Steinar

Um Steina

Austasti bær fyrir sunnan Steinasand var Steinar, lítið býli undir Steinafjalli. Steinar voru metnir til 12 hundruða forna. Upphaflega átti Þykkvabæjarklaustur jörðina, en konungur gaf hana Kálfafellsstaðarkirkju að léni til uppihalds prestum og síðar prestsekkjum. Margar og merkilegar sagnir tengjast jörðinni Steinum. Til er heimild fyrir því hvernig Kálfafellsstaðarkirkja eignaðist jörðina. Það var árið 1600, sem uppgjafaprestur Gissur Eyjólfsson bjó á jörðinni og átti hann í málaferlum við Ketil Ólafsson þáverandi prest á Kálfafellsstað. Þá er það sem Steinar eru dæmdir sem sakareyrir til kirkjunnar og urðu eign hennar upp úr því.[1]

Steinar er eina jörðin sunnan Steinasands sem ekki var í bændaeign.[2] Það var ekki fyrr en árið 1920 sem ábúandi á Sléttaleiti keypti jörðina og hún varð eignajörð. Bæjarstæðið í Steinum er um margt sérstakt, en það er neðan undir stórgrýtisurð austan undir suðurhorni Steinafjalls. Í Steinum eru miklar búsetuminjar, þar á meðal garðar, hleðslur og tóftir frá hinum ýmsu tímabilum, margar án efa fornar. Steinar voru notadrjúg jörð og góð til bús. Á Steinadal, í Hvannadal og í Staðarfjalli er mikið beitiland allt inn til jökla. Þar er því gott sauðfjárland og vetrarbeit, skógur til nytja og einnig voru góðar slægjur í nágrenni Steina bæði í svokölluðu Steinaræsi svo og í Borgarlandi austast á Steinaeyjum neðan þjóðvegar, en einnig í teigunum vestur með fjalli að Markaleiti. Önnur hlunnindi voru m.a. afnot af fjöru, góð veiði í Breiðabólsstaðarlóni og gnægð fiskjar í Steinalæknum sem rann rétt við bæjardyrnar.[1]

Við manntal 1703 er ábúandi í Steinum prestsekkjan Margrét Magnúsdóttir, sjá nánar manntal 1703 undir þessum lið.[3]  Maður Margrétar f. 1649 var Bjarni Hallsson prestur á Kálfafellsstað 1670 – 1688. Páll sonur Margrétar er sagður bóndi í Steinum 1707 Margrét var dóttir séra Magnúsar Péturssonar á Hörgslandi sem orti Tyrkjasvæfu.[1]

Ekkert er vitað um ábúð í Steinum um langt árabil og heimildir slitróttar, fyrr en þangað kom Þorvarður Björnsson f. 1699 sonur Björns Þorleifssonar f. 1662 lögréttumanns á Reynivöllum. Þorvarður fór til náms í Skálholtsskóla og lærði bæði til prests og sýslumanns en kaus að verða bóndi í Suðursveit. Hann bjó í Steinum á árunum 1735 – 1743 með vissu, en skráður á Breiðabólsstað 1753 og síðar á Reynivöllum. Einar Bragi telur hann hafa hlotið að hefja búskap á Steinum fyrr en árið 1735.[2]  Talað er um að Steinar hafi farið úr byggð vegna skriðufalla 1743, en hugsa má að jörðin hafi verið nytjuð áfram fyrir búpening. Þorvarður var talinn fjárríkasti bóndi í Suðursveit er hann flutti frá Steinum.[1] Þorvarður var skikkaður til prests í Sandfelli 1751 en þáði ekki og afsakaði sig með heilsubresti. Sagnir lifðu í Suðursveit um ríkidæmi Þorvarðar í Steinum. Eftir 1785 var nokkuð samfelld byggð í Steinum en þá fluttist þangað Rannveig Jónsdóttir, síðar búsett á Felli og fyrsti maður hennar Jón Jónsson. Jón dó úr Stórubólu 1786 en Rannveig bjó áfram í Steinum. Dóttir þeirra Valgerður erfði hlut Halls Jónssonar föðurbróður síns í Fellinu eftir að faðir hennar dó. Þau Jón og Rannveig voru í hjónabandi í 11 ár en eignuðust bara þetta eina barn. Rannveig átti síðar í barnsfaðernismálum og Einar Bragi rithöfundur telur líkur á að Jón hafi ekki verið faðir Valgerðar þar sem þau eignuðust ekki fleiri börn, heldur hafi gifst henni til að gangast við barninu. [2]

Rannveig giftist aftur Eyjólfi Jónsson f. 1735, hann var annar maður Rannveigar. Þeirra börn voru Jón f. 1788 og Gróa f.1790. Eyjólfur var 17 árum eldri en Rannveig. Þau fluttu síðan að Felli á jarðarhluta Valgerðar árið 1788. Einar Bragi skráði: „Af ýmsum ástœðum hallast ég að því, að Rannveig hafi verið ófrísk eftir annan mann, þegar hún giftist Eyjólfi, og hjónaband þeirra mest á yfirborðinu til að komast hjá árekstrum við öfugsnúin lög og almenningsálitið. Eyjólfur er tekinn að reskjast og gengur ekki heill til skógar.“[2]  Rétt er, að sem ekkja gift­ist Rannveig en var ekki gefin að frændaráði, svo að enginn tók ábyrgð á, að hún færi kona einsömul. Ef hún var ólétt eftir annan, gæti Eyjólfur hafa keypt hana sér til fjár.[2] Eftir að Rannveig og Eyjólfur fluttu að Felli urðu tíð ábúendaskipti í Steinum. En árið 1826 voru það Ingimundur Þorsteinsson f. 1794 frá Felli og Helga Bjarnadóttir f. 1799 kona hans frá Skaftafelli sem fluttu að Steinum. Þar tóku þau á móti örlögum sínum í vatnsflóði og miklu hrapi úr fjallinu 7. júlí 1829, og undir steini í hlíðinni fæddist sonur þeirra Sigurður Ingimundarson þessa örlagaríku nótt. Sigurður Ingimundarson bjó síðar á Kvískerjum og Fagurhólsmýri, þekktur maður í Austur Skaftafellssýslu bæði hreppstjóri, sýslunefndarmaður og sat Þingvallafundina 1873 og 1884. Fjölskylda Ingimundar dvaldi um veturinn 1929 – 1930 á bæjunum sunnan Steinasands og gekk Ingimundur til gegninga í Steinum, en byggði síðan nýjan bæ vestur með hlíðinni sumarið eftir og nefndi hann Sléttaleiti.[4] Bærinn í Steinum fór þá í eyði.

Þorsteinn Guðmundsson segir í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu, að steinninn sem barnið fæddist undir sé inn með hlíðinni og á þeim tíma vel þekktur.[1] Síðar glataðist sú þekking meðal heimamanna þar til að séra Sváfnir Sveinbjarnarson prestur á Kálfafellsstað gat vitnað í heimsókn sína að steininum með Stefáni Benediktssyni í Skaftafelli, er þeir voru á ferðalagi þarna um.[5] Ætla má að þar sé um áreiðanlega heimild að ræða þar sem Stefán Benediktsson f. 1873, var uppalinn á Sléttaleiti í námunda við sögustaðinn. Stefán var á Sléttaleiti með móður sinni 1874 –1878 og síðar 1885 – 1898, þá orðinn 25 ára gamall. Trúlegt er að sagan hafi lifað sterkt í vitund fólks á þessum tíma, því ekki var svo langt um liðið eða minna en mannsaldur frá því að svo miklar náttúruhamfarir gengu yfir. Staðsetningu steinsins má sjá á korti hér á síðunni.

Ingimundur fékk þau ummæli að hann hafi verið listasmiður og sáttamaður, það skráir Einar Bragi eftir Sveini Einarssyni frænda sínum er síðar bjó á Sléttaleiti.[2] Eitt er víst að á Sléttaleiti og í Steinum er miklar minjar um byggð og rústir af veglegum byggingum. Þar má örugglega sjá handverk Ingimundar í Steinum og ætla má að smiðjuna á Sléttaleiti sem enn stendur uppi hafi Ingimundur byggt þau ár sem hann bjó þar.[6]

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2]  Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[3]  Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
[4]  Benedikt Þorsteinsson, (e.d) Frá Steinum og Sléttaleiti. Sótt á www.thorbergur.is/index.php?option=com_content&view=category&layout=blog&id=28&Itemid=138
[5]  Sváfnir Sveinbjarnarson, (2016). Á meðan straumarnir sungu. Selfossi: Sæmundur útgefandi. 
[6]  Einar Bragi, (1973). Þá var öldin önnur I. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.

Scroll to Top