Eystri-Einbúi

Um Eystri-Einbúa

Býlið við Eystri – Einbúa var rétt vestan við Borgarhafnará ofan vegar. Heimildir eru fyrir búsetu þar  í tvö ár. Í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu segir að árið 1850 hafi Sigurður Ólafsson f. 1799 komið austan af landi og ætlað að bjarga sér af sjávarafla og einhverjum landnytjum.  Að sögn fór hann aftur austur á land eftir eins árs dvöl í Borgarhöfn.[1] 

Þetta stemmir þó ekki við sóknarmannatal Kálfafellsstaðar.  Þar er skráð að Sigurður Ólafsson búi á 12. býli í Borgarhöfn árin 1849 og 1850, ásamt konu sinni Vilborgu Guðmundsdóttur, f. 1803 d. 1858 og Guðmundi syni þeirra hjóna, sagður 11 ára 1850.[2] Þegar Sigurður kom í Suðursveit taldi hann fram til tíundar, 1 nautgrip, 4 ær, 4 veturgamlar kindur og 1 hest.[1]  Sigurður var fæddur á Bakka á Mýrum og var skráður þar með foreldrum sínum við manntal 1801, tveggja ára gamall.[3] Hann kom í Borgarhöfn frá Suðurhóli í Nesjum. Hann var síðan vinnumaður eða í húsmennsku með konu sinni á ýmsum stöðum í Lóni og Nesjum eftir  búsetu í Borgarhöfn.[4]  

Við Eystri- Einbúa sér vel til tófta, en engar öruggar heimildir eru fyrir búsetu þar eftir að Sigurður og Vilborg fóru. Þau eru ekki talin í sóknarmannatali árið 1851 og 12. býlið er ekki skráð meðal býla í Borgarhöfn það ár.[2] Einhverjar getgátur eru um að þar hafi verið búið lengur eða til ársins 1861.Samkvæmt sóknarmannatali er ekki hægt að fullyrða neitt um það þar sem býlum fækkar strax á árinu 1851 og staðsetning þeirra óþekkt. 

Einhverjar sögur  fóru af Sigurði þessum m.a. hjá Þórbergi Þórðarsyni þar sem hann segir frá að Sigurður hafi alltaf verið seinn í förum. Eiríkur Benediktsson í Hoffelli hafi ætlað að kenna honum lexíu í þeim efnum. Hann skildi Sigurð eftir eitt sinn er farið var í sjóróður því hann var ekki mættur í sandinn á réttum tíma.[5] Guðmundur J Hoffell lýsti Sigurði þannig að hann hafi verið „stór maður, sterkur og seinn í förum.“[6] Er það samhljóða lýsingu Þórbergs á Sigurði Ólafssyni í Eystri Einbúa. 

Vestri – Einbúi í Borgarhöfn er undir klettum vestar og framar en Eystri Einbúi, rétt ofan við gamla þjóðveginn. Sér þar til tófta, líklega útihúsa fyrir búfénað.  

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó. 
[2]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.).Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is 
[3]  Manntal á Íslandi árið 1801, ( 1978-1980)  Reykjavík Ættfræðifélagið gaf út með aðstoð Þjóðskjalasafns Íslands 
[4]  Bjarni Bjarnason, (1971). Byggðasaga Nesjahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: I. Bindi. Lón og Nes (bls. 111-282). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó. 
[5]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning. 
[6]  Guðmundur J Hoffells, (2009). Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir (2.útgáfa). Reykjavík: Skrudda ehf. 

Scroll to Top