Hvammur

Um Hvamm

Ef gengið er inn með Borgarhafnarfelli í vesturátt, fram hjá Ekru, Girðingu og Fornustekkum í svokallaðan Hvamm, er komið að húsatóftum sem var eitt af mörgum býlum í Borgarhöfn á 19. öld. Hér leyfum við okkur að kalla þetta býli Hvamm, eftir Jóhönnu Stefánsdóttur á Neðribæ í Borgarhöfn. Þann 30. apríl 2003 gaf Jóhanna eftirfarandi upplýsingar um rústirnar í Hvamminum: 

Neðan við stein sem heitir Helgusteinn er lind og sögur herma að Guðmundur góði hafi vígt hana, í henni er mjög gott vatn. Þegar farið var inn með hlíðinni var stundum sagt að fara inn í Öxl. Í Hvamminum bjó Jón Björnsson (f. 1828) bróðir Bjargar Björnsdóttur. Hann var formaður á Svani. Var alltaf fínn í tauinu og vel til fara, var alltaf rólegur og svaf gjarnan til hádegis ef ekki var sjóveður. Hann var giftur en átti enga afkomendur í Suðursveit. Í Hvamminum var haldin þjóðhátíð 1874 mig minnir 1. ágúst. Þann dag fæddist Sigurbjörn Björnsson meðhjálpari og forsöngvari, Björg Björnsdóttir var ljósmóðir og fór með barnið nýfætt á þjóðhátíðina.[1] 

Tóftirnar í Hvamminum eru vallargrónar en þó greinilegar og húsaskipan sést, því ekki hefur verið byggt ofan í þær. Sennilega hefur þó verið tekið úr þeim grjót í hleðslur annars staðar, sem skýrir hversu grónar þær eru. Þarna hefur verið fallegt bæjarstæði og mikið útsýni til vesturs. 

Frásögn Jóhönnu eru einu heimildir sem við höfum um ábúendur í Hvamminum. Þær verða að teljast nokkuð áreiðanlegar þar sem Jóhanna bjó á Neðribæ alla sína ævi og var margfróð um ættir og umhverfi. Í Sóknarmannatali Kálfafellsstaðarsóknar eru ábúendur í Borgarhöfn ekki kenndir við ákveðna bæi en býlin númeruð, alls 12 býli þegar þau eru flest. Samkvæmt Sóknarmannatalinu bjó Jón Björnsson og kona hans Sigríður Guðmundsdóttir frá Setbergi fyrst hjá foreldrum Jóns í Borgarhöfn, Birni Jónssyni f. 1805 og Sigríði Þorsteinsdóttur f.1796, eða frá árinu 1840.[2] Svo virðist sem Jón reisi býlið í Hvamminum 1853 því honum er bætt við í Sóknarmannatalið á eftir föður sínum, en þá er bætt við einu býli í Borgarhöfn.[2] 
Vistin í Hvamminum hefur verið þeim hjónum Jóni og Sigríði hörð og átakanleg. Þar eignuðust þau 8 börn sem öll dóu á barnsaldri utan Guðbjörg, sem ein komst til fullorðinsára. Ólst hún upp á Smyrlabjörgum eftir að móðir hennar dó, fór austur á land sem vinnukona og varð síðar húsfreyja í Vopnafirði.[1] 

Ekkert er vitað hvenær byggð í Hvamminum lagðist niður. Engar heimildir eru fyrir búsetu þar eftir að þau hjón hættu búskap árið 1869. 

Heimildir

[1]  Jóhanna Stefánsdóttir frá Neðribæ í Borgarhöfn. Viðtal við Þorbjörgu Arnórsdóttur 30. apríl 2003. 
[2]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is