Krókstætturnar má enn sjá á bakkanum hjá Krókskvíslinni, aðeins vestar en þar sem hún rennur í Fljótið. Bugðan sem er á mótum þessara lækja myndar eins og krók í landslagið og sést það vel á loftmynd. Tóftirnar í Króki eru mjög grónar og þýfi mikið ofan í þeim og því erfitt að greina húsaskipan. Hægt er þó að greina tvö hús og stóra tóft vestast í húsaþyrpingunni. Hún lítur út fyrir að hafa verið einhvers konar skjól án þaks, kannski fjárskjól eða heygarður. Stök tóft er austar og alveg á lækjarbakkanum sem erfitt er að greina. Tær uppspretta er skammt vestan við bæinn og ekki ólíklegt að tekið hafi verið þar neysluvatn, ef til vill hefur það ráðið einhverju um staðsetningu nýbýlisins. Mikil og góð slægju- og beitarlönd voru þarna niður í landinu allt í kring og heita þau ýmsum nöfnum.
Þorsteinn Guðmundsson kallar bæ þennan Fljótsbakka í Byggðasögunni og segir hann staðsettan út í landinu í suðvestur frá Hellum.[3] Að því er virðist er þetta allt sami bærinn, en notuð um hann mismunandi nöfn í heimildum og kirkjubókum, svo og hjá sveitungum.