Krikabakki, Árbakki, Staðarbakki

Um Krikabakka, Árbakka, Staðarbakka

Á eystri bakka Staðarár var byggt enn eitt smábýlið eftir að eldri hjáleigurnar Hellar og Butra fóru í eyði. Býlið á Krikabakka var stutt í byggð, frá árinu 1864 – 1866 og svo virðist vera að bærinn fái ekki fast nafn. Í frásögnum sveitunga og rituðum heimildum er býlið kallað mismunandi nöfnum, ýmist Árbakki eða Staðarbakki, en sennilega hefur örnefnið Krikabakkar eða Krikatorfa verið þarna fyrir. Tóftirnar af býli þessu eru ógreinilegar og vallargrónar en hafa verið nokkrar að umfangi miða við stutta búsetu. Greinilega má sjá húsaskipan og lögun í meintri bæjartótt.  

Deilur stóðu um þetta bæjarstæði milli séra Þorsteins Einarssonar og bænda í Borgarhöfn. Býlið stóð austan við Staðará, sem rann á landamörkum þessara jarða. Taldi séra Þorsteinn að þetta land væri í eigu Kálfafellsstaðar þar sem Staðaráin hefði áður runnið austar. Gróf hann nokkrar gryfjur til sannindamerkis um það að þar væri aur undir. Þorsteinn Guðmundsson talar um það í byggðasögunni að enn sjáist þess merki, en ekki finnast þær ójöfnur svo óyggjandi sé. [1]  

Ábúendur á Krikabakka á árunum 1863 – 1866, segir í Byggðasögu voru Sæbjörn Egilsson f.1836 og bústýra hans Katrín Halldórsdóttir f. 1831. Hann kom austan af landi og kallaði bæ sinn Árbakka.[1] Í prestþjónustubók Kálfafellsstaðar kemur fram  árið 1864 koma í Suðursveit Sæbjörn Egilsson 27 ára yngismaður og Katrín Halldórsdóttir yngisstúlka, hann frá Slindurholti á Mýrum. Þau eru þar skráð á jarðnæði í Borgarhöfn og í dálk aftan við stendur ,,ætla  eigast.” [4] Þarna ber heimildum ekki saman. Í Prestþónustubók Einholtsprestakalls er Sæbjörn skráður vinnumaður á Borg á Mýrum 26 ára sem er þá árið 1862.[5]
Katrín Halldórsdóttir bústýra á Staðarbakka lést 20. júní 1866 samkvæmt kirkjubókum[4] Í Sóknarmannatali séra Þorsteins finnst lítið um Sæbjörn Egilsson. Þar finnst hann þó skráður árið 1866  á 2. býli í  Borgarhöfn ásamt Þorbjörgu Halldórsdóttur vinnukonu og Teiti Gíslasyni. Þorbjörg var systir Katrínar og virðist hann hafa flutt til hennar eftir lát Katrínar.  [4]  

Eftir lát Katrínar Halldórsdóttur lagðist byggðin á Staðarbökkum af.  Þó munu Jóhann Magnússon og Björg Björnsdóttir hafa búið þar í einn mánuð, en fluttu þaðan að Græntanga. Voru þau mjög hrædd um ung börn sín vegna þeirrar hættu er stafaði af Staðaránni er rann þar við bæjardyrnar.[1]  

Sagnir eru um að Sæbjörn hafi búið í Borgarhöfn áður en hann byggði upp á Krikatorfu.  Upp undir austanverðu Borgarhafnarfelli, fyrir ofan bæina í Borgarhöfn er svokölluð Sæbjarnartóft. Samkvæmt Örnefnaskrá Borgarhafnar er tóftin vestur af Dalsmýri við Fellið. ,,Sæbirni leiddist í Borgarhöfn og flutti í Krikatorfu,“ segir þar.  [3]   Sæbjörn flutti frá Krikabakka aftur austur á land og gerðist gildur bóndi að Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal.[1]Hann var meðhjálpari í Kálfafellsstaðarkirkju á meðan hann dvaldi í Suðursveit. Sjá nánar Sæbjarnartóft í Borgarhöfn.

Greinilega hafa lifað sterkt sagnir um þá sem komu lengra að og tóku sér búsetu í Suðursveit utan hefðbundinna bændabýla, eins og sjá má af eftirtöldum heimildum. Þorsteinn Guðmundsson skráði: „Sæbjörn var vel látinn af öllum sem hann þekktu, röskleikamaður, greindur og skemmtinn. Hann mun hafa skráð frásögu þá, sem til er um sjóhrakninga og manntjónið á Mýrum hér í sýslu 1843.“ [1]  

Þórbergur Þórðarson skráði, að Sæbjörn hefði verið nettur maður. Hann hafi verið fenginn til  
frammistöðu, þegar Steinn afi Þórbergs kvæntist öðru sinni haustið 1867: „Hann safnaði saman borðbúnaði, sem þá var að komast í tízku. Hann bar fram tóma diska fyrir brúð­kaupsgesti og fyrst fyrir brúðhjónin. ,Þe-þetta vil ég ekki sjá,‘ sagði Steinn þegar hann sá tómu diskana. ,É-ég lagði nóg til veizlunnar. Þa-það þarf ekki að vera að koma með tóma diska hér. Far þú burt með þetta, karlinn!‘“ Sæbjörn reyndi árangurslaust að kenna Steini að borða rúsínugraut með skeið. Hann hefur talið sér málið skylt, því að hann var af Steins hálfu svaramaður við brúðkaupið.[2]


Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó. 
[2]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning. 
[3]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Borgarhöfn. Heimildarmaður: Skarphéðinn Gíslason á Vagnsstöðum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.  
[4]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is 
[5]Þjóðskjalasafn Íslans  Prestþjónustubók  >Einholtsprestakalls 1847-1881. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is

 

Scroll to Top