Nípur

Um Nípur

Nípur var hjáleiga frá Smyrlabjörgum. Bærinn stóð undir samnefndum klettaborgum í suðaustur frá Smyrlabjörgum, austur undir Kolgrímu. Nípur var í byggð við manntal 1703 og talið með bújörðum í jarðatali Jóns Ísleifssonar 1721.[1] Jörðin var farin í eyði 1753 að því er virðist því engar heimildir finnast um búsetu þar síðar.[2] Góðar engjar hafa verið umhverfis Nípur, þar á meðal í Grind, landsvæði suður af Nípum sem var í raun eyja á milli ála í Kolgrímu. Á Húshól í Grind voru fjárhús.[3] Engjalöndin hafa orðið að þola ágang af Kolgrímu sem um tíma rann til vesturs fyrir norðan Nípur. Það hefur ef til vill átt sinn þátt í að byggð lagðist af. Einnig braut lónið af suðurbökkum landsins og olli skaða á engjalöndum fyrir utan Nípur.[4] Sunnan undir kletti, sem ber heitið Bæjarnípa samkvæmt örnefnaskrá, sjást enn greinilegar bæjarrústir, eru þær mikið grónar.

Við manntal 1703 er skráð að ábúendur í Nípum hafi lítinn bústofn og að fjölskyldunni leggist tillag af sveitinni.[1] Ekki er vitað hverjir eru ábúendur þar 1721, þegar jarðatal Jóns Ísleifssonar er skráð.

Árið 1735 var skráður bóndi í Nípum, Gunnsteinn Gíslason f. 1683. Um hann er lítið vitað og ekki hver kona hans var. Í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu segir: „Getið er tveggja bræðra, Gunnsteins og Ara, sem áttu að hafa búið þar síðast og er í frásögur fært að þeir hafi verið fjárríkir.“[4] Gunnsteinn Gíslason var einn skráður bóndi á Nípum 1735 en Ari bróðir hans var þá í Hestgerði og bjó þar til æviloka.[2] Gunnsteinn var síðasti skráði bóndinn að Nípum.

Heimildir

[1]  Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
[2]  Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[3]  Stefán Einarsson (1961). Örnefnaskrá fyrir Smyrlabjörg. Heimildarmenn: Jón Jónsson f. 1884 og Snorri Jónsson f. 1930. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[4]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.

Scroll to Top