Heinaberg er talin vera með fyrstu jörðum á Mýrum, næst landnámsjörðinni Viðborði. Nafn jarðarinnar hefur ýmist verið ritað Heiðnaberg eða Heinaberg eins og nú og er dregið af bergtegund sem finnst í höfðum á aurunum vestur af bænum og heita Heiðnar eða Heinar. Ljábrýni úr sömu eða líkri bergtegund voru kölluð heinabrýni.[4]
Í Jarðaskrá Ísleifs Einarssonar frá 1708-1709 segir: „Heinaberg. Bænda eign. vj. hundr. Landsk. Hefur að fornu verið lxx áln. Sýnist nú ei meira vera kunna en xl áln. Kvaðir eru nú aungvar. Skóg á jörðin í sínu landi til eldingar“.[3] Í jarðatali Johnsens frá 1847 er Heinaberg metið á 6 hundruð, landskuld engin, kúgildi ekkert.[2]
Bærinn stóð fyrrum vestast í Heinabergsnesi. Heinabergsvötn runnu sunnan og vestan við bæinn og báru fram mikið af sandi og aur, svo mölin hlóðst upp með túnum og upp á þau.[4] Þegar vötnin tóku að renna norðan við nesið, reyndist erfitt að komast frá bæjarstæðinu til fjalla og beitilands. Að lokum var bærinn fluttur upp undir Heinabergsfell (Grænafell) undir lok 19. aldar.
Mikill hluti Heinabergslands er fjalllendi, nokkuð grasgefið, í Bólstöðum og á Heinabergsdal. Er niður á sléttlendið kemur er mikið um aura og sanda. Mikið af aurum þessum er nú að vaxa upp, síðan Heinabergsvötn fóru til Suðursveitar í Kolgrímu. Beitiland var metið mikið og gott en tún var þar fremur lítið og ekki í góðri rækt þrátt fyrir víðáttumikið túnstæði. Engjalönd lágu samhliða engjalöndum Eskeyjar í svokallaðri Borgey. Skóglendi átti Heinaberg á Heinabergsdal og rekafjöru fyrir Eskeyjarlandi. Heiðargrasatekja var og á Heinabergsdal og silungsveiði í vatnsföllum. Vatnsból var lækur neðan við túnið skammt frá bænum.[4]
Myndarlegar húsatóftir er enn að finna á eldra bæjarstæðinu sunnan undir Heinabergsnesi. Sama er að segja um yngra bæjarstæðið suður af fellinu. Þar stóð bærinn upp undir klapparhól sem kallast Klöppin. Uppröðun bæjarhúsanna var þessi: „vestast var smiðjan, við hlið hennar var hlaðan og þá hlóðareldhús. Næst kom inngöngubærinn og úr honum var gengið í eldhús, baðstofu og búr en austast var fjósbaðstofa. Austan baðstofunnar var heygarður sem heyi var kastað í.“[5]
Húshraun er austar í landi Heinabergs og þar voru fjárhús. Þegar gengið er frá bæjarstæðinu í átt að Heinabergsöldum blasir við fjárhústóftin við undir lágu klapparholti.
Hér höfum við dæmi um jörð í greipum jökuls á nítjándu öld. Um aldamótin 1900, þegar Mýrajöklar voru í sinni mestu útbreiðslu hlýtur að hafa verið tilkomumikið en ógnvekjandi að standa á bæjarhlaðinu undir Heinabergsfelli. Þaðan mátti sjá í jökultungu Fláajökuls til austurs og Heinabergsjökuls til vesturs. Fjarlægðin frá bæjarhlaðinu austur að jökulsporðinum var innan við einn kílómetri, þar sem hann lá fram á Heinabergsöldurnar og tæpir 2 km að sporði Heinabergsjökuls vestan Höfða.
Það er gömul trú að í Heinabergi og þar í kring búi huldufólk. „Oft hafa menn þóst sjá bergið uppljómað af kvöldljósum álfanna og ýmis önnur merki hafa gefið til kynna að þar byggju álfar, enda bergið bæði fagurt og einkennilegt. … Á búskaparárum Jóns Jónssonar merkisbónda í Heinabergi byggði hann lambahús og gróf inn í hól í túninu … . En þegar dreymir hann að til hans kemur huldukona ein. Hún var gremjuleg að sjá og ávítar hann fyrir breytni þessa, segir hann hafa ónýtt bæinn sinn svo hún verði að flýja hólinn. En þareð hann sé mesti lagnaðarmaður til verka þá geti hann nú bætt sér skaðann með því að hjálpa sér til að búa um sig. Hann kveðst ekki koma því við að sinni. Síðar kemur hún til hans aftur og sækir nú fast á að fá hann til sín og smíða utan um manninn sinn en hann þverneitar því. Hún segist þá skuli hugsa um hann þrjár nýársnætur og segir honum skuli verða erfitt að neita sér. Eftir þetta hvarf hún.
Nú líður tíminn og þótti bregða svo undarlega við að nú gat Jón varla farið svo frá bænum að hann villtist eigi; vað það kennt álfkonunni. Fyrstu nýársnótt biður Jón að vakað sér yfir sér og varð að halda honum því alltaf vildi hann ofan. Alveg fór eins hina aðra. Þriðju nýársnóttina kvað hann að hún myndi harðast sækja og vöktu þá margir. Svo fór að þeir sofnuðu allir … [kona] hrökk brátt upp við það að Jón var dreginn ofan úr rúminu og fram á pallsnöfina. En er menn komu þá var honum sleppt. Eftir þetta létti aðsókn þessari en aldrei náði Jón sér að sögn. Ætluðu sumir menn að álfkona þessi hefði flutt sig í Heinabergið.“[1]
Heinaberg fór í eyði 1934 og nú er hluti jarðarinnar innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs.
Heimildir:
[1] Íslenskar þjóðsögur og sagnir III (1982). Safnað hefir og skráð Sigfús Sigfússon. Óskar Halldórsson bjó til prentunar. Reykjavík: Bókaútgáfan Þjóðsaga.
[2] Jarðatal á Íslandi (1847). Kaupmannahöfn: J.Johnsen, 1847.
[3] Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið.
[4] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ.
[5] Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Heinaberg. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.