Flaga / Digurholt

Á litlum hól rétt vestan við Brunnhólsá stóð Einholtshjáleigan Flaga. Heimatúnið var lítið, lágt og raklent. Upphaf búsetu í hjáleigunni er ekki kunn en búið var þar árið 1703 og fram eftir 18. öldinni.[5][6] Ábúendur í aldarbyrjun voru Markús Jónsson og Helga Jónsdóttir. Í jarðaskrá Ísleifs Einarssonar 1708-1709 segir: „Flaga. Hjáleiga í Einholts heimalandi. Landsk. xl. áln. kúg. ½.[3]

Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1839 segir: Fyrir 21 ári uppbyggð á ný, þá hún hafði í 65 ár verið í eyði.[2] Um það leyti tók Hólmsá að leita í Brunnhólsá svo flæddi yfir bakka, tún, engi og bæjarhólinn við Flögu. Fór svo að flytja varð bæinn að Digurholti, í víðáttumikið klapparholt norðar í Einholtslandi.

Í Digurholti var lítið tún en grasgefið og engjalönd hin sömu og í Flögu. Bærinn stóð vestan í holtinu og dró nafn sitt af því.[4] Ábúðartími Digurholts varði í um 120 ár en síðustu ábúendur voru bræðurnir Geir og Sigurður Filippussynir. Sigurður lærði vélsmíði og var verklaginn á tré og járn og hjálparhella sveitarbúa, hvar sem lagfæringar var þörf.[4] Digurholt fór í eyði 1965 og enn standa stæðilegir tóftarveggir bæjarhúsanna suðvestan í holtinu, einnig kálgarðar og trjáreitir sem bera vitni um mannvist liðins tíma.

Norðan við Digurholt er hóll sem heitir Fénaðarhóll, þar voru beitarhús frá Digurholti.[8] Milli Fénaðarhóls og Digurholtskletta er stíflugarður sem myndaði lítið uppistöðulón, þar eru leifar af rafstöð frá fyrri hluta 20. aldar, svokallaðri undirfallsvirkjun.[7]

Það mun hafa verið Steinn Bjarnason, síðasti bóndi í Flögu, sem flutti bæinn í Digurholtið 1845.[4] Sagan segir hann hafa verið orðlagður fyrir hrekkvísi. Frá gömlum tættum í Flögulandi þóttist sjást til manns á skjóttum hesti ríðandi upp á götuna norðan við Flögutúnið og hverfa þegar hann kom vestur á móts við Lambleiksstaði. Menn vissu engin deili á honum en nefndu hann Flögukallinn, hann villti um fyrir sumum sem voru á ferð þar um slóðir.[9]

Þeir voru fleiri „Flögukallarnir“ sem sögur fóru af. Árið 1711 gerðist ábúandinn þar „landhlaupari“, þ.e. hljóp burt úr sýslunni frá konu, barni og búi.[1] Fyrir giftingu hafði hann fallið í tvö frillulífsbrot í Hornafirði og hlotið dóm fyrir. Á hlaupum sínum um landið barnaði hann konur, sumar hverjar náskyldar sér. Hann var eftirlýstur á Alþingi í tvígang, 1712 og 1716 vegna framferðis síns en þá „þó talinn af landinu með framandi þjóð burtsigldur.[1] Til hans sást ekki meir.

Velta má fyrir sér til gamans hvort orðið flagari með skilgreininguna kvennabósi eða hrappur í kvennamálum, sé komið til vegna hegðunar bóndans í Flögu.

Heimildir:

[1] Alþingisbækur Íslands X, 1711-1720 (1967). Reykjavík: Sögufélag gaf út.

[2] Jón Bergsson (1997). Einholtsprestakall 1839. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna), Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 107-122). Reykjavík: Sögufélag.

[3] Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið.

[4] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ

[5] Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.

[6] Manntal á Íslandi 1801 Suðuramt (1987). Reykjavík: Ættfræðifélagið.

[7] Sigurður Örn Hannesson Höfn Hornafirði, (á.á.). Munnleg heimild.

[8] Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Holta. Heimildarmenn: Halldór Sæmundsson, f. 1913 og Sigríður Halldórsdóttir, f. 1905. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

[9] Þórður Tómasson (1988). Þjóðhættir og þjóðtrú, skráð eftir Sigurði Þórðarsyni frá Brunnhól. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf