Stöðull

Hjáleigur prestsetursins á Kálfafellstað voru margar og um þær er getið víða í heimildum. Ekki voru þær heldur allar í byggð á sama tíma. Svíri og Stöðull voru þær hjáleigur er næst voru Kálfafellsstað og líklega elstar þeirra og minnst um þær vitað. 

Stöðull var hjáleiga komin í eyði við ritun  í Jarðabókar Ísleifs Einarssonar sýslumanns frá 1708-1709. Þar stendur: Hjáleiga að fornu, nú í eyði í 20 ár.[1] Einar Bragi og Þorsteinn Guðmundsson fjalla nær ekkert um Stöðul en telja hana fara í eyði um 1688, samkvæmt heimild Ísleifs. Í Örnefnaskrá Stefáns Einarssonar stendur: „Fyrir austan og neðan Staðarbæ heitir Grund. Stöðull hét neðan við Grundina. Þar er sagt að einu sinni hafi verið hjáleiga, sem hét Stöðull.“[2]
Ekki sér þar nú til tófta né ummerkja og ekki vitað um neina ábúendur. 

Svíri var forn hjáleiga nærri prestsetrinu á Kálfafellsstað. Við manntal 1703 var hún í byggð.[3] Í Örnefnaskrá Stefáns Einarssonar stendur: „Austan við Grundina heitir Svíri, bleytuforarmýri, sem nú er búið að þurrka. Svírinn var kargaþýfi ofan við Svíramýri.[2] Þar nálægt er líklegt að Svíri hafi staðið en búið er að jafna og þurrka allt þetta svæði og gera tún. Ekki sér til tófta. 
Svíri var í ábúð 1709 samkvæmt Jarðabók Ísleifs Einarssonar og einnig í Jarðaskrá Jóns Ísleifssonar 1721.[1] [4] Engar heimildir eru um ábúendur á þeim tíma og samkvæmt umsögn Einars Braga var ekki búið í Svíra árið 1735.[4] Samkvæmt Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu fór hjáleigan í eyði rétt fyrir 1801.[5] 

Séð heim að Kálfafellsstað um 1950. Ljósm. Skarphéðinn Gíslason, Vagnstöðum.

Heimildir

[1]  Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið. 
[2]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Kálfafellsstað. Heimildarmaður: Jóhann Björnssoná Brunnum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 
[3]  Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands. 
[4]  Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf. 
[5]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó. 

Scroll to Top