Hellar

Um Hella

Hellar var ein af hjáleigum prestsetursins á Kálfafellsstað. Í suður frá Kálfafellstað eru nokkur klettaholt. Syðstu klettarnir heita Hellaklettar og eru þeir hæstir. „Þarna var hjáleigan Hellar, í brekkunni framan undir klettinum miðja vegu og túnið brekkuræman meðfram klettinum, lítið en slétt“ segir í Byggðasögu Austur Skaftafellssýslu.[1] Í Jarðabók Ísleifs Einarssonar frá 1708 – 1709 segir um Hella: „Hjáleiga byggð úr heimalandi staðarins. Landskuld Ixxx áln. Kúg. 1. Kvaðir: dagsláttur, skipsáróður, hestlán.“[2]

Í Hellum eru merkar búsetuminjar og fjölmargar fornar tóftir enda var búið þar lengi. Í Byggðasögunni segir einnig: „Rétt fyrir vestan Hellatúnið er kuml, sem líkist leiði að lögun og snýr frá austri til vesturs. Það heitir Völvuleiði. Það orð lék á, að Völvuleiði skyldi hlaðið upp er þörf krefði, en ekki oftar og myndi þá happ af hljótast.“[1]

Þórbergur Þórðarson segir svo frá í bók sinni um Lönd og lýði: „Butra og Hellar höfðu staðið úti í landinu suðaustur af Kálfafellsstað, vestar en Einbúi, en austar en Krókur, undir klettum, sem kallaðir voru Butruklettar og Hellaklettar, og Butra var nær Staðnum. Það var altalað, að huldufólk hefði búið í þessum klettum og byggi kannski enn, og það var sagt, að í Butruklettum hefði verið gott huldufólk, en slæmt í Hellaklettum. […] Mér þótti fallegra í Hellum. Klettarnir voru hærri og lengri og reglulegri en Butruklettar, og lagleg brekka framan undir þeim endilöngum, og vestan til í henni hafði bærinn staðið. Þar lifðu ennþá tættur og lítill kálgarður fyrir framan þær. Það var örstutt frá tóttastöfnunum upp að klettunum. Það voru víst litlir hellisskútar undir þeim, sem þeir höfðu fengið nafn af. Það var auðfundið, að hér var fleira en augun sáu.“[3]

Það er erfitt að lesa í minjarnar undir Hellaklettum, lítið um þær vitað og nær engar heimildir finnast um aldur þeirra. Bæjarhúsin voru á skjólgóðum stað undir Hellaklettunum og er sú tóft auðþekkt þar sem hún er stærst og heildstæðust af tóftunum. Ofan í hana voru byggð fjárhús eða sauðahús og hlaða sem voru nytjuð frá Kálfafellsstað og ber tóftin þess greinilega merki í dag. Undir Hellaklettum eru myndarlega hlaðnir garðar sem liggja samhliða meðfram klettunum, þeir eru þrír talsins og stutt á milli þeirra. Garðarnir eru hlaðnir úr torfi og eru allt að metri á breidd að ofan. Tóft með mjög breiðum torfveggjum er þversum á milli fremri garðanna og virðist eins og að á henni hafi ekki verið þak. Innsti garðurinn er líklega túngarður en hann liggur vestur fyrir tóftina af bæjarhúsunum. Hinir garðarnir eru styttri og liggja samhliða honum með 2 – 4 metra millibili, sá fremsti stystur. Garðanna er ekki getið í heimildum og hlutverk þeirra því ekki ljóst. Getgátur eru uppi um að garðarnir hafi verið fiskigarðar, þar hafi aflinn verið þurrkaður sem að landi kom við sjóróðra frá Bjarnahraunssandi. Ef til vill er tóftin á milli garðanna því eitthvað tengd því (sbr. fiskigarðurinn í Hálsum var líka hlaðinn úr torfi).[4]

Í Hellalandi suður af Hellaklettum eru líka margar vallgrónar tóftir. Mestar þeirra eru Sauðhúsatóttir, þrjár stærðar tóftir sem voru fjárborgir eða sauðahús frá Kálfafellsstað. Frá Hellaklettum og niður að þeim hafa verið hlaðnar vörður úr torfi til að beina sauðamönnum rétta leið til gegninga í dimmum og hörðum vetrarveðrum. Sjá má tvöfalda röð af slíkum vörðum niður Hellalandið í átt til sjávar. Góðar engjar voru í landinu suður af Hellum sem tilheyra Kálfafellsstað, og bera hin ýmsu nöfn, stundum kenndar við menn, svo sem Þorsteinstangi og frægur er Þorbjarnarteigur. Þar fannst skipreika maður á 16 öld, illa haldinn sem enginn þekkti til í Suðursveit.“[4]

Undarleg tóft er upp á Hellaklettum og stór hlaðin rétt eða áheldi í vestasta skarðinu í klettunum. Austarlega undir klettunum er greinileg tóft, sennilega fjárhústóft og hefur mannvirkið verið með þaki úr járni. Séra Sváfnir Sveinbjarnarson sem kom sem prestur á Kálfafellsstað 1952 veit ekkert um þá tóft og var hún ekki nýtt þann tíma sem hann bjó á staðnum 1952– 1963.

Ábúendur í Hellum voru fjölmargir frá aldamótum 1700, allt fátækir leiguliðar Kálfafellsstaðar, sem bjuggu við þröngan kost og frumstæð húsakynni þess tíma. Árin 1831 – 1857 mun hafa verið tvíbýli í Hellum, ekki þó samfellt og ekki er vitað hvar sá bær var. Þó er hugsanlegt að gömul tóft á lækjarbakkanum rétt sunnar en Hellaklettarnir hafi verið smábýli. Þar má greina garð framan við tóftina sem er merki um bæ, frekar en útihús. Einnig eru myndarlegar og greinilegar fornar tættur í suðaustur frá Hellum niður í landinu, sem erfitt er að átta sig á og ekkert vitað um. Sá staður er hins vegar ekki líklegt bæjarstæði, enda á berangri, en gæti hugsanlega verið marghólfa seljatóft eða stekkur.

Hafa þarf í huga þegar fornar tóftir eru kannaðar að fá hús á 18. og 19. öld hýstu búpening. Fjárhús þekktust ekki en sauðfé hafði skjól í fjárborgum og skjólum eða hellum sem hlaðið var fyrir. Þó munu hafa verið svokölluð lambhús heima við bæi, en ekki á öllum bæjum. Sauðhúsatætturnar neðan við Hellaklettana eru gott dæmi um fjárborgir, hringlaga hlaðnar tóftir úr torfi sem hafa átt að skýla útigangsfé eða sauðum í hörðum veðrum. Ekki er hægt að sjá að þak hafi verið á þeim tóftum, þar sem þær eru svo víðar, og ekki verið til nokkur efniviður í þök á þeim tíma. Mjög líklega hefur verið opin heytóft við borgirnar, þar sem þær eru staðsettar í engjalandi Kálfafellsstaðar og tyrft yfir heyið í heygarðinum til vetrarins. Talað var um „að gefa fé á skalla” þ.e. beint á jörðina jafnvel þó nokkur vindur væri. Féð stóð þá þétt saman ofan á heyinu, þannig að skjól hlaust af.[1] Áberandi er að fjárborgir voru oftast staðsettar á sléttlendi eða norðan á hraunum og klettum, til að ekki fennti að þeim. Fundist hafa nokkrar slíkar svo og fjárskjól í öllum byggðahverfum Suðursveitar en örugglega leynast fleiri undir grónum sverði. Þær eru því ævafornar og afar merkar minjar um atvinnuhætti og nánast hirðingjabúskap öldum saman í sveitunum undir Vatnajökli.

Hellar voru í byggð við manntal 1703 og samfellt frá árinu 1785 til ársins 1863.[5][6] Margt er óljóst um ábúendur í Hellum á 18. öld, og flestir bjuggu þar aðeins í stuttan tíma. Einar Bragi fer yfir byggðaþróun þar frá manntali 1703 í bók sinni Þá var öldin önnur II. bindi. Honum gekk illa að ráða í hverjir voru þar búendur og byggðin var ekki samfelld.[7]

Einna lengst bjuggu í Hellum Ragnhildur Steinsdóttir föðursystir Gamla Steins á Breiðabólsstað, afa Þórbergs Þórðarsonar, og maður hennar Þorvarður Stefánsson. „Þau voru fátæk“, segir Þórbergur Þórðarson.[3]Ragnhildur er sögð ein manna hafa lifað af bólusótt þá er nefnd var dauðabóla og gekk í Skaftafellssýslu 1786, en þá hefur Ragnhildur verið 7 ára gömul. Tvær tegundir voru sagðar af bólunni og önnur þeirra var vægari en dauðabólan. Var talað um að hold hefði rotnað frá beinum í dauðabólu og átti Ragnhildur eftir að bera merki þess alla ævi.[3].

Ragnhildur var yfirsetukona í Suðursveit og séra Þorsteinn Einarsson á Kálfafellsstað taldi hana í dýrlingatölu. Hún tók á móti dóttur hans Torfhildi Hólm Þorsteinsdóttur skáldkonu. Hún var sögð trúkona mikil, bænheit og hagorð. Ragnhildur var þungt haldin af brjóstmeini og minnist fólk þess að hafa séð hana gera að sárinu með hreinsaðri fífu. Þeir sem horfðu á aðgerðina, sögðust hafa séð hjartað slá undir rifjunum, segir Þórbergur.[3]Ragnhildur lést í Butru 4.2. 1849 „sögð 71 árs, af brjóstmeini eftir 3ja missera þunga kröm út af því sama meinlæti, sem þó þettað heiðurs, guðelskandi, gáfaða og dugnaðarkvendi ótrúanlega hetjulega afbar allan þann tíma og tafði fyrir.“[8]

Séra Þorsteinn Einarsson segir í Sóknarlýsingum sínum 1855 að hann hafi látið flytja Hella á annan stað í Hellalandinu og er það enn ein hjáleigan, nefnd Krókur eða Fljótsbakki.[9] Hellar voru þó í byggð til ársins 1863 er síðustu ábúendur Steinn Þorvarðarson og Þorgerður Þórðardóttir fluttu í Borgarhöfn. Þar með er byggð lokið á þessum fallega og skjólsama stað undir Hellaklettum. Þórbergur lýsir því er hann stóð við bæjartóftirnar í Hellum, talaði við þær og virti fyrir sér útsýnið allt um kring: „Hér hefur náttúran verið djúp í logni á haustkvöldum, þegar búið var að koma heyinu undir þak og tunglið var syndandi ofan við hafsbrúnina og gerði rauða geisla á lóninu og allir voru við góða heilsu á bænum.”[3]

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2]  Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið.
[3]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[4]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Kálfafellsstað. Heimildarmaður: Jóhann Björnssoná Brunnum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[5]  Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
[6]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[7]  Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[8]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[9]  Þorsteinn Einarsson, (1997). Kálfafellsstaðarsókn ár 1855. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna),Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 125-143). Reykjavík: Sögufélag.

Scroll to Top