Ás í Austurlandi

Um Ás í Austurlandi

Landið austan Kolgrímu ofan þjóðvegar heitir Austurland. Það hefur lengst af verið nytjað af bændum á Skálafellsbæjum til beitar og þótti gott beitarland á þeim árum er útigangur búfénaðar var algengur. Þar er hellir mikill, Austurlandshellir með hleðslu framan við og var nýttur fyrir sauðfé áður fyrr. Einnig eru gamlar tóftir nær Kolgrímu, sauðahús undir svonefndum Stekkaklettum, sem voru í eign Skálafellsbæja.

Í Austurlandi var um tíma í byggð hjáleiga frá Skálafelli, en ekki er vitað með vissu hve lengi var búið þar. Sjást greinilegar bæjarrústir framan við þann stað er kallast Ásar. Í örnefnaskrá stendur að bærinn hafi verið nefndur Gamlibær og vitað er að þar var búið á árunum 1846 – 1860, jafnvel lengur.[1] Bæjartóftin í Austurlandinu er lágreist og vallargróin en engu að síður greinileg og með öðru byggingarlagi en virtist tíðkast hér um slóðir á þessum tíma. Í næstu torfu vestan við bæjarhúsin eru tóftir, sem virðast hafa verið útihús. Neðan við bæjarstæðið er Lambarétt, lítil klettaborg. Þar var ávallt fært frá, á meðan fráfærur voru tíðkaðar.[1] Þórbergur Þórðarson lýsir staðháttum í Austurlandi í bók sinni Í Suðursveit: „Fyrir austan Skálafell var langur og breiður hæðarás sem gekk í norðaustur með fram Heinabergsjökli. Hann hét Austurland. Þar þótti mér fallegt. Þar var mikið af lágum klettabeltum og þokkalegum valllendis­brekkum og eitthvað af mýrasundum, og norðan í ásnum vestan til var dálítið stöðuvatn, en með fram Austurlandi að sunnan voru aurar, sem hétu Heinabergssandur. Næstum austast í ásnum reis há klettanípa, sem var kölluð Háanípa. Þar voru mörkin milli Suðursveitar og Mýra. Þar var Suðursveit búin. Á valllendisflöt sunnan í ásnum hafði bœrinn Austurland staðið. Hann var víst fá ár í byggð. Þar sáust tættur.“[2]

Bjarni Eiríksson sem að líkindum byggði bæinn í Austurlandinu kom úr Vestur Skaftafellssýslu. Fyrsta árið var hann vinnumaður á Skálafelli og giftist hann dóttur bóndans þar, Guðrúnu Arngrímsdóttur. Byggðu þau bæinn árið 1846 og bjuggu þar til ársins 1852.[3] Þá fluttu þau að Hofskoti í Öræfum, en Sigríður Jónsdóttir færði sig frá Hofi í Austurlandið ásamt börnum sínum, Þorláki, Snjálaugu, Unu og Meyvant. Sigríður var gift Jóni Höskuldssyni Landeyingi f. 1790, en þau skildu. Hann fór austur á land að leita sér lækninga við kviðsliti og ílengdist þar. Búskapur Sigríðar í Austurlandinu varð þó endasleppur. Snjálaug giftist Guðmundi Jónssyni í Skálafellsseli 1853 og gerðist húsfreyja þar. Þorlákur, réð sig sem vinnumann í Árnanesi 1855 en Una dó snögglega 12. apríl 1856 hastarlegum dauðdaga.[3] Sigríður keypti sér próventu hjá Stefáni Eiríkssyni í Árnanesi í Nesjum og fluttist þangað ásamt Meyvant syni sínum.

Næstu árin á eftir eða til 1860 má sjá með vissu að búið var í Austurlandinu en fjölskyldurnar stoppuðu stutt við. Heinabergsvötnin voru á þessum tíma farin að flæmast um láglendið og búsetuskilyrði versnuðu til muna. Líklegt er að síðasti bóndinn í Austurlandinu á árunum 1864- 1867 hafi verið Magnús Guðmundsson og seinni kona hans Björg Þorláksdóttir. Þau komu frá Króki í Hellalandinu á 4. býli á Skálafelli og fluttu sig síðan að Króki í Borgarhöfn.[4] Heimildir geta ekki ábúðar í Austurlandi eftir að Magnús og Björg fóru þaðan og því líklegt að hjáleigan fari í eyði 1867.

Heimildir

[1]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Skálafell I-II. Heimildarmaður: Ragnar Sigfússon, f. 1917. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[2]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[3]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.).Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[4]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.).Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is

Scroll to Top