Skinney / Eskey

Upp af strönd við Skinneyjarhöfða eru tveir aflangir, sendnir hólar sem nefnast Ytri- og Efri-Skinney. Bærinn Skinney er talinn hafa staðið á efri hólnum, tæplega kílómetra frá sjó. Frá Skinney er mjög stutt að útræðishöfn Mýramanna við Skinneyjarhöfða, en þaðan réru bændur til fiskjar á árabátum frá ómunatíð.[3] Það voru ekki eingöngu Mýramenn sem réru frá víkinni austan við Skinneyjarhöfðann, austustu bæir í Suðursveit og þó nokkrir Nesjabændur sóttu einnig sjóinn þaðan. Það þótti betra að róa úr víkinni en frá öðrum stöðum við ströndina og fara fáar sögur af hrakningum manna við höfnina.[3]

Upphaf búsetu í Skinney er ekki kunn en heimildir um eignarhald og ábúð ná aftur til fyrri hluta 17. aldar.[2] Líklegt er talið að jörðin hafi byggst mun fyrr, jafnvel strax á landnámstíma, líkt og Viðborð og Heinaberg. Í Jarðaskrá Ísleifs Einarssonar 1708-1709 segir um jörðina: „Skinney. Bónda eign. xx hdr. Landsk. hefur að fornu verið 1 hdr. lxxx áln. Sú jörð er nú í eyði. Eskey. Hjáleiga, bygð úr heimalandi Skinneyjar. Landsk. Var að fornu lx áln., en nú 30 áln. Kúg. Ekkert. – Skinney með hjáleigunni á fjöru og reka fyrir sínu landi. Útræði á Skinney og fyrir sínu landi, þar sem heitir Skinneyjarhöfði. Skógarítak lítilfjörlegt til eldingar á jörðin á Heinabergsdal.“[2]

Munnmæli herma um góðan húsakost í Skinney því átján hurðir voru sagðar á járnum. Fátt var það sem húsfreyjuna vanhagaði um, því lítið var af varningi í kaupstað sem ekki var til í búri hennar.[3] Þar fannst steinausa á átjándu öld og lengi sást móta fyrir grjóthleðslu á bæjarhólnum. Í lok 17. aldar hafði vatnaágangur og sandfok gengið svo nærri bæjarstæðinu að flytja þurfti bæinn norðar í Skinneyjarland, upp á klapparholtið Eskey.

Í Eskey var upphaflega hjáleiga frá Skinney og hefur e.t.v. verið tvíbýlt þar um tíma, fyrst eftir að Skinneyjarbærinn var færður þangað í byrjun 18. aldar. Í manntali 1703 er ekki getið búsetu í Skinney en einn ábúandi skráður í Eskey.[4]

Skinney, síðar Eskey, átti fjöru og fjörureka fyrir sínu landi og hálfan Heinabergsdal til hagagöngu. Þar á móti átti Heinaberg hálfan reka af Skinneyjarfjöru. Túnið var lítið á Eskey, en aftur á móti engjalönd nokkuð víðáttumikil og stundum góð. Vatnsból var í brunni uppi á eynni. Torfrista var þar engin, en kartöfluland gott“.[3]

Bærinn stóð undir lágum hól uppi á eynni en búið er að slétta yfir bæjarrústirnar og lítil ummerki eru sjáanleg á bæjarhlaðinu.[5] Alfaraleiðin yfir Mýrar lá sunnan Eskeyjar og lágu götuslóðar upp á eyna að framan, austan og norðan. Að vestan gengur bratt skarð milli kletta inn í eyna, svonefnt Réttarskarð, þar var fjárrétt „eyjarskeggja“. Frá réttinni vestur að Selbakkahorni heitir Ferðamannabakki, þar voru hlaðnar torfvörður og þaðan vestur um í Flateyjaland. Þær leiðbeindu ferðamönnum í dimmviðrum.[5] Uppi á Eskey voru blettir sem ekki mátti slá, þeir hétu Nónhóll og Réttarbrekka.[6]

Eins og fyrr segir voru engjalönd Eskeyjar vestan við bæinn og þar stóðu beitarhúsin, á sléttum bakka er Selbakki heitir. Frostaveturinn 1881 sást til bjarndýra í Austur-Skaftafellssýslu. Tvær unglingsstúlkur voru á leið til beitarhúsanna á Selbakka þegar þær urðu varar við bjarndýr.[1] Jón Þorsteinsson bóndi var fjarri bæ að sækja hey. Sigríður Þorsteinsdóttir frá Hoffelli, önnur stúlknanna segir svo frá:

„Þegar við vorum komnar nokkuð áleiðis, sáum við einhverja skepnu koma utan ísana í stefnu frá sjónum, og virtist okkur hún stefna beint til okkar. Höfðum við heyrt, að bjarndýr hefðu sést ganga á land, síðan hafísinn varð landfastur og þóttumst vita, að þetta væri bjarndýr.

… Urðum við nú ákaflega hræddar og hlupum eins hart og við gátum til fjárhúsanna. Þegar þangað kom, fórum við að gæta að dýrinu og sáum við þá, að það stefndi að bænum, en ekki til okkar. Urðum við nú dauðhræddar um þá, sem heima voru, en það voru móðir mín, bróðir minn 6 ára og húsfreyjan, kona Jóns.

Dýrið hélt áfram upp einstigið og hvarf okkur heima við bæinn. Við flýttum okkur að ljúka því, sem við áttum að gera og héldum svo heim. En er við áttum skammt eftir ófarið, sáum við kvenmann koma fram á klettinn, og sá ég fljótt, að það var mamma mín að gæta að okkur. Glaðnaði nú heldur yfir okkur að sjá hana þarna og töldum sjálfsagt, að dýrið hefði farið fram hjá bænum. Þegar heim kom, fréttum við, að það hefði komið á hlaðið, staðið þar litla stund og farið svo. Kind var nýlega dauð, og var húsfreyjan tilbúin að fleygja skrokknum fyrir dýrið, ef það sýndi sig líklegt að ganga í bæinn. En það labbaði rólega austur af túninu og lagðist þar. Hundarnir tóku til að gelta að því, þegar það var á leiðinni að bænum, og leit það því til þeirra. Urðu þeir þá svo hræddir, að þeir stukku skrækjandi inn í bæ. Eftir litla stund stóð dýrið upp og hélt áfram austur sveitina.[1]

Heimildir:

[1] Guðmundur Jónsson Hoffell (1946). Skaftfellskar þjóðsögur og sagnir. Akureyri: Marteinn Skaftfells.

[2] Jón Þorkelsson (1918-20). Jarðabók Ísleifs sýslumanns Einarssonar um Austur- Skaptafellsþing, er hann gerði 1708 og 1709 í umboði Árna Magnússonar. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I. Bindi (bls. 1-38). Reykjavík: Sögufélagið.

[3] Kristján Benediktsson (1972). Byggðasaga Mýrahrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit, (bls. 11-127). Reykjavík: Bókaútgáfa GuðjónsÓ.

[4] Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.

[5] Stefán Einarsson (1971). Örnefnaskrá fyrir Eskey. Skrásetjari: Vilhjálmur Guðmundsson, f. 1900. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

[6] Þórður Tómasson (1988). Þjóðhættir og þjóðtrú, skráð eftir Sigurði Þórðarsyni frá Brunnhól. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf