Pálmatóft

Á Kálfafelli var löngum margbýlt eða svo lengi sem menn vita. Þar voru 3 – 5 býli frá 1703 til aldamóta 1900. Á 20. öldinni var þar lengstum þríbýli.[1] Í túninu á Kálfafelli eru ótal fornar tóftir, flestar þeirra vitnisburður um mannvirki fyrir búpening. Ein er þó sú tóft þar, er á sér merkilega sögu og var mannabústaður um skeið. Það er svokölluð Pálmatóft sem er austarlega í túninu, ofan gamla þjóðvegarins sem liggur þarna í gegn og er enn greinilegur.  

Pálmi Benediktsson f. 1858 d. 1917, var sonur hjónanna Benedikts Erlendssonar f. 1819 og Kristínar Pálsdóttur f. 1823. Pálmi flakkaði víða um eins og foreldrar hans. Um hann voru nokkrar sögur á kreiki í Suðursveit en óvíst er um sannleiksgildi þeirra allra. Hann kvæntist aldrei en eignaðist einn son með barnsmóður sinni Ingunni Þorsteinsdóttur f. 1860. Sonur þeirra, Kristinn fæddist 1888 en Ingunn dó úr brjóstveiki skömmu eftir fæðingu hans. Pálmi ól upp son sinn eftir því sem hann gat. Barnið var reyndar skilið eftir nýfætt við bæjardyrnar á Smyrlabjörgum en á þeim tíma var Pálmi vinnumaður þar. Vinnukona á bænum færði föðurnum hvítvoðunginn eftir að húsmóðirin hafði neitað fólkinu að taka við barninu. Átti Pálmi þá ekki annarra úrkosta en segja barnið á sveitina. Hann tók son sinn þó aftur undir sinn verndarvæng og fylgdi  Kristinn föður sínum á uppvaxtarárum, m.a. austur á land.[2] 

Þórbergur Þórðarson segir um Pálma: „Pálmi hafði misst annan fótinn af kali og gekk á tréstúf. Hann var hressilegur og harðger og einkennilegur í máli og einn af þeim sem hermt var eftir, þó ekki í óvirðingarskyni.[3] 

Pálmi var eitt sinn á leið yfir Hornafjarðarfljót til jarðarfarar Daníels bróður síns á Rauðabergi sem dó á besta aldri frá stórri fjölskyldu. Pálmi fór fótgangandi yfir Hornafjarðarfljót í ískrapa og frosti, hann kól á hægra fæti með þeim afleiðingum að taka varð af fótinn fyrir ofan ökklalið. Pálmi lá um hríð hjá Þorgrími Þórðarsyni lækni í Borgum, sem vann það afreksverk að taka fótinn af Pálma.[2] Þorleifur Jónsson í Hólum lýsir því svo í ævisögu sinni, að læknirinn hafi flegið hold frá beini upp fyrir ökkla, sagað beinið sundur með þar til gerðri sög og saumað síðan litla holdpjötlu framan við.[4] Einar Stefánsson í Árnanesi var fenginn til að vera skrúfstykki og halda fætinum en Þorleifur var svæfingalæknir. Guðmundur Sigurðsson söðlasmiður á Papósi gerði leðurhólk á fótlegg Pálma til að auðvelda honum um gang og gekk hann á honum. Torfi Þorsteinsson frá Haga segir að það hafi verið leðurhólkurinn og annar furðuútbúnaður á ferðalangnum Pálma, sem hafi vakið með honum geig þegar hann var barn.[2] Sama segir Torfi Steinþórsson á Hala í frásögn sinni um þá feðga, að hann hafi verið hræddur við Pálma, en hann mundi eftir honum.[5] 

Pálmi þótti óstöðugur í vistum og fór víða, m.a. austur á land og hafði Kristinn son sinn með sér. Þó kom að því að hann leitaði aftur heim í átthagana í Suðursveit, með Kristinn fárveikan af kirtlaveiki. [2] 

Þeir bræður á Hala, Þórbergur og Steinþór Þórðarsynir segja báðir frá því er Kristinn dvaldi á Hala einn vetur í umsjá móður þeirra Önnu. Hann var jafnaldri Þórbergs fæddur árið 1888. Tókst Önnu með natni og lyfjum frá Eyjólfi Runólfssyni á Reynivöllum að vinna bug á kirtlaveikinni. Þórbergur segir að Kristinn hafi verið „mikil nýjung á heimilinu“ og hrósa þeir bræður honum mikið. „Hann var kominn austan úr Héraði, sem þá var álíka fjarlægt Suðursveit og Kína er nú á tímum, og hann kunni frá mörgu að segja og var ágætur spaugari“, segir Þórbergur.[3] Kristni vegnaði vel eftir dvölina í Suðursveit og fluttist síðar til Vesturheims.  

Undir lok ævi sinnar gerðist Pálmi einsetumaður og bjó í hesthúskofa með hrossi sínu, einhvers staðar milli Kálfafells og Kálfafellsstaðar. „Og svo dó hann.“[3] Ekki er vitað hve lengi Pálmi bjó í hesthúskofanum á Kálfafelli.  

Torfi Þorsteinsson segir að Pálmi hafi farið einförum eftir að hann fregnaði að Kristinn hafi fallið í fyrra stríði. Kristni hafði vegnað ágætlega í Kanada en hafði verið kvaddur í herþjónustu fyrir breska samveldið. Kristinn hafði reynst föður sínum ellistoð með peningasendingum frá Kanada eftir að hann fór utan. Pálmi lést í Heinabergi úr taksótt í síðustu kaupstaðarferð sinni rétt fyrir páska, veturinn 1917. Ekki tókst að kalla til lækni þar sem Páskabylurinn mikli geysaði þessa daga. „Og brátt sótti dauðinn að og langþjakaður ferðalangur lá liðið lík í Heinabergsbaðstofunni, þegar veðrinu slotaði.“[2] 

Fundist hafa heimildir um að Kristinn Pálmason dó ekki í fyrri heimsstyrjöldinni eins og talið var. Agnar Guðmundsson frændi Kristins rakti feril hans í Kanada. Minningargrein um Kristinn birtist í Heimskringlu, blaði Vestur Íslendinga 25. ágúst 1926, undirrituð R.P.. Þar er hann sagður fæddur 28. október árið 1889 [ártal ekki rétt] og dáinn 4. júní 1926. Þar segir m.a.: Kristinn var vel gefinn maður, bókhneigður og las talsvert. Svo laghentur var hann að hann sýndist geta flest er hann bar hendur að. Hvarvetna þótti hann ágætur liðsmaður, fjörugur og skemmtilegur, og svo var hann góður drengur, að allir sem kynntust honum um lengri eða skemmri tíma, báru einkar hlýjan hug til hans, enda veit ég ekki betur en hann væri einn af þeim, er kveddi svo þennan heim, að hann ætti hér enga óvildarmenn. Ætíð var hann hinn mesti reglumaður og vinnugefinn, en græddust þó ekki fjármunir, því öllum vildi hann gott gera, mönnum og málefnum, stundum meira en efni leyfðu og ánægja hans og ástundun var ætíð sú að geta staðið í skilum við alla.[6]

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó. 
[2]  Torfi Þorsteinsson (1980). Töfrar liðins tíma: Frásöguþættir frá liðinni tíð í Austur-Skaftafellssýslu. Reykjavík: Setberg. 
[3]  Þórbergur Þórðarson (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning. 
[4]  Þorleifur Jónsson (1954). Þorleifur í Hólum, Ævisaga. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar   
[5]  SÁM: Segulbandasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (1995). Nr. 12/4229 ST, viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við Torfa Steinþórsson 04.12. 1995. https://www.ismus.is/i/audio/id-1042532 
[6]  Rögnvaldur Pétursson (1926, 25. ágúst). Kristinn Pálmason 28. okt. 1889 – . júní 1926. Heimskringla. Bls.4. https://timarit.is/files/10865992 

Scroll to Top