Græntangi

Græntangi var býli í Borgarhöfn, spölkorn austan við Staðará í norðvestur frá Fífutjörn.[1] 

Svartiklettur heitir við og austan Staðarár norðan þjóðvegar og veit kletturinn að ánni. Þar fyrir norðaustan heitir Græntangi; þar var búið í allmörg ár. Bæjarstæðið var undir lágum kletti sem veitti allgott skjól fyrir háskalegum norðanveðrum er komu stundum á vetrin.[2] Græntangabakki heitir vestan við bæjarstæðið.

Þórbergur Þórðarson lýsir því svo: „Fyrir vestan eða suðvestan Fellið, vestur undir Staðará, upp undir tuttugu mínútna gang fyrir vestan Suðurhús, stóð bær sem hét Græntangi, þegar ég mundi fyrst eftir. Hann var fallin í eyði þegar ég fór úr Suðursveit.“[3]

Í Græntanga sér til heillegra bæjartófta undir klettaholtinu. Greinilega mótar fyrir garði fyrir framan tóftirnar, þar sem sennilega hafa verið ræktaðar kartöflur og matjurtir. Gatan upp á klettinn sést ofan við bæjartóftirnar og greina má götuna út að brunninum sem er í suðaustur frá bænum. Bæinn í Græntanga byggðu Þorsteinn Sigurðsson skipasmiður og kona hans Guðný Einarsdóttir, systir séra Þorsteins Einarssonar á Kálfafellsstað. Fékk hann þau hjón til að flytja í Suðursveit til að endurnýja skipaflota Suðursveitunga.[1] Þorsteinn Guðmundsson lýsir nafna sínum Þorsteini skipasmið þannig: „Þorsteinn var afburðaformaður og skipasmiður og smíðaði öll skip hér um sína daga.“[1] Í Græntanga bjuggu í 11 ár Jóhann Magnússon og Björg Björnsdóttir til ársins 1877, en þá komu þangað Sigurður Arason frá Reynivöllum og Sesselja Brynjólfsdóttir og bjuggu þar til ársins 1891, er þau flytja í Borgarhöfn.  Sesselja lá lengi rúmföst eða frá árinu 1877 til 1924 og lýsir Þórbergur Þórðarson heimsókn til þeirra hjóna eftirminnilega í bók sinni Í Suðursveit.[3]

Vitað er að Græntangi var í byggð á árunum 1853 – 1891. Niður á sléttlendinu í suðvestur frá bænum eru marghólfa tóftir sem erfitt er að greina, en gætu hafa verið eldri bæjarhús. Í þeim eru ekki grjóthleðslur og virðast þær eldri en bæjarhúsin og líklega búið að taka grjótið úr þeim. Í Svartakletti við Staðará er tóft sem ekkert er vitað um. Eftirtektarvert er að séra Þorsteinn Einarsson telur Græntanga ekki til nýbýla í Sókarlýsingum sínum frá árinu 1855.[4]

Þórbergur Þórðarson segir svo frá: „Sigurður bjó í Borgarhöfn, alltaf við mikla fátækt, en var þó glaður í lund. Kona hans hét Sesselja. Það var greindarkona en fékk þá hugmynd snemma í hjónabandi þeirra, að hún gæti ekki verið á fótum, og upp frá því reis hún aldrei úr rekkju og náði þó háum aldri. Sigurður var laglegur og mun hafa verið greindur. Hann var einkennilegur í máli og gaman að heyra hann tala. Hann var mjög barngóður og sagði oft „blessaður hnoðrinn.“ Af því var hann stundum kallaður Hnoðrinn. Hann braut heilann um ýmislegt og hafði skemmtun af að athuga hitt og þetta í náttúrunnar ríki til dæmis skít á túnum og lífeðlisfræðileg viðbrögð hundsins síns, þegar hann var að „biskupa“ kríuungana á Steinasandi. Sigurður var formaður á Borgarhafnarskipi.“[3]

Heimildir

[1]  Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2]  Stefán Einarsson, (1961). Örnefnaskrá fyrir Borgarhöfn. Heimildarmaður: Skarphéðinn Gíslason á Vagnstöðum. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
[3]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[4]  Þorsteinn Einarsson, (1997). Kálfafellsstaðarsókn ár 1855. Í Jón Aðalsteinn Jónsson og Svavar Sigmundsson (sáu um útgáfuna),Skaftafellssýsla, sýslu- og sóknarlýsingar hins íslenska bókmenntafélags 1839-1873 (bls. 125-143). Reykjavík: Sögufélag.