Mattakofi

Hvammur í Kambtúni - Mattakofi

Í Kambtúni við Hestgerðiskamb eru fornar verbúðarrústir frá því er vermenn komu yfir Vatnajökul til sjóróðra í Hálsahöfn við Borgarhafnarhálsa. Eru þær orðnar mjög ógreinilegar og grónar en um 1975 mátti greinilega sjá þar nokkrar U laga tóftir, ekki ólíkt búðartóftum sem tjaldað  hefur verið yfir.  

En í Kambtúni var líka búið á 20. öldinni. Efst uppi í kvosinni þar sem fjallið og kamburinn mætast eru greinilegar tóftir hlaðnar úr grjóti. Það er svokallaður Mattakofi, tvær samliggjandi tóftir sem voru undir sama þaki, sú fremri skilgreind sem bæjartóftin en sú nyrðri fjárhústóft. 

Karl Matthías Sigurðsson (1887 – 1961) var einsetumaður í Kambtúni á árunum 1934 – 1944 og reisti hann þar svokallað húsmannsbýli og bjó að sínu þar. Nefndi hann bæinn Hvamm. Áður hafði Karl verið vinnumaður víða um sveitir, var fæddur á Hofi í Öræfum og ólst þar upp en var um tíma á Skálafelli hjá bróður sínum Sigurði. Karl flutti á Höfn árið 1944, eftir það var ekki búið lengur í Hvamminum í Kambstúni. Það sem þótti sérkennilegt við búskap Karls Matthíasar var að hann átti nokkrar geitur. Þær voru mjög hændar að honum og frá þeim hafði hann mjólk sér til matar. Karl var nær heyrnarlaus en kunni að tala þar sem hann missti heyrnina á unglingsaldri.[1]  

Heimildir

[1]  Jóhanna og Torfhildur Ólafsdætur ( 2001). Einbúinn í Kambtúni. Skaftfellingur: Þættir úr Austur-Skaftafellssýslu, 14, 91- 94. Höfn: Menningarmiðstöð Hornafjarðar 

Scroll to Top