Syðri-Flatey / Oddi

Fyrrum skiptist Flateyjarjörðin í Efri- og Syðri-Flatey, með landamerki milli jarðahlutanna. Þar var jafnan margbýlt, allt að 6 býli í einu. Elsta heimild um búsetu í Flatey er leigusamningur frá 1526 á milli Skálholtsbiskups og prófastsins á Berunesstað í Berufirði.[1] Land Flateyjarjarða er flatlent og hefur orðið fyrir miklum ágangi vatna, aðallega Heinabergsvatna. Framburðurinn skyldi eftir mikla aura og sanda en þegar vötnin tóku að renna í Kolgrímu hafa aurarnir gróið upp svo sýnist eitt óslitið graslendi.[3]

Í Jarðaskrá Ísleifs Einarssonar frá 1708-1709 segir um Flatey: „Flatey efri. Bónda eign. xvj hdr. Landsk. 1 hdr. xl áln., en að fornu 2 hdr. kúg. nú 3. Reka á jörðin fyrir sínu landi. Skógar ítak á jörðin á Heinabergsdal, þar sem heitir í Geitakinn og Flateyjarhvammi. Flatey syðri. Kóngs eign og bónda eign. xvj hdr. Landsk. 1 hdr. 40 áln. Konungseignin er 4 hdr. með 40 áln. landskuld, nefnilega ¼  partur úr jörðunni (Syðri-Flatey) og heyrir undir Heingigózið. Kúg. eingin. Reka á jörðin fyrir sínu landi. Skógar ítak til eldingar lítilfjörlegt á Heinabergsdal, sem heita á Bólstöðum í Geitakinn, og Skógartótt instu.“[2]

Bærinn í Syðri-Flatey stóð á hól út undir fjöru í suðvestur frá efri bænum. Í örnefnalýsingu segir: „Vestast á Flateyjarbökkum eru Borgir, beitarhús. Varnargarðar voru hlaðnir fyrir ágangi af Heinabergsvötnum frá Borgum suður í Syðri-Flatey.Bærinn í Syðri-Flatey brann, er bóndi var að spinna hrosshár, og vildi hann lúka við vindilinn, áður en hann færi að bjarga úr bænum, og bjargaði því engu. „Vindillinn skal ráða,“ er mælt, að karl hafi sagt.[5]

Í byrjun 19. aldar var tvíbýli í Syðri-Flatey. Um miðja öldina voru býlin flutt ofar í landið vegna vatnaágangs og sandfoks, annað að Efri-Flatey en hitt á lítið hólbarð nærri farvegi Heinabergsvatna vestan Flateyjarbakka og fékk nafnið Oddi. Bærinn stóð ekki langt frá landamerkjum milli sveitanna Mýra- og Suðursveitar“.[3]

Bæjarhúsin í Odda voru fimm og snéru mót suðri. Baðstofan var í miðið en næst austan við hana var fjósið, austast var eldhúsið.[4] Skemman stóð vestan við baðstofuna en vestast í húsaröðinni var smiðjan. Að húsabaki var heytóft og hlaða, austan þeirra var hrútakofinn. Líkt og á flestum bæjum var kálgarður fram af bæjarhlaðinu. Hesthúsið stóð utan heimtraðanna er lágu í suður frá bænum og austan þeirra var fjárhús og hlaða. Tún var lítið en engjalönd góð.[3]

Samkvæmt manntali frá 1840 voru fyrstu ábúendur í Odda þau Magnús Þorvarðsson bóndi og Valgerður Þorsteinsdóttir kona hans auk barna, samtals 9 manns skráð til heimilis.[6] Síðasti ábúandinn var Einar Þorvarðarson frá Bakka, hann kvæntist heimasætunni í Odda, Ingunni Jónsdóttur. Þau hófu búskap 1894 og bjuggu með foreldrum Ingunnar fyrstu tvö árin, er Jón Bjarnason hætti búskap.[3]

Bæjarhóllinn í Odda var lítið hærri en umhverfið og fór svo að Heinabergsvötnin runnu allt í kringum bæinn. Einar og Ingunn hættu búskap í Odda 1907 og býlið fór í eyði 1907 og lauk þar með nærri 100 ára búsetu í Odda.

Heimildir:

[1] Íslenskt fornbréfasafn. IX. bindi 1262-1536. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélagi, 1909-1913.

[2] Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið

[3] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ.

[4] Menningarmiðstöð Hornafjarðar (2004). Munnleg heimild: Einar Hálfdánarson.

[5] Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Flatey. Heimildarmenn: Guðjón Jónsson, f. 1912 og Bergur Þorleifsson. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

[6] Þjóðskjalasafn Íslands (2023). Manntal 1840. Sótt á https://manntal.is