Fell

Ábúendatal

Víða í heimildum er talað um að blómatími Fells hafi verið í sýslumannstíð Ísleifs Einarssonar f. 1655 og Vilborgar Jónsdóttur f. 1666 [1] En á tíma Ísleifs sýslumanns á Felli voru hörðustu ár litlu ísaldar, afar erfitt tíðarfar, búfjárfellir, veikindi og dauðsföll af völdum Stóru bólu 1707. Eftir þann tíma fer því verulega að halla undan fæti hvað varðar aðstæður til búskapar á jörðinni Felli vegna framskriðs jökla og kólnandi veðráttu.  Ekki er vitað nákvæmlega hvenær Ísleifur kemur að Felli en hann var settur sýslumaður yfir Austur Skaftafellssýslu árið 1684 og var hann sýslumannssonur frá Felli í Mýrdal. Þau Vilborg og Ísleifur giftast að talið er árið 1688, hann býr á Felli til dauðadags 1720 og hún svo áfram með syni sínum Jóni Ísleifssyni er tók við sýslumannsembættinu af föður sínum. Fell var eignajörð Vilborgar, hafði erfst í kvenlegg frá móður hennar Ragnhildi, dóttur Jóns Ketilssonar Ólafssonar prests á Kálfafellsstað. Jón afi hennar bjó á Felli frá 1649 og síðan Ketill sonur hans frá 1663 – 1681.[2]  Segja má að höfðingjabragur hafi verið á þeim hjónum á Felli og voru þau afkomendur voldugra ætta sýslumanna og presta á 17 öld. Börn þeirra: Þórunn, f. 1689, Guð­rún, f. 1691, Þórunn, f. 1692, Jón, f. 1694, Einar, f. 1695 Auðbjörg, f. 1697 (var í Hoffelli 1703, að fóstri hjá móðurbróður sínum, hét ömmunafni sínu), Sigríður, f. 1701 (í foreldrahúsum 1703). Guðrún og Þórunn yngri dóu báðar í Stórubólu 1707 og Einar drukknaði í Skeiðará aðeins 26 ára að aldri. Dæturnar giftust prestum og bjuggu á Suðurlandi.[3]  Ísleifur hafði mikið umleikis á meðan hann bjó á Felli og þau hjón áttu fjölda eignajarða víða um land. Af honum fara margar sögur og bréfabók Ísleifs hefur varðveist með heimildum um umstang hans í embætti og eignaumsýslu oft í eigin þágu.

Á meðal þess, sem Ísleifur skráði, auk bréfabókar voru jarðabœkur fyrir Austur-Skaftafellssýslu, bæði 1697 og aftur 1708, eyðibýlatal í Örœfum, manntal og kvikfén­aðarskýrsla sýslunnar 1703 og tíundaskrár úr henni 1702 og 1707. Allt þetta er varðveitt, nema bréfabókin er ekki heil. [4]Ísleifur mætti til þings flest árin sem hann gegndi embætti og þeirra bræðra er oft getið í alþingisbókum, en bróðir hans Ólafur Einarsson var sýslumaður Vestur Skaftafellssýslu. Ítarefni um þau hjón verður bætt við síðar. Sjá nánar á manntali 1703 bústofn þeirra hjóna og ábúendur á Felli

1720 – 1732 tekur Jón Ísleifsson sonur þeirra við embætti föður síns Hann deyr 1732, þá skuldum vafinn og búinn að minnka svo um munar hróður staðarins og embættis frá tíð föður hans og var hann að lokum settur af.  Kona hans  8.11. 1716 í Skálholti var Þorbjörg Oddsdóttir, f. 1692. Börn þeirra voru: Jakob og Katrín. Bogi Benediktsson lýsti sýslumanni Jóni svo: ,,Jón var lágur maður vexti, grannur og flatvaxinn, nokkuð lang­leitur, lang- og lágnefjaður, opineygður og ekki mjög fyr­irmannlegur.” Heimild Boga er ókunn.[5] Jón giftist til fjár og erfði einnig jörð Þykkvabæjarklausturs eftir Ólaf Einarsson föðurbróður sinn. Hann rak holdsveikaraspítala á Hörgslandi á Síðu og dvaldi þar langdvölum. Eigi að síður var hann stórskuldugur þegar hann dó. Vilborg móðir hans barðist þó fyrir að halda Fellinu og taldi það sína eign. Jón sonur hennar hafði þá veðsett jörðina 19.7. 1725, til tryggingar skuldum sínum við konung. Fell var  því selt á uppboði 15.7. 1734. Vilborg leysti jörðina til sín á uppboðinu fyrir 100 ríkisdali og eignaðist hana á ný. Þorbjörg kona Jóns Ísleifssonar átti erfiða ævi eftir lát hans, dvaldi hún eitthvað á Felli hjá Vilborgu tengdamóður sinni. Reyndi  hún að ná aftur jarðeignum sínum með málaferlum á Alþingi, en hafði ekki erindi sem erfiði. Hafði Jón selt þær margar eða ábúendur náð þeim til sín fyrir lítið fé. [6]

1732 – 1735 býr áfram á Felli Vilborg Jónsdóttir ekkja og einnig er skráður þar Jón Runólfsson aldraður maður frá Kálfafelli. Vilborg fer frá Felli 1736 . ,,Hefur hún þá verið búin að þrauka þar hátt í hálfa öld við misblíð kjör og komin fast að sjötugu.” segir Einar Bragi.[7] Hún fer að Breiðabólsstað í Fljótshlíð til Sigríðar dóttur sinnar sem var prestsfrú þar á staðnum.

1736 – 1737 er á Felli Guðmundur Jakobsson f. eftir 1703 prestssonur frá Kálfafellsstað, bjó lengst af á Kálfafelli utan þetta eina ár á Felli. Kona um 1748: Sigríður Þórðardóttir, f. 1719, fyrri maður hennar. Börn þeirra: sonur, f. 1747, sonur, f. 1749 (annar skammlífur, hinn dó í bólu 1786), líklega tvær dœtur. Fóstursonur mun vera: Saló­mon Þorvarðsson, f. 1740 [8] Guðmundur var stúdent frá Skálholtsskóla og gat fengið predikunarleyfi en missti leyfið vegna bráðrar barneignar með Sigríði konu sinni. Fékk uppreisn 1749 en þáði ekki vígslu.[9]

1736 – 1738 býr á 2. býli Bjarni Hinriksson f 1689, lítið sem ekkert um hann vitað sem áreiðanlegt er.[10]

1744-1745 býr Brandur Bjarnason   á öðru býli, um hann ekkert vitað annað en nafn hans kemur fram í kröfu á Borgarhafnarþingi sem bónda á Felli þetta ár.[11]

1737 –  býr á Felli Eyjólfur Jónsson f. 1702 . Bróðir Einars Jónssonar í Skaftafelli og alinn þar upp og um hann lítið vitað eða hve lengi hann bjó á Felli[12]

1747 –1755?  búa á Felli Sigmundur Jónsson lögréttumaður og hreppstjóri í Suðursveit fæddur nálægt 1710. og kona hans Málfríður Brynjólfsdóttir. Þau hjón barnlaus. Hann keypti 15 hundruð í Felli með einu kúgildi af Sigríði Ísleifsdóttur 17.8. 1754, og seldi aftur að hluta, en 10 hundruð eignaðist kona Sig­mundar eftir hann og átti til æviloka.[13] Hann er nefndur fyrir Skaftafellsþingi sem lögréttumaður 1752, en ekki síðar. Ekki er vitað um dánarár hans eða hve lengi hann bjó á Felli.

1746-1753 er á Felli Jón Einarsson  ef til vill á þriðja býli. Um hann lítið sem ekkert vitað annað en að árið 1746 er hann skráður í þingbók sýslumanns.[14]

1753 gerist það að Páll Salómonsson á 2. býli drukknaði við Breiðárós í eggjaleit. Hann var bóndasonur frá Mörk á Síðu og bóndi á Felli 1753 (sem gæti átt við Borgarhól, og er sú jörð ekki skráð sérstaklega í bœndatalinu).Kona hans var Ástríður Þorsteinsdóttir, f. 1714, fyrri maður hennar. Börn þeirra voru Þorsteinn, f. 1741/42, Þórarinn, f. 1741/42, Ingibjörg, f. 1750. Þau voru öll hjá móður sinni á Breiðabólsstað við manntal 1762, Oft er ekki greint á milli Borgarhóls og Fells í skráningu.[15]

1758 er á Felli Málfríður Brynjólfsdóttir f. 1721 ekkja Sigmundar Jónssonar á 1. býli, en  bjó þar stutt.[16]

1758 – 1763 býr á Felli  Bjarni Jónsson f. 1723. Um hann er lítið sem ekkert vitað hvorki um konu né börn.[17]

1758-1762  búa á  2. býli á Felli  Vigfús Vigfússon, f. 1711.  og  Guð­ný Þorsteinsdóttir sem talin er kona hans. Börn þeirra voru fjögur hjá Vigfúsi við manntal 1762: Guðrún, f. 1750, Ingveldur, f. 1753, sonur, f. 1755, sonur, f. 1758. Annar hvor drengjanna var Þorsteinn Vigfússon síðar bóndi á Felli. Vigfús kom frá Smyrlabjörgum og fór að Hestgerði. Hér er um líkindi að ræða.[18]   

Frá árinu 1762  býr á Felli Jón Sigurðsson eldri, f. 1722 sonur Sigurðar Stefánssonar sýslumanns á Smyrlabjörgum. Fyrri kona hans Þórdís Jónsdóttir. Dóttir þeirra er Þórdís, f. 1749 (óvíst hvar 1762). Seinni kona hans er Guðlaug Runólfs­dóttir, f. 1732. Dóttir þeirra: Sigríður, f. 1762. Jón gæti síðast hafa búið í Hellum. Þau búa á 2. býli[19]

1772  býr á Felli Jón  Kolbeinsson lítið sem ekkert um hann vitað en margar getgátur í æviskrám Sigurðar Ragnarssonar sem erfitt er að byggja á. [20] Hann fór að Hofsnesi og bjó þar lengst af. Skráður á 1. býli.

1776-1787  búa á Felli Stefán Halldórsson, f. 1737. og kona hans Guðrún Þorsteinsdóttir, f. 1738, Þau koma frá Hofsnesi. Börn þeirra voru 13 alls, þessi lifðu föður sinn: Guðrún, f. 1764, Emerentiana, f. 1767, Magnús, f. 1774, Þór­arinn, f. 1778, Björg, f. 1781. Stefán og Guðrún flytja að Kálfafelli í Fljótshverfi.[21]

1779-1787 búa á Felli Páll Eiríksson, f. 1752. og fyrri kona hans Sigríður Þorvarðsdóttir, f. 1758, d. 1821. Börn þeirra voru Þorvarður, f. 1779, Steinunn, f. 1787, Jórunn, f. í apríl 1788, d. 17.7. 1788, Eiríkur, f. 1789, Þórarinn, f. 1791, Jórunn, f. 4.1. 1793, Einar, f. 1796, Vigdís, f. 1799, Jón, f. 1800, Ragnhildur, f. 1802, ef til vill sex skammlíf börn til viðbótar. Fósturbarn: Eyjólfur Bjarnason eldri, f. 1780 (bróðursonur Sigríðar). Þau bjuggu á eignarhlut föður hans Eiríks Jónssonar sem var bróðir Sigmundar Jónssonar lögréttumanns er áður bjó á Felli og þá á 2. býli. Páll var frá Fagurhólsmýri og  fluttist að Mörk á Síðu.[22] Eru margir Skaftfellingar út af þeim hjónum komnir segir Einar Bragi [23]

Um 1784 – 1786 búa á Felli Hjörleifur Andrésson, f. 1720 og kona hans Gróa Eiríksdóttir. Þau koma frá Borgum í Nesjum . Hann deyr á Felli og ekkja hans dvelur þar stutt eftir dauða hans. Þau búa á þriðja býli.[24]

1787-1788 búa á Felli Gissur Hallsson, f. 1737. og fyrri kona hans Ingibjörg Sigurðardóttir f.1737. Börn þeirra voru Þorsteinn Tól, f. 1768, Sigurður, f. 1773, mörg börn dóu ung. Gissur kom frá Gerði og fór að Hvoli í Fljótshverfi. Áhöfn hans 1787 var þrjár kýr, þrír kálfar, 20 ær, aðrar 13 ær veturgamlar, níu sauðir, aðrir sjö sauðir veturgamlir, fjórir tamdir færleik­ar, tveir ótamdir og folald. Í heimili hans voru sjö manns. Á býli hans var túngarður, sem stóð 24 danska faðma [45 metra], en ekki hlóð Gissur meira það árið.[25] Gissur selur Þorsteini Vigfússyni bónda á Kálfafelli síðar á Felli sinn hlut í Fellinu.[26]

1787-1795/97  búa á Felli Erlendur Erlendsson, f. 1744. og  kona hans Þórdís Jónsdóttir, f. 1749. Hún dóttir Jóns Sigurðssonar er áður bjó á Felli. Þau koma um leið og Gissur Hallsson og búa á 2. býli Börn þeirra: Margrét, f. 1770, Hallur, f. 1776 (tvö framan­sögð voru í Hellum 1801), Jón, f. 1777, Guðrún, f. 1778 á Felli  Hávarður, f. 1779, Konráð, f. 1783  Sigríður, f. 1787 á Felli, Ingibjörg, f. 1790, Elín, f. 1792 á Felli (þrjár síðastnefndu í Hellum 1801), líklega einnig Sig­ríður, f. 1772. Hún er skráð vinnukona á Kálfafellsstað 1801. Erlendur og Þórdís komu frá Hala og fóru að Hellum. Áhöfn þeirra 1787 var fjórar kýr, kálfur, fjórar ær, aðrar fimm ær veturgamlar og ótaminn hest­ur. Í heimilinu voru tíu manns. [27]

1788-1790 eru komin að Felli  Eyjólfur Jónsson, f. 1735 og Rannveig Jónsdóttir f. 1752, hann miðmaður hennar. Börn þeirra: Jón, f. 1788, Gróa, f. 1790 bæði fædd á Felli. Þau koma frá Steinum og bú á eignarhluta Valgerðar Jónsdóttur dóttur Rannveigar sem hún erfði eftir föðurbróður sinn Hall Jónsson. Hallur hafði keypt hlut ekkjunnar Málfríðar Brynjólfsdóttur stuttu fyrir dauða sinn.[28]

1790-1800  Rannveig Jónsdóttir, f. 1752 ekkjan eftir Eyjólf. Hún giftist 1794  Þorsteini Jónssyni f. 1746. Hann var þriðji maður hennar. Hann er skráður sem faðir Jóns sonar Rannveigar sem fæddur var sama ár, það véfengir hins vegar sýslumaður Jón Helgason. Sá hinn sami Jón Helgason skipaði Svein Sveinsson f.1751 tilsjónarmann Rannveigar strax árið 1786 þegar fyrsti maður hennar deyr úr Bólunni. Sveinn hafði búið hjá Rannveigu á Felli frá árinu 1790 með konu sinni Þórdísi Sigurðardóttur f. 1727. Hún var holdsveik og lá lengi í kör. Annaðist Rannveig Þórdísi er hún dvaldi á Felli. Þorsteinn lést ári eftir að hann giftist Rannveigu 1795 og býr Rannveig með Sveini á Felli allt til ársins 1798 er hann hrekst þaðan vegna málaferla. Hórgetin börn þeirra voru þrír synir sem allir báru nafnið Sveinn, hinn fyrsti fæddur 1791, hann var faðir Oddnýjar á Gerði og hennar systra,  næsti Sveinn f. 1797 hann líklega skammlífur[29]  og Sveinn þriðji f. 1798.[30]  Talið er að Jón Þorsteinsson hafi einnig verið sonur Sveins og Einar Bragi leiðir reyndar líkur að því að Rannveig sem var þrígift og eignaðist sjö börn, hafi ekki eignast neitt af þessum börnum með eiginmönnum sínum.[31] Sveinn barnsfaðir Rannveigar var dœmdur til dauða fyrir barn­eignirnar, en dómnum var breytt í fangelsisdóm. Afplánaði Sveinn dóminn á árunum 1798 – 1800 á Kálfafellsstað. Rannveigu var 1792 gert að gjalda hálfan dal í sekt fyrir fyrsta frillulífisbrot við hann, og aftur var hún sektuð 1797.[32]  Þau hjúin Rannveig og Sveinn fengu bæði góð ummæli hjá vottum við málaferlin. ,,Einn með þeim beztu forsjónar-, atorku- og vinnumönnum, tryggur, gestrisinn og greiðasamur, skikkanlegur, stjórn­samur, frómur og ráðvandur,” vottuðu séra Vigfús Benediktsson, Sigurður Guttormsson, Þorsteinn Vig­fússon, Steinn Jónsson og Ásgrímur Hallsson. Séra Vigfús Benediktsson skráði um Rannveigu,, Auð­sýndi Þórdísi konu Sveins barnsföður síns alla mögu­lega uppápössun og aðhjúkran.” Í annað sinn skráði hann, að Rannveig hefði, hvað hann vissi, auðsýnt sig sem velskikkanleg, frómartug, greiðvikin og þægileg persóna. [33]

1797-1798  býr Jón Þorgeirsson, f. 1735 á Felli. Jón kom frá Hnappavöllum og fór að Hala. Um hann lítið vitað og stoppaði hann stutt við á 2. býli á Felli. Hjá honum er þó skráð á sveit Gróa Eyjólfsdóttir dóttir Rannveigar á Felli og Þorgerður Sigurðardóttir bústýra, eftir að hann flytur á Hala.[34]

1798-1800 búa á Felli Jón Þórarinsson, f. 1771 og kona hans Kristín Vigfúsdóttir prestsdóttir frá Kálfafellsstað. Þau komu  frá Breiðabólsstað, og fóru að Gerði. Börn þeirra: barn, f. 1795, Gísli, f. 1797, hefur dáið barn Sölvi, f. 1798, Sigríður, f. 1800, Gísli, f. 1806, Þórarinn, f. 1807, Guðmundur, f. 1807. Fósturdóttir: Málfríður Gísladóttir, f. 1828 (sonardóttir, sem hét móðurnafni Kristínar og ólst síðar upp hjá föð­ur sínum á Brunnhól.[35]

1800-1801 eða lengur er  Þórarinn Jónsson, f. 1738, húsmaður á Felli áður bóndi m.a í Steinum og á Gerði.Kona: Ragnhildur Sigurðardóttir, f. 1730.[36]

1800 –  um 1815 búa á Felli Þorsteinn Vigfússon f. 1756 og kona hans Ingunn Guðmundsdóttir Brynjólfssonar prests frá Kálfafellsstað. Þau koma frá Kálfafelli og þangað fer Rannveig, þau skipta á jarðarpörtum.[37] Áður hafði Þorsteinn keypt hluta af Fellinu og var búið á einu býli þar í hans tíð. Tíu af börnum þeirra lifðu og eru fjölmargir Skaftfellingar út af þeim komnir.

Guðný Þorsteinsdóttir á Reynivöllum kona Sigurðar Arasonar f. 1786

Sigríður Þorsteinsdóttir á Hnappavöllum kona Magnúsar Þorsteinssonar f. 1787

Jón Þorsteinsson í Skálafellsseli maður Sigríðar Þorvarðsdóttur f. 1788

Sigurður Þorsteinsson í Hestgerði maður Sigríðar Sigurðardóttur f. 1789

Brynjólfur Þorsteinsson á Reynivöllum/Skaftafelli maður Þuríðar Bjarnadóttur f. 1891

Guðrún Þorsteinsdóttir á Rauðabergi kona Jóns Þorvarðssonar f. 1793

Kristín Þorsteinsdóttir á Kvískerjum kona Bjarna Þorsteinssonar f. 1794

Ingimundur Þorsteinsson í Steinum maður Helgu Bjarnadóttur f. 1794

Gísli Þorsteinsson á Uppsölum maður Guðrúnar Bjarnadóttur f. 1804

Auðbjörg Þorsteinsdóttir á Hala kona Guðmundar Sigurðssonar f. 1809[38]

Þórbergur Þórðarson skráði: ,,Þorstein Vigfússon á Felli heyrði ég talað um sem merkisbónda. Oddný á Gerði sagði þá sögu, að einhverju sinni hefði Suður­sveitungar deilt ákaft á hvalfjöru. Þá sáu þeir til ferða Þorsteins í fjöruna. Þá sögðu einhverjir hvalskurðar­mennirnir: ,,Nú skulum við hætta að skammast. Hann Þorsteinn á Felli er að koma. Frá þessu atviki sagði Oddný sem dœmi um virðingu manna fyrir Þorsteini.”[39]Áhöfn Þorsteins  þegar hann bjó á Kálfafelli 1787 var þrjár kýr, tvö naut, 37 ær, tólf ær veturgamlar, sex sauðir, 13 sauðir veturgamlir, fimm tamdir hestar, einn ótaminn og tvö folöld. Einnig átti hann skip. Í heimilinu voru níu manns. Túngarður hans var 80 danskra faðma [151 metra] langur en lengdist ekki það árið. Hann átti skip, fjögurra eða sex manna far. Áhöfnin er góð, miðað við þá bágu tíð, og garðurinn langur, miðað við aðra hlaðna garða í héraðinu.[40] Geta má þess að miklar garðhleðslur eru bæði í túninu á Kálfafelli og í engjalöndum Kálfafells út í landi og ætla má að eitthvað af þeim séu frá þeim tíma sem greitt var fyrir hleðslu túngarða þ.e. eftir 1770.

Um 1815 – 1831/ 1834 býr ekkja Þorsteins Ingunn Guðmundsdóttir með börnum sínum á Felli. [41]

1831/1834 – 1841 taka við búi Gísli Þorsteinsson f. 1804, sonur þeirra hjóna Þorsteins Vigfússonar og Ingunnar og kona hans Guðrún Bjarnadóttir önnur, ein af Skaftafellssystrum. Í þeim hópi voru þrjár Guðrúnar. Þau búa með Ingunni móður hans en óvíst er hvaða ár þau taka nákvæmlega við búsforráðum á Felli.  Börn þeirra voru tíu: Guðný, f. 16.10. 1828, d. 24.10. 1828, Þorsteinn, f. 1829, Bjarni, f. 8.10. 1831, d. 28.10. 1831, Bjarni, f. 1832, Guðmundur, f. 1834, Sigurður, f. 31.7. 1835, d. 26.8. 1835, Ingunn, f. 1836, Guðný, f. 27.10. 1838, d. 17.11. 1838, Sigurður, f. 1840, Guðný, f. 1843. Fósturdœtur: Rannveig Sigurðardóttir, f. 1850, Þorbjörg Sigurðardóttir, f. 1851.[42] Gísli og Guðrún virðast skiptast á ábýlisjörðum við Þorstein Sigurðsson systurson Gísla sennilega 1841 og fara að Uppsölum. Gísli var hreppsstjóri og gildur bóndi. Gísli átti um sína daga stœrsta kálgarð í Suðursveit. Einnig var hann ötull að hlaða túngarða. Hann mun hafa rifið stofuna á Felli og byggt hana upp aftur á Upp­sölum. Hún var nokkuð frábrugðin öðrum húsum, standþiljuð með allbreiðum borðum. Yfir samskeyti borðanna voru 4 þumlunga breiðir listar, strikaðir á báð­ar brúnir. Ef til vill var stofan frá tíð sýslumanns Ísleifs.[43] Í landi Uppsala eru miklar garðhleðslur neðan vegar sem gætu verið frá þessum tíma í svokölluðu Stekkatúni og víðar.

1841-1868 býr á Felli Þorsteinn Sigurðsson, f. 1815. Þegar hann kemur að Felli er hann búinn að  missa fyrstu konu sína Guðrúnu Þórðardóttur f. 1816 af barnsförum 1836, en giftur miðkonu sinni Lúcíu Jónsdóttur f. 1814. d. 1858, þau systkinabörn. Börn þeirra voru sjö sem upp komust: Guðrún, f. 1840, Guðný, f. 1841, Sigríður, f. 1842, Jón, f. 1844, Sigurður, f. 1848, Þorsteinn, f. 1851, Auðbjörg, f. 1853. Þriðja kona 17.11. 1859: Sigríður Jónsdóttir, f. 1825, d. 1864. Börn þeirra voru þrjú: Jón, f. 1860, Lucia, f. 1862, Katrín, f. 1863. Barnsmóðir: Jórunn Magnúsdóttir, f. 1824. Dóttir þeirra: Guðbjörg, f. 1846. Ljóst er að það hefur verið mikil raun sem lagðist á fjölskyldu Þorsteins og börn hans. Lúcía deyr 1858 á Felli frá stórum barnahópi, hann giftist síðan aftur og börnin halda áfram að fæðast, Sigríður, þriðja kona hans deyr svo 1864 og þá höfðu þrjú börn bæst í hópinn. Þorsteinn deyr síðan 19. júlí 1868 og stuttu síðar er það sem Veðurá hleypur, braut bæjarhús á Felli og lagði jörðina nánast í eyði. Þá splundrast fjölskyldan og börnin  sem bæði voru móður- og föðurlaus fara í fóstur víða um héraðið.

1841-1856  Einbýlt hafði verið á Felli í tíð Þorsteins og Ingunnar og sonar þeirra Gísla, en sama ár og Þorsteinn Sigurðsson f. 1815 flytur að Felli flytja þangað einnig Magnús Sigmundsson, f. 1785 og seinni kona hans Jórunn Jónsdóttir, f. 1790, d. 1857. Börn þeirra: Jórunn, f. 1824, Ingibjörg, f. 1828, Jón, d. ungbarn 13.5. 1831. Fósturbörn: Þorsteinn Sigurðsson, f. 1822, Sigríður Ketilsdóttir, f. 1830 (bróðurdóttir Magnúsar). Magnús deyr 1855 og ekkja hans býr áfram til 1856 en bregður þá búi og fer að Hofi [44]

1856-1860  búa á Felli Jón Jónsson, f. 1825 og kona hans Geirlaug Filippusdóttir f.1834. Þau ættuð úr Vestur Skaftafellssýslu og búa á 2. býli Börn þeirra voru níu: Jón, f. 1855, Ingibjörg, f. 1857, Guðný, f. 23.10. 1860, d. 29.11. 1860, Jóhanna, f. 1863, Gísli, f. 1867, Fil­ippus, f. 1868,  Þorsteinn, f. 31.7. 1871, d. 9.9. 1876, Geir bóndi á Sléttabóli á Brunasandi, f. 17.12. 1876, d. 8.1. 1954 , Mar­grét, f. 24.4. 1881, d. 16.3. 1891. Jón kom frá Fagurhólsmýri og fór að Hala, bjó þar í 10 ár en flytur síðan að Hvoli í Fljótshverfi aftur. [45]

1860-1861 koma að Felli Jónas Gíslason, f. um 1818 bar viðurnefnið grjótgarður, skráður húsmaður á Felli og sambýliskona hans Gróa Vigfúsdóttir f. 1833 virðist hafa verið þar með honum því Jónas elsti sonur þeirra er fæddur 1860. Börn þeirra voru átta: Jónas, f. 1860, Sigrún, f. 5.11. 1861, Gróa, f. 1864, Guðmundur, f. 1865, Jósep, f. og d. 3.10. 1866, Sigríður Ingibjörg, f. 1868, Björg, f. 20.12. 1869, d. 19.4. 1870, Þórunn Björg, f. 1871. Jónas flæktist víða um Austur- og Norðurland og sagður hafa yfirgefið konu sína frá mörgum börnum, heimilið leyst upp 1872.[46] Hann er þekktur fyrir að hafa hlaðið vel brunna og grjótgarða víða um land. Ef til vill hefur hann lagað til og gert hleðslu við lindina á Felli sem að er uppi í fjallshlíðinni fyrir ofan bæinn.

1861-1872 búa á Felli  Vigfús Sigurðsson, f. 1826. og kona hans Margrét Jónsdóttir f. 1827. Hann var bróðir Þorsteins Sigurðssonar er bjó á 1. býli. Börn þeirra: Jón, f. 1849, Sigurður, f. 1850, Þorsteinn, f. 30.4. 1852, d. 7.12. 1852, Hólmfríður, f. 1853, Þor­steinn, f. 18.11. 1854, d. 19.12. 1854, Guðný, f. 2.11. 1855, d. 21.1. 1870, Þorsteinn, f. 1858, Guðmundur, f. 20.7. 1860, d. 28.6. 1862, Margrét, f. 7.8. 1862, d. 14.8. 1862, MaríaMargrét, f.1864, Guðmundur, f. 1870. Þau koma frá Skálafelli og búa á  Felli þegar hlaupið úr Veðurá ryðst yfir bæinn og graslendi í kring. Þau flýja af staðnum og  hrófla upp bæjarhúsum í svokölluðu Stekkjartúni inn með hlíðinni og búa þar til 1872, en þá bregður Vigfús búi og fjölskyldan tvístrast.[47]
Þórbergur Þórðarson lýsir Vigfúsi svo; ,,Ég sá Vigfús langömmubróður minn einu sinni svo að mér sé í minni. Hann kom að Hala og stóð austan undir eldhúsveggnum, með bakið upp að veggnum og studdist fram á staf og var að tala við einhvern. Það var sólskin og sól áreiðanlega ekki komin í hádegisstað. Það skein austansól á Vigfús og vegginn. Mér sýndist hann vera afar gamall, og ég sá ekki betur en hann væri blindur. Hann horfði á móti sólinni eins og hann hitti ekki alveg á hana með augunum. Þá er mér óhætt að horfa mikið framan í hann, hugsaði ég og góndi mikið. Þá var ég lítill. Hann var með beint nef og sítt alskegg og tvær stórar tennur í efri góm, og það heyrðist í þeim líkt og maðkaflugu þegar hann talaði.
Það var sagt að Vigfús hafi verið sterkur en frekar þungur til vinnu. Hann var kvæntur og kona hans hét Margrét. Hún hafði verið fjörmanneskja og vel greind og dugleg og heldur lagleg. Mælt var, að Vigfús hafi stundum sagt þegar hann sá hana tala við karlmenn á mannamótum.“ ,,Mundu eftir mér , Margrét”[48]


1872-1873 búa í Stekkjartúninu Jón Markússon, f. 1830 og Elín Jónsdóttir sögð bústýra hjá Jóni. Þau koma bæði frá Kálfafellsstað við prestskipti þar. Elín fer síðan norður í Húnavatnssýslu til ekkju séra Þorsteins, Guðríðar. Hún segir margar þjóðsögur úr Suðursveit sem Torfhildur Hólm skráir eftir henni í bók sinni Þjóðsögur og sagnir. Jón Markússon ólst upp hjá séra Þorsteini Einarssyni og Guðríði Torfadóttur föðursystur sinni og var í leiðangri þeim er Þorsteinn sendi til að leita að afréttarlöndum inn í Vatnajökli. Jón brá búi á Felli 1873 og fer síðan víða um sem vinnumaður. Hann var aldrei við kvenmann kenndur svo vitað sé. ,, Meira gaman að hugsa um kindurnar, kindurnar” er haft eftir honum. [49]
Hann var vinnumaður hjá Þorleifi í Hólum og er skemmtileg mannlýsing í Ævisögu Þorleifs sem að er eftirfarandi: Jón var næsta einkennileg­ur í sjón og raun. Hann var fremur lágur vexti, en herða­breiður og þrekvaxinn nokkuð, breiðleitur mjög, með alskegg, ljósmóleitt. – Jón var ákaflega geðgóður. Aldrei sá ég hann reiðast hér. Blótsamur var hann heldur ekki og bölvaði sjaldan, og barngóður var hann með afbrigð­um… Jón hafði gaman af kindum og var sœmilega nat­inn að fóðra. Seinvirkur var hann í öllum verkum. Aldrei lá neitt á. Ákafi og framgangur var ekki hans eðli. – En öðru máli var að gegna með tunguna. Hún var lipur og ólöt. Ég hef aldrei kynnzt neinum Íslendingi, sem hefur verið jafnóðmæltur og Jón Markússon, svo að erfitt var fyrir ókunnuga að skilja hann, en svo tvítók hann oft hverja setningu eða orð. Jón var ákaflega spurull og forvitinn… Jón var sérstakur með það, að ekki bragðaði hann vín, svo ég vissi, neitaði, ef honum var boðið að súpa á. ‘Vil ekki, vil ekki.’ Aftur á móti var hann mikill neftóbaksmaður, en langan tíma tók stundum að skera rjólið´… Jón var enginn hestamaður og lítill reiðmaður, fór oftast löturhægt, ef hann var á hesti. Honum var kærara að labba milli bœja en taka sér hest. Hann var seigur göngumaður og fór stundum langferðir fótgang­andi… Alltaf átti Jón töluvert af kindum, sem hann hafði á kaupi sínu, og ekki þurfti hann að lóga miklu í kaup­stað, því hann eyddi engu nema fyrir rjólið. Skylduföt svokölluð fékk hann eins og önnur vinnuhjú, enda var hann talinn vel efnaður vinnumaður… Hann var engum til meins á lífsleið sinni, en gladdi fremur marga með skrafi sínu og hinu lipra tungutaki.” Þorleifur nefndi ýmis dœmi um, hvað Jóni þótti fólk í öðrum landshlutum illa máli farið. Hilmar Finsen landshöfðingi hafi til dœmis ekki vitað, hvað klippingur var eða bolstrengur. Og Húnvetningar hafi kallað skjólur fötur, stúlkur stúlgur, hval kval og hrúta hallinskíða. Jón var matmaður, og tók til þess, þegar biskup Pétur bauð honum einhverju sinni til kvöldverðar, hvað lítið var á borðum: “Engin kaka, engin kaka, nokkrar sneiðar af pottbrauði, fjarska þunnar, þunnar. Ekkert kjöt, ég kalla það ekki kjöt, nokkrar örþunnar flísar af mögru ærkjöti. Svo var ostbiti, dálítill ostbiti, og eins og upp í nös á ketti af smjöri í gler­krús. Svo var tesopi með.”[50]

Með búskap Jóns Markússonar og Elínar Jónsdóttur er lokið búskaparsögu Fells, þessa forna höfuðbýlis á Breiðamerkursandi. Eyjólfur Runólfsson kaupir stærsta hlut í jörðinni og nýtir í sinni búskapartíð á Reynivöllum.

[1] Þorsteinn Guðmundsson Byggðasaga, Einar Bragi; Þá var öldin önnur II bindi bls 14
[2] Einar Bragi; Þá var öldin önnur bls 14
[3] Sigurður Ragnarsson Æviskrár í netútgáfu
[4] Sigurður Ragnarsson Æviskrá netútgáfa í einkaeigu
[5] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[6] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[7] Einar Bragi; Þá var öldin önnur II bindi bls 19
[8] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[9] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[10] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[11] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[12] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[13]
[14] Einar Bragi: Þá var öldin önnur II bindi bls 20
[15] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[16] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[17] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[18] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[19] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[20] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[21] Sigurðru Ragnasrson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[22] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[23] Einar Bragi. Þá var öldin önnur önnur II bindi bls 24
[24] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[25] Sigurður Ragnasrson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[26] Einar Bragi; Þá var öldi önnur II bindi bls 26
[27] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaútgáfu
[28] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaútgáfu
[29] Einar Bragi Þá var öldin önnur II bindi bls :236, 247
[30] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[31]
[32]  Einar Bragi Þá var öldin önnur II bindi
[33] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[34] Einar Bragi; Þá var öldin önnur II bindi bls 59
[35] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[36] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[37] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[38] Fjölnir Torfason ritgerð um Ingimund Þorsteinsson ítarefni á síðunni.
[39] Þórbergur Þórðarson Í Suðursveit bls 280
[40] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[41] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[42]
[43] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[44] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[45] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeign
[46] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í einkaeigu
[47] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í eiinkaeign
[48] Þórbergur Þórðarson ;Í Suðursveit bls 190 – 191
[49] Sigurður Ragnarsson Æviskrár netútgáfa í eiinkaeign
[50] Þorleifur Jónsson Ævisaga bls 87

Scroll to Top