Butra

Um Butru

Í suður frá prestsetrinu á Kálfafellsstað eru nokkur klettaholt. Efsti kletturinn heitir Kvíaklettur en sunnan þjóðvegar eru þrír stakir klettar. Þegar gengið er lengra til suðurs komum við að Butruklettum, en við austurenda þeirra er Réttarklettur. Framar er Miðklettur og syðst eru Hellaklettar. Á þessu svæði eru miklar mannvistarminjar. Undir Butruklettum var hjáleigan Butra. Þar var búið á 17. öld en síðan af og til frá árinu 1735 – 1849 er séra Þorsteinn Einarsson lagði hjáleiguna undir Staðinn.[1][2] Í Jarðabók Ísleifs sýslumanns frá 1709 segir að Butra hafi farið í eyði fyrir 19 árum.[3] Butra er ekki nefnd í Jarðabók Jóns Ísleifssonar 1721 og er ekki í byggð við manntalið 1703.[4][5]

Ef gengið er fram á Butrukletta blasa tóftirnar við sunnan undir klettunum. Ofan í bæjartóftina hefur verið byggð fjárrétt og er hún því aflöguð. Ekkert er vitað um húsaskipan þar. Tóftirnar sem eru austarlega undir klettunum og víðar á svæðinu bera þess merki að vera gamlar og erfitt að átta sig á hlutverki þeirra.

Í Byggðasögu Austur Skaftafellssýslu segir: „Tún hefur verið þar lítið og þýft og grýtt. Lækur rennur þar fyrir neðan vestur um sundið með hyljum og holbökkum. Hann heitir Butrukíll og er afrennsli frá Þrælamýrinni.“[1]Jóhann Björnsson á Brunnum segir í örnefnalýsingu að í honum hafi oft drepist kindur og var hann með verstu kílum á landinu.[6]

Eins og á flestum hjáleigum Kálfafellsstaðar voru það fátækar fjölskyldur sem bjuggu í Butru og dvöldu yfirleitt stutt í einu. Margar örlagasögur fylgja því búsetu á þessum stað og lífsbarátta ábúenda því oft átakanleg.

Butra var ekki samfellt í byggð á 18. öld, en vitað er að séra Jón Þorsteinsson vék frá Kálfafellsstað og bjó um stuttan tíma í Butru þegar séra Þorsteinn Einarsson kom á Staðinn sem aðstoðarprestur.[6]

Ingimundur Þorsteinsson og Helga Bjarnadóttir bjuggu í Butru á árunum 1838 – 1841. Áður en þau Ingimundur og Helga fluttu í Butru höfðu þau eignast sex börn, þar á meðal Sigurð Ingimundarson er síðar varð m.a. sýslunefndarmaður og hreppstjóri í Öræfum og sat þjóðfundi.Hann var forfaðir Kvískerjasystkina og fjölda annarra Skaftfellinga. Hann fæddist í óveðri undir steini örlaganóttina 7. júlí 1829, eftir þá nótt lagðist niður byggð í Steinum og barninu var fljótlega komið í fóstur hjá ættmennum í Öræfum. Eina dóttur misstu þau á Reynivöllum, Hún hét Ingunn dáin 12.5 1837 aðeins fimm ára gömul. En áfram fylgdi ógæfan fjölskyldunni og mikill harmur að þeim hjónum kveðinn. Bjarni sonur þeirra dó 11 ára árið 1838 á fyrsta búskaparári þeirra í Butru, Guðný dóttir þeirra dó 1839, 14 ára gömul. Rétt fjórum mánuðum síðar fæddist þeim drengur, Jón að nafni en hann misstu þau tæplega ársgamlan í júlí 1840.[7]

Í kirkjubókum frá þessum tíma er áberandi hve mörg börn deyja ár hvert um alla sveit. Þó virðist þar munur á milli bæja og fjölskyldna og ekki gott að segja hvað réð þeim örlögum. Án efa hefur fátækt, skortur á hreinlæti og slæmur aðbúnaður ráðið miklu. Vatnslindir voru misjafnar á bæjum, ýmist brunnar eða vatn tekið úr opnum vatnsbólum eða lækjum þar sem búfénaður gekk líka um. Vegna þessa barnadauða í Butru reyndum við að finna vatnsbólið og teljum líklegt að það hafi verið brunnur sem mótar fyrir vestan og ofan við bæinn. Í kirkjubókum er algeng skýring á dauða barna innvortis mein, og erfitt að ráða í hvað það þýddi í raun.

Síðustu ábúendur í Butru voru Steinn Þorvarðarson og kona hans Þorgerður Þórðardóttir sem bjuggu þar á árunum 1845 – 1849. Hjá þeim dvöldu þá foreldrar Steins, Þorvarður Stefánsson og Ragnhildur Steinsdóttur sem lengst af bjuggu í Hellum. Þau dóu bæði í Butru, Þorvarður árið 1845 en Ragnhildur árið 1849.[7] Séra Þorsteinn Einarsson segir að hann hafi lagt Butru í eyði 1849 og lagt undir Staðinn.[2]

Örlagasögurnar halda áfram á hjáleigunni Butru þó að búsetu væri lokið þar árið 1849. Þann 6. september 1886 drukknuðu í Butrufljóti tvær vinnukonur frá Kálfafellsstað. Þær voru þar í vist hjá Séra Jóhanni Knúti Benediktssyni og konu hans Ragnheiði Sveinsdóttur föðursystur Einars Benediktssonar skálds. Það voru þær Ljótunn Þorláksdóttir 41 árs og Guðfinna Andrésdóttir 26 ára. Butrufljótið sem hér um ræðir er ekki sama vatnsfall og í dag er nefnt Butrukíll. Butrufljót eða Fljótið eins og það var oftast kallað var á þeim tíma austasta afrennsli Steinavatna við brekkurætur Kálfafells, nefnt Landkvísl og sameinaðist hún afrennsli lækja af þessu svæði. Þær Ljótunn og Guðfinna voru á leið á engjar og tvímenntu á hesti yfir Butrufljótið, féllu þar af baki og drukknuðu báðar. Ljótunn var frá Haukafelli á Mýrum, ólofuð, systir Þórunnar Þorláksdóttur seinni konu Steins Þórðarsonar á Breiðabólsstað, afa Þórbergs Þórðarsonar. Guðfinna var hins vegar frá Grænanesi í Norðfirði, hennar maður var Jón Jónsson frá Sléttaleiti. Guðfinna dó frá tveimur ungum börnum þeirra hjóna, Andreu Þuríði 3ja ára og Gísla eins árs. Andrea var með föður sínum á Kálfafellsstað eftir dauða móður sinnar en ólst síðan upp í Nesjum sem niðursetningur á nokkrum bæjum þar. Síðar er hún gift kona í Reykjavík. Gísli litli var skráður um haustið hjá Þórunni Gísladóttur og Skarphéðni Pálssyni í Borgarhöfn, en ólst síðan upp hjá föðurbróður sínum Gísla Jónssyni í Hólmi á Mýrum. Hans biðu sömu örlög og móður hans, en hann drukknaði í Brúará árið 1930 aðeins 45 ára gamall.[8]

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2]  Þorsteinn Einarsson, (1997). Kálfafellsstaðarsókn ár 1855. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna),Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 125-143). Reykjavík: Sögufélag.
[3]  Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið.
[4]  Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[5]  Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
[6]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Kálfafellsstað. Heimildarmaður: Jóhann Björnssoná Brunnum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[7]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[8]  Skráð af Fjölni Torfasyni. Heimild: Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911 og Sóknarmannatal 1881-1888.

Scroll to Top