Krókur, Fljótsbakki eða Slétta

Um Krók, Fljótsbakka eða Sléttu

Eyðibýlið Krókur, Fljótsbakki eða Slétta er niður í landinu í suðvestur frá Hellum, vestan við Fljótið. Það var stutt í byggð, eða á árunum 1849 – 1863 og aðeins einn ábúandi á þeim tíma. Býlið ber mismunandi nöfn í frásögum manna og kirkjubókum. Þórbergur Þórðarson segir Krók vera eina af hjáleigum Kálfafellsstaðar og vera niður á sléttunni í vestur frá Hellum vestur undir Kálfafellslöndum.[1] Jóhann Björnsson bóndi á Brunnum segir í örnefnalýsingu Kálfafellsstaðar: „Austarlega og efst í Sléttunum var Krókur hjáleiga frá Kálfafellsstað. Afi Snorra Halldórssonar bjó í Króki. Rústirnar heita Krókstættur. Kvísl eða lækur er ofan við tóttirnar, kölluð Krókskvísl. Ofan við lækinn er engjastykki, sem dregur nafn af Magnúsi, afa Snorra, og er kallað Magnúsarstykki, oft kallað Magnúsarskipti eða jafnvel Mangi.[2] Eftirtektarvert er að hvorugur þeirra nefnir Fljótsbakka á nafn. 

Horft yfir Krókstættur til suðvesturs í átt að Steinadal.

Krókstætturnar má enn sjá á bakkanum hjá Krókskvíslinni, aðeins vestar en þar sem hún rennur í Fljótið. Bugðan sem er á mótum þessara lækja myndar eins og  krók í landslagið og sést það vel á loftmynd. Tóftirnar í Króki eru mjög grónar og þýfi mikið ofan í þeim og því erfitt að greina húsaskipan. Hægt er þó að greina tvö hús og stóra tóft vestast í húsaþyrpingunni. Hún lítur út fyrir að hafa verið einhvers konar skjól án þaks, kannski fjárskjól eða heygarður. Stök tóft er austar og alveg á lækjarbakkanum sem erfitt er að greina. Tær uppspretta er skammt vestan við bæinn og ekki ólíklegt að tekið hafi verið þar neysluvatn, ef til vill hefur það ráðið einhverju um staðsetningu nýbýlisins. Mikil og góð slægju- og beitarlönd voru þarna niður í landinu allt í kring og heita þau ýmsum nöfnum.  

Þorsteinn Guðmundsson kallar bæ þennan Fljótsbakka í Byggðasögunni og segir hann staðsettan út í landinu í suðvestur frá Hellum.[3] Að því er virðist er þetta allt sami bærinn, en notuð um hann mismunandi nöfn í heimildum og kirkjubókum, svo og hjá sveitungum.

Heimildir

[1]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning. 
[2]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Kálfafellsstað. Heimildarmaður: Jóhann Björnsson Brunnum    Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. 
[3]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó. 

Scroll to Top