að „þröngt mega sáttir sitja.“

… Ég held að bæjarhúsin á Bakka hafi hentað vel fyrir útileiki. Húsagarðurinn var hentugur fyrir stórfiskaleik. „Húsagarður“ hvað var nú það? Það mótaði vel fyrir hálfhringlaga garði bak við húsaröðina og hefur greinilega verið efnismikill í upphafi. Austurendi þessa garðs náði frá kúahlöðunni og endaði vestast við fjárhúskofann. Hefur þessi garður örugglega mátt teljast til fornminja en er nú horfinn af yfirborði jarðar.

… Nöfn á nytjahlutum hverfa og týnast í tímans rás eins og annað sem hætt er að nota. Sama er að segja um örnefnin. Þau eru eða voru ótrúlega mörg í Bakkalandinu; Langitangi, Þorsteinstangi, Tjarnartangi. Ekki veit ég hvort þessir staðir eru finnanlegir nú. Vötn og sandfok hafa breytt landinu. Hvolpatjörn, Ormatjörn og Folaldspyttur voru grunnar tjarnir en eru löngu horfnar. Sama er að segja um Ölkelduna sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur krökkunum. Þegar ís var yfir öllu var þar nóg af kolsýrðu vatni sem var hinn besti svaladrykkur. Þúfutjörn, Fjárhúsrot og svo Langarot og Heimarot, framan við bæjarstæðið. Þar voru og eru vonandi enn mestu fuglaparadísir fyrir álftir, endur og vaðfugla.

… Vatnsdalshlaupin voru svo til árviss, oft snemma vors. Það var þegar Vatnsdalurinn fylltist og þá rann vatnið undir jökulinn og rann óhindrað um suður Mýrarnar. Ég man þegar túnið stóð eins og klettur úr hafinu og kulda lagði frá vatninu. Ég held að hlaupin hafi varað í 4-5 daga en man það ekki greinilega. Fyrst þegar ég man eftir skildi flóðið eftir sig mikið af lurkum og trjárótum í leirnum. Þetta tíndum við saman því þetta var góður eldiviður. Þetta segir sína sögu um gróðurfar fyrr á öldum. Á seinni árum hlaupsins hættu þessar gróðurleifar að sjást og nú heyrir þessi kapítuli fortíðinni til. Þegar hlaupin höfðu fjarað út var mikill leir á útengjunum. Þá heyrði ég talað um að það nálaði fljótt upp úr leirnum þ.e. að grasið spratt ótrúlega vel, ef tíð var góð. Eftir hvert hlaup þurfti að troða nýja braut yfir vötnin, austur að Borg, suður að Flatey og út á fjörur.

… Alltaf var ferðast á hestum eða gangandi. Þegar gestir komu ríðandi var gjarnan spurt „var mikið í vötnunum“? Þá var vatnsdýptin miðuð við hestinn. Það grynnsta var í hófskegg, næst á miðjan legg, hné, milli hnés og kviðar, í kvið, miðjar síðar, bóghnútu, herðakamb, taglhvarf og síðan sund. Svona minnir mig að vatnsmælingarnar hafi verið í þá daga. Þetta var nú áður en brýr og bílar komu til sögunnar.“

Jörðin fór í eyði 1949. Segja má að Bakkanum hafi verið fórnað til að verja jarðirnar austar á Mýrunum fyrir ágangi Hólmsár.[3] Upp úr 1950 var hafist við að hefta ána, veita henni á milli Bjarndýrshóls og Eskeyjar þar sem hún var brúuð með fyrirhleðslu. Þetta var gert með samþykki eigenda, enda var jörðin þá komin í eyði og ekki fyrirsjáanlegt að hún byggðist aftur.

Heimildir:

[1] Guðrún Hálfdánardóttir (2010-2011). Bernskuminningar frá Bakka. Skaftfellingur 21. árg. bls. 27-34.

[2] Jón Bergsson (1997). Einholtsprestakall 1839. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna), Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 107-122). Reykjavík: Sögufélag.

[3] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ

[4] Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.