Ítarefni

Þrír feðgar

Benedikt Erlendsson, Pálmi sonur hans og Kristinn sonarsonur

Það bar til á austustu bæjunum í Suðursveit haustið 1843 að tveir menn sáust koma austan Kolgrímuaura með fjárhóp á undan sér. „Hverjir gátu þetta verið“, sagði fólkið á bæjunum. Allar réttir voru afstaðnar og ekki von á neinum rekstrum. Menn voru þetta samt og kindahóp ráku þeir á undan sér.

Þegar hópurinn nálgaðist byggðina kom fólkið á bæjunum sér fyrir á þeim stöðum sem best sást til mannaferða. Það hljóp fram á hlaðvarpann, upp á bæjarveggina, jafnvel upp á húsþökin en allt kom fyrir eitt, enginn var nær um þessa dularfullu menn.

Vestur Suðursveit mjakaðist hópurinn, bær tók við af bæ að horfa til þeirra en enginn komst að neinni niðurstöðu um hvaða menn þetta gætu verið. Þeir sem best þóttust sjá töldu að annar maðurinn væri kona en aðrir báru það til baka. Upp úr sólarlagi sást hópurinn hverfa heim að Kálfafellsstað. Mikil forvitni lék fólki á að vita hvaða menn þetta hefðu verið, sumir gerðu sér erindi heim á staðinn til að vita hið sanna en aðrir biðu fullir eftirvæntingar.

Ekki leið á löngu að fréttin barst. Þetta var kærustupar austan úr Breiðdal væru komin að Kálfafellsstað, hálfgert strokufólk og prestur mundi ætla að setja þau niður inn á Brunnadal, Benedikt Erlendsson og Kristín Pálsdóttir. Síðar gengu munnmæli í Suðursveit um að Kristín hefði verið öðrum manni heitin en Benedikt komist þar á milli. Hefði það orðið að ráði með þeim að fjarlægjast heimabyggð Kristínar, þó undir vetur væri, með kindurnar sínar. Að líkindum hafa þau haft fréttir af hinum mikla athafnapresti Þorsteini Einarssyni á Kálfafelsstað og því leitað á hans náðir.

Sagt var í Suðursveit að séra Þorsteinn hafi leyft Benedikt og Kristínu að byggja sér kofa á svokölluðum Brunnadal sem er í landareign Kálfafellsstaðar, þar áttu þau að hafa hafst við um veturinn. Vel má vera að hér sé um missögn að ræða, að það hafi aðeins verið kindurnar þeirra sem hafi verið hafðar við þennan kofa en þau verið á Kálfafellsstað því um vorið  fara þau vinnuhjú þangað eins og síðar mun að vikið.

Skal nú í stuttu máli vikið að ætt Benedikts og uppruna, einnig Kristínar og búskaparferli þeirra.

Benedikt Erlendsson var fæddur í Einholtssókn á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslum 1819. Prestur þar var þá séra Jón Einarsson, orðlagður óreglumaður með sín embættisverk. Kirkjubækur færði hann ekki eins og honum bar skylda til, því er þar engar upplýsingar að fá þau 14 ár sem hann var þar prestur. Sama er að segja um kirkjubækur á Stafafelli þau 6 ár sem hann þjónaði þar en þangað flutti hann frá Einholti vorið 1827. Að framansögðu er fæðingarstaður Benedikts og ár öllum hulinn. Hann var getinn í lausaleik og virðist ekki hafa verið velkominn í þennan heim því stuttu eftir fæðingu fannst barnið í poka að hurðarbaki í bæjardyrum af aðkomumanni er þar var staddur sem gestur. Var fullyrt að móðir þess hafi ætlað að bera það út en ekki fengið svigrúm til þess, því lagt pokann með barninu að hurðarbaki í bili þar til ráðrúm fengist til að ganga frá því. Móðir þess var Þorbjörg Kristjánsdóttir, talin laus á kostum og ekki við eina fjölina felld í þeim efnum. Faðir hennar var Kristján Vigfússon settur sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu frá 1798-1804 að embættið var tekið af honum. Hann fékk það orð á sig að vera heldur lítill mannkostamaður en ekki flón en fékk það viðurnefni að vera kallaður „hinn illi“. Bentu sagnir til þess að ástæður hefðu verið fyrir þeirri nafngift. Faðir hans, séra Vigfús Benediktsson prestur á Kálfafellsstað, setti þennan son sinn ungan í skóla, skyldi hann læra til prests. Námið fór út um þúfur því Kristján lenti í félagsskap pilta sem gerðu tilraun til að vekja upp draug í kirkjugarði. Er það vitnaðist var hann ásamt félögum sínum rekinn frá námi, þar með var skólagöngunni lokið. Þegar Kristján hóf þennan menntaferil varð til þessi vísa:

Kristján stafar kverin flest
Kristján fræðin lærði fyrst
Kristjáni yrði komið til prests
Kristján þar til menntaðist

Kristján er fæddur á Stað í Aðalvík, kom ungur í Skaftafellssýslu með foreldrum sínum og dvaldi mestan hluta ævi sinnar í Suðursveit. Sýslumannsembættið fékk hann eftir ábendingu séra Magnúsar Ólafssonar í Bjarnanesi, er því lauk var hann um tíma hreppstjóri Suðursveitunga. Kona hans var Katrín Björnsdóttir frá Reynivöllum. Börn þeirra voru talin tvær dætur og einn sonur, Sæmundur að nafni, sem um tíu ára aldur fannst holstunginn skammt frá bænum Kálfafelli þar sem Kristján bjó. Aldrei mun það hafa upplýst hvernig þetta skeði. Er faðir hans fann hann þann veg leikinn er sagt að honum hafi mest brugðið um ævina. Munnmæli hér segja að Kristján hafi komið hlaupandi inn í bæ og kallað til konu sinnar: „Katrín, Katrín, Sæmundur er dauður, liggur holstunginn upp á túni.“ Kristján þótti áleitinn til kvenna, meira en góðu hófi gegndi, fóru af því ýmsar sagnir sem ekki verða sagðar hér. Þorbjörgu dóttur hans, sem að framan er getið um, átti hann í lausaleik skömmu fyrir giftingu. Er hann frétti tiltæki hennar með barn sitt á hann að hafa sagt: „Ekki er von á Tobbu minni góðri. Móðir hennar var mesta riðla og allir vita hvernig ég var.“ Kristján andaðist í Borgarhöfn 1842 nær áttræður, einmana í kofa þar, þá talinn niðursetningur.

Pokabarninu sem bjargað var frá tortímingu á þennan einstæða hátt sem að framan getur virðist ekki hafa verið fisjað saman, það átti langan feril fyrir höndum. Kemur það síðar fram í þessari frásögn.  Drengurinn hlaut nafnið Benedikt, en vafi þótti leika á um faðernið. Var ekki ótítt um þær mundir að bendla sóknarpresta þar við, því var séra Jón Einarsson hafður þar á orði en er til alvörunnar kom var hann skráður Erlendsson Einarssonar sem verið hafði vinnumaður á Lambleiksstöðum.

Nú vildi svo ólánlega til að um þær mundir er Benedikt fæddist var Erlendur nýkvæntur Bergljótu Kristjánsdóttur, hálfsystur Þorbjargar. Sú systravilla gat orðið nægileg ástæða til þess að Benedikt væri óvelkominn í heiminn. Þorbjörg átti síðar frænda Erlends, Halldór Sigurðsson Ólafssonar í Viðborðsseli 1816, er Halldór meðal 13 barna Sigurðar bónda þar þá. Þau Þorbjörg og Halldór búa á Brunnhól 1829 og þar er Benedikt með móður sinni talinn 9 ára. Erlendur var sonur Einars Erlendssonar bónda á Hnappavöllum 1802. Kona hans Þorgerður Sigurðardóttir landsskrifara. Dóttir þeirra Guðný er ekkja á Hnappavöllum 1816, þá 27 ára með tvö börn sín 4 og 5 ára. Þá byrja tveir bændur í Öræfum að taka framhjá konum sínum og eiga með henni sitt barnið hvor. Eftir það giftist hún Sigurði Eiríkssyni, bjuggu í Flatey.

Áður en Erlendur kvæntist 22. nóvember 1819 átti hann son sem með honum er  1816 þá þriggja ára. Um móður hans er ekki kunnugt. Með konu sinni átti hann eina dóttur, Katrínu. Um 1824 átti  Erlendur barn framhjá konu sinni, var það dóttir Marín að nafni fremur vangefin. Með henni átti bóndi í Suðursveit barn framhjá konu sinni segja sumir en aðrir telja að hún hafi verið dáin. Sagt var að bóndi þessi hafi gefið stúlkunni hangikjötssteilur í hvílutoll sem hann var þó síðar tregur til að greiða en fyrir skörungsskap Oddnýjar á Gerði varð hann að verða úti með steilurnar. Bóndinn var Steingrímur Jónsson á Gerði tengdafaðir Oddnýjar. Var hún ljósa að barningu sem fæddist andvana. Þegar Marín sá að barnið var með engu eða litlu lífi þegar það fæddist átti hún að hafa sagt við ljósuna: „Blessuð vertu ekki að reyna að bjarga lífinu í þessu.“

Steinþór á Hala segist muna eftir Marínu sem niðursetningi á Hala hjá foreldrum sínum. Þar var hún ung hjá afa hans og ömmu sem matvinnungur og þar var hún þegar barnið fæddist.

Erlendur var talinn mikill á förum „borubrattur“ sem kallað var og því ekki vel þokkaður. Erlendur bjó á Reynivöllum þar missti hann Bergljótu konu sína úr landfarsótt 1839. Sama ár kvæntist hann Sæbjörgu Jónsdóttur frá Felli, hann talinn þá 48 ára en hún 39 ára. Þau eignuðust tvö börn, Sigurð og Vilborgu.

Benedikts Erlendssonar er getið í Stöðvarfirði 1833, virðist hafa flutt þangað með séra Jóni er hann fór frá Stafafelli, er þá Benedikt sagður 14 ára, er þar fermdur 1834 og fær þann vitnisburð að vera „skilningsgóður, kann sæmilega og les.“

Á næsta ári skilja þau samvistir séra Jón og kona hans. Hann fer í Sauðanes en hún í Berufjörð en Benedikt lendir með lagðinn í Breiðdal til hjóna þar, er hjá þeim í tvö ár til 1838 en næstu ár er hann á ýmsum stöðum en venjulega aðeins eitt ár á sama stað. Árið 1844 er hann kominn að Gilsá til Jóns Einarssonar. Þar býr líka Jón Austmann kvæntur Málmfríði Guttormsdóttur prests í Vallanesi 1841 og byrjar að búa á Gilsá. Til þeirra kemur sem vinnukona vorið 1844 Kristín Pálsdóttir og þar hefjast kynni þeirra Benedikts svo að alvöru verður.

Kristín var fædd á Vöðlum í Reyðarfirði 1823. Foreldrar hennar voru Páll Jónsson og kona hans Oddný Andrésdóttir. Faðir hennar býr á Vöðlum 1816. Tveimur mánuðum eftir fæðingu Kristínar beið faðir hennar bana í snjóflóði. Móðir hennar giftist aftur Jóni Þorleifssyni og ólst Kristín upp hjá þeim. Þegar hún fermdist í Hólmakirkju 1837 er vitnisburður hennar þessi „Sæmilega að sér, vel siðuð.“

Þau hjónaleysin Benedikt og Kristín ráðast vinnuhjú vorið 1845 til séra Þorsteins Einarssonar á Kálfafellsstað. Um haustið 8. nóvember eru þau gefin saman í Kálfafellsstaðarkirkju. Það er í frásögur fært að átta hjónaefni hafi verið gefin saman í sókninni á því herrans ári 1845.

Benedikt og Kristín eru komin að Borgarhöfn 1846, þar fæðist Þorbjörg 21. júlí. Þaðan eru þau flutt að Flatey 1856, þar fæðist Daníel. Að Skálafelli eru þau komin 1858, þar fæðist Pálmi. 1861 eru þau aftur komin í Borgarhöfn, þar fæðist Pálína, lifði stutt.

Þorbjörg dóttir þeirra giftist 1874, 18 ára, Erlendi Ólafssyni 33 ára. Daníel fór vinnumaður til Skarphéðins Pálssonar í Borgarhöfn og kvæntist 1879 Sigríði dóttur hans sem þá var 21 árs en hann 23 ára, þau bjuggu síðar í Stóra-Bóli. 1877 fer Benedikt próventumaður til til séra Björns Stefánssonar í Sandfelli og með honum Kristín kona hans og Pálmi, en séra Björn andaðist það haust. Árið 1878 fóru þau öll að Svínafelli í Öræfum til Sigurðar Jónssonar bónda þar. 1880 eru þau á Rauðabergi á Mýrum, virðist Benedikt vera þriðji ábúandinn þar samanber bæjarbrag séra Jóns, þar segir meðal annars:

Líka býr þar brosleitur
Benedikt hinn gamli
Bæði hýr og heiftugur
Haldinn skýr og slóttugur.

Árið áður höfðu þau verið í húsmennsku á Viðborði hjá Daníel. Ekki er vera þeirra löng á Rauðabergi því á næsta ári fer Pálmi vinnumaður austur að Þingmúla. Kristín fer þá til Daníels á Viðborði en Benedikt tökukarl til séra Sveins í Sandfelli en vorið 1883 tökukarl að Viðborði. Vorið 1885 er Pálmi orðinn fyrirvinna hjá ekkjunni Önnu Jónsdóttur á Eiríksstöðum á Fossárdal, hún hafði misst mann sinn í mars það ár. Þangað fara þá um vorið foreldrar hans Benedikt og Kristín. Vorið 1886 hættir ekkjan á Eiríksstöðum búskap, þá fer Pálmi með foreldra sína í Karlsstaðarhjáleigu á Berufjarðarströnd en er þar aðeins eitt ár.

Árið 1887 slíta þau Benedikt og Kristín samvistir. Benedikt fer tökukarl að Hofi í Öræfum til Erlendar tengdasonar síns sem þar bjó en hann hafði búið á Hofi síðan 1878, en Kristín fer að Stóra-Bóli til Daníels. Vorið 1890 flytur Erlendur með Þorbjörgu konu sína, þrjár dætur og  tengdaföður sinn að Rauðabergi á Mýrum. Í desember 1890 andaðist Daníel í Stóra-Bóli. Vorið 1891 fór Kristín að Rauðabergi til dóttur sinnar og dó þar 10 árum síðar, 21. maí 1901, sögð 80 ára að aldri.

Sama vorið sem Kristín flytur að Rauðabergi var Benedikt fluttur til sveitar sinnar í Borgarhafnarhreppi og þar var hann niðursetningur á ýmsum bæjum í háfan annan áratug. Verustaðir hans voru taldir þessir: Hjá séra Sveini Eiríkssyni Kálfafellsstað 1891, hjá Þórði Arasyni Sléttaleiti 1892-1893, hjá séra Pétri Jónssyni Kálfafellsstað 1895, hjá Sigurði Sigurðssyni Kálfafelli 1897-1899, hjá Þórarni Steinssyni Gerði 1900-1903 og hjá Birni Steinssyni Breiðabólsstað 1904-1905. Þar andaðist hann 30. desember 1905, blindur þá í mörg ár og lengi ekkjumaður.

Þar með lauk þeirri sögulegu og reikulu ævi frá pokanum til grafarinnar sem varð 87 ár. Óneitanlega er þessi lífsferill sögulegur. Frá 13 ára aldri eyðir hann ævinni þannig: Er á 7 stöðum í Breiðdal, 3 í Öræfum, 2 austur við Berufjörð, 4 á Mýrum og 12 í Suðursveit eða á 28 stöðum alls sem skiptist þannig: Við búskap í 5 stöðum en á flækingi, ef svo mætti að orði kveða, á 23 stöðum. Á 74 árum hefur hann þá verið 2½ ár eða þar um bil að meðaltali á hverjum stað.

Munnmæli eru um það að Kristín hafi orðið þunguð af völdum séra Jóns Austmanns og hann hafi af þeim sökum neytt hana til að ganga Benedikt á hönd. Þau orð átti Kristín að hafa haft við  vinkonu sína að sig hefði dreymt að prestur væri að þröngva húfu á höfuð sér sem sér hefði verið ómögulegt að bera. Er hú sagði þetta var henni ljóst hvernig ástand sitt var. Barnið kom aldrei í ljós. Var talið að það hafi horfið á leið þeirra suður 1845. Hafði hún á efri árum látið í það skína að komið hefði fyrir á þeirri ferð atvik sem hefði verið sér átakanlegt. Kristín átti að hafa sagt: „Djöfulinn hræðist ég ekki en vonda menn hræðist ég.“ Sú var þá hennar lífsreynsla.

Benedikt bjó fremur góðu búi meðan hann bjó í Borgarhöfn. Á þeim árum var Borgarhöfn fullsetin, jarðarpartarnir voru litlir að stærð og hundraðatölu og afrakstur þeirra rýr. Þegar Benedikt bjó í Borgarhöfn bjuggu þar líka, ásamt mörgum öðrum, Pétur Pétursson og kona hans Úlfheiður Magnúsdóttir. Hún var alin upp í Eydölum og kunni því vel fyrir sér, talið var að hún hefði verið prúð og stillt og kunnað vel mannasiði. Benedikt gat orðið afar skapbráður og kunni þá ekki alltaf að stilla orðum sínum í hóf. Eitthvert sinn hafði hann reiðst Úlfheiði, æddi hann þá inn til hennar fokvondur. Hittist þá svo á að hún er að skaka strokkinn. Lét hann þar dæluna ganga yfir henni en hún hélt sínu verki fram og lét sem hún sæi hann ekki né heyrði. Reiddist hann því meir þegar hún sýndi honum þá lítilsvirðingu að virða hann ekki svars. Þreif hann þá af henni strokkinn og hellti öllu úr honum á gólfið. Þá varð henni að orði sem lengi var minst: „Nú held ég að þér séuð að gera að gamni yðar“. Rauk þá Benedikt út og sagði síðar að svar hennar hefði verið sér verra en kjaftshögg. Slík hógværð sem hún sýndi var honum ofraun.

Benedikt hafði þann sið þegar hann bjó í Borgarhöfn að reka hagalambsgeldinga sína eftir að hann heimti hagalömbin af fjalli í Borgarhafnarhálsa. Þeir eru fram við sjóinn austarlega á Borgarhafnarfjöru. Þetta eru klettar sem sjór gengur upp að, allháir að framan, en allstór torfa norðan á þeim sem kölluð er Hálsatorfa. Á þessari torfu mótar fyrir garðhleðslu vallgróinni. Munnmæli segja að garður þessi sé frá þeirri tíð er Norðlendingar höfðu verstöð í Suðursveit og útræði í námunda við Hálsa. Nútímamenn geta ekki fundið aðra líklegri skýringu á því hvernig þessi garður er til orðinn. Hefur hann þá verið þurrkreitur Norðlendinga til að þurrka á fiskinn.

Nú er það eitt haust, þá komið fram á vetur, að Benedikt fer að sækja geldinga sína í Hálsa og fær ungan mann úr Borgarhöfn með sér. Veður var kalt, áttin  norðlæg og hvessandi veður. Þegar á daginn leið var veður orðið hvasst og loft ljótt. Fylgdarmanni Benedikts þótti óráðlegt að leggja á stað með lömbin á fjörurnar í jafn tvísýnu veðri og ljótu veðurútliti. En Benedikt var kappsfullur og réði því að lagt var á stað með þau. Þegar stutt var komið vestur fyrir Hálsa herti veðrið og sandurinn tók að rjúka. Var þá erfitt að halda hópnum saman, eitt og eitt lamb fór að slitna úr samhengi við hin og rak út í sjó. Þegar kom vestur á miðja Borgarhafnarfjöru var veðrið orðið það hart með sandfoki og kófbyl úr fjöllum að ekki var hægt að koma lömbunum lengra. Lá þá ekki annað fyrir þeim en reka í sjóinn. Þegar Benedikt sá hvað verða mundi, tók  hann tvo lambhrúta sem voru í hópnum, brá um þá snæri, sem hann hafði haft í sauðbandi um öxl sér, og batt þá við sig. Ætlaði hann svo að reyna að dragast lengra vestur fjöruna með þá en þess var ekki kostur. Þetta var ekki gott útlit. Veðrið fór stöðugt harðnandi, lömbin rekin í sjóinn og Benedikt sestur á fjöruna með hrútana bundna við sig og sandurinn farinn að hlaðast að honum. Þegar pilturinn sem fylgdi Benedikt sá hvernig komið var taldi hann rétt að reyna að brjótast heim hvað sem Benedikt gerði. Harðsótt var á móti veðrinu en heim komst pilturinn eftir mikinn barning. Sumar sagnir segja að Benedikt hafi legið yfir hrútunum þar sem hann var kominn uns veðri slotaði en aðrar segja að hann hafi náð undir skipin í Bjarnahraunssandi uns veðrið lægði. En hvort sem hefur verið þá töpuðust víst hrútarnir.

Heyra má það af ummælum Benedikts eftir þetta að honum hefur verið veðrið minnisstætt. Þegar honum sýndist veðurútlit ískyggilegt varð honum að orði: „Nú er hann að ganga í þetta gamla, þetta sem ætlaði að drepa mig“.

Benedikt var talinn mesta karlmenni. Almennt var hann álitinn einn af bestu sjómönnum í Bjarnahraunssandi enda hafður þar á skipi sem mest reyndi á. Á andófsþóftu voru valdir knáustu hásetar og á henni var Benedikt skipað í sæti og öðrum honum jafnknáum. Þetta var fremsta róðrarsæti skipsins, urðu þeir sem í því sátu fyrir mestum hrakningi í útróðri og þá einkum ef stórt var í sjó. „Oft var stutt svo framarlega“ sagði Benedikt „að sjórinn braut á herðum okkar. Þá kom sér vel að vera vel skinnklæddur“.

Benedikt var vel fiskinn enda hafði hann reynt að hafa veiðarfæri sín í sem bestu lagi svo þau væru sem veiðilegust. Samtíðarmenn Benedikts sem mundu hann vel sögðu að þegar sandstaða var hefði hann leyst krókinn frá færinu sínu, tekið sand í lófann á sjóvettlingnum og fægði krókinn svo hann varð spegilfagur.

Á góuþrælinn 1884 sem víða er kunnur vegna sjóslysa sem þá urðu, þó einkum í Mýrdal, reri Halldór Jakobsson bóndi í Hestgerði í Suðursveit, orðlagður formaður. Háseti var hjá honum meðal annarra Benedikt Erlendsson. Þegar kom á grynnstu mið var rennt færum og dró Benedikt þá strax fisk en aðrir urðu ekki varir enda stutt setið því sjór var ört að stækka. Skipaði formaður að halda strax til lands. Róinn var lífróður því sjór gekk óðum upp. Stutt var til lands en þó stækkaði sjór það fljótt að þeir sem í landi biðu, en það voru tvær skipshafnir sem í fjöru biðu og aldrei fengu lag úr landi eftir að Halldór var róinn, töldu að ólendandi væri þegar Halldór kom að landi. Tvisvar átti hann að hafa  kallað „lagið“ sögðu hásetar að þeir hefðu séð Halldóri mjög brugðið sem ekki var þó venja þó eitthvað ídálpaði á sjó. Þegar hér var komið átti Halldór að hafa sagt: „Ég held ég ætli ekki að fá lag með ykkur í land piltar“. Þá gall við Sigurður Sigurðsson oddviti á Kálfafelli: „Jú, jú, það skal, það skal“. Og um leið og Sigurður sleppti orðinu kallaði Halldór „lagið“ í þriðja sinn og það entist til lands, bæði fyrir snarræði háseta, góða stjórn Halldórs og snarar móttökur þeirra sem í landi voru með vaðbundna menn til að taka á móti skipinu um leið og það kenndi grunns. Skipið var meira borið en dregið upp af þremur skipshöfnum en svo gekk sjórinn ótt upp að þegar farið var úr fjörunni eftir röskan hálftíma rann sjórinn norður af Kömbum, það er norður yfir fjörur, en það gerir ekki nema í aftakabrimi. Þessi frásögn er höfð eftir mönnum sem voru hásetar Halldórs að þessu sinni og lifðu fram til 1930. Ég hef látið þennan litla þátt fljóta með af því að Benedikt var einn af þeim sem tók þátt í þeirri eftirminnilegu ferð.

Einu sinni sem oftar var Benedikt við fé sitt vestur í Borgarhafnarlandi um vetrartíma. Á þeim slóðum er stórt uppistöðuvatn sem heitir Fífa. Í miklum vetrarfrostum leggur hana og verður mannheld. Í þetta sinn var hún á haldi og til að stytta sér leið fór Benedikt yfir tjörnina frá vestri til austurs. Þegar hann var kominn um miðja vega út á tjörnina kom stór álftahópur fljúgandi úr vestri og stefndi yfir þar sem Benedikt fór. Tík var með Benedikt sem var spöl á eftir honum. Þegar álftirnar nálgast þar sem Benedikt fór lækkar ein flugið og rennir sér niður að tíkinni, blæs á hana svo hún fellur öll sundurtætt til jarðar. „Þarna varð ég sjónarvottur að því að satt er það sem sagt var“ sagði Benedikt  „að álftin hefur himneska rödd en helvískan anda. Það var hennar fúli andi sem drap fyrir mér tíkina.“

Eitt árið sem Benedikt og Kristín bjuggu í Borgarhöfn varð þeim eldiviðarfátt síðla vetrar. Í gili þar í námunda við bæinn var stór hrísla sem hafði mikla rót. Verður Kristínu það til að ganga í gilið og rífa hrísluna upp með rótum og nota hana til eldsneytis. Brá þá svo við að henni fannst einhver þungi koma á bak sér, líkast því að maður sæti á herðum hennar og spenni fæturna fram fyrir brjóstið. Þetta gekk nokkra daga og undi Kristín því illa og varð mönnum lítt sinnandi. Tók hún þá fyrir að hitta prestinn á Kálfafellsstað og biðja hann ráða. Ráðlagði hann henni að ganga í gilið og biðja stundarhátt gott fyrir verknaðinn. Þegar hún kom heim lagði hún leið sína í brekkuna þar sem hún tók hrísluna, settist þar niður og bað fyrirgefningar á því að hafa rifið upp hrísluna sem líklega hefði orðið einhverjum til meins. Eftir að hún hafði þetta mælt brá svo við að öllum þunga létti af henni og varð hún söm manneskja eins og áður en þetta kom yfir hana.

Einu sinni sem oftar kom Benedikt að Hala eftir að ég kom til minnis er þetta rita, líklega hefur hann þá verið kominn að Gerði þó mig minni hann vera lengra í burtu. Þetta var fyrri hluta vetrar og var hann þá orðinn sjónlaus. Hann og faðir minn tóku tal saman og meðal annars barst talið að því að faðir minn sagði honum að lömbin sem þá voru komin á gjöf hryndu hjá sér niður úr bráðafári. Það þóttu Benedikt slæmar fréttir. „En veistu af hverju fárið kemur?“ Faðir minn neitaði því. „Þá er ekki von á góðu“ sagði Benedikt. „Það er djöfullinn sem fer ofan í féð og drepur það.“  „Og við því eru auðvitað engin ráð.“ sagði faðir minn og glotti góðlátlega. Ekki taldi karl það vonlaust. „Viltu að ég komi í lambakofana?“ Ekki taldi faðir minn að það mundi neinu spilla en Bensi tók það fram að enginn mætti koma með þeim og faðir minn ekki hnýsast um neitt sem fram færi. Þessu hét hann og hélt víst sæmilega. Mikið kvöldumst við bræður að mega ekki fara með og sjá hvað gerðist.

Eftir að Benedikt var farinn fórum við að grenslast eftir  hvort við sæum nokkur vegsummerki í lambakofunum í sambandi við komu Benedikts þangað. Þar mátti sjá kross framan á hvorri kofahurð og þrír krossar á hverri jötu, allir skornir með hníf eftir Benedikt þótt sjóndapur væri en heldur voru þeir illa gerðir. Daginn eftir þegar við fórum að bera kláfana frá föður okkar þangað sem þeir voru látnir standa til næstu gjafar sáum við að kross var skorinn á hliðar og gafla kláfanna sem lömbunum var tekið hey í. Síðar gátum við haft það upp úr föður okkar að hann átti að krossa yfir heybinginn áður en hann lét hann í kláfana. Hræddur er ég um að þetta hafði ekki haft áhrif á fárið eða aldrei heyrði ég föður minn minnast á það.

Hliðstæða sögu þessari hefi ég heyrt eftir Stefáni Benediktssyni í Skaftafelli í Öræfum frá þvi hann bjó á Sléttaleiti með móður sinni og öðru venslafólki, Að Skaftafelli fluttist hann 1899 eða 1900. Nú er það eitt haust sem oftar að Stefán missir mikið af ungfénu úr bráðafári. Þetta ár er Benedikt niðursetningur á Sléttaleiti hjá þeim mæðginum. Býður hann nú Stefáni að koma í fjárhúsin þar sem féð sé að drepast og vita hvort nokkuð muni umskipast. Stefán þiggur það án þess að hafa nokkra trú á komu hans þangað og fylgir honum að húsdyrunum, lengra mátti hann ekki fara. Tók Benedikt honum sterkan vara fyrir að grennslast ekki um það sem hann hefðist að. Lofaði Stefán góðu um það. Þó sagðist Stefán ekki hafa getað að sér gert að læðast að dyrunum og vita hvað karl hefðist að. Eitthvað tuldur þóttist hann hafa heyrt í honum og þus við jöturnar. Krossa gerði hann á jöturnar og framan á hurðirnar alveg eins og á Hala. „En hvort það hefur verið tilviljun eða hvað“ sagði Stefán, en það tók fyrir fárið að þessu sinni. Stefán var ekki trúaður á hindurvitni.

Benedikt átti fallegt fé. Líklega hefur eimt þar eftir af fjárstofni hans úr Múlasýslu. Eftir að hann varð niðursetningur átti hann 3 – 4 ær sem góðir menn fóðruðu fyrir hann. Þær virtust bera af öðrum ám að svip, byggingu og höfuðlagi. Árin sem hann var niðursetningur á Gerði fóðraði faðir minn fyrir hann eina á. Ég man vel eftir henni. Hún var hvít á lit, kollótt með gult höfuð og gula fætur, ullarprúð, var með allt annað byggingarlag og svip en annað fé á Breiðabólsstaðarbæjum.

Síðasta árið sem Benedikt var á Gerði bað hann föður minn að finna sig, hann ætli að afhenda honum lítinn hlut. Þetta var nálægt sumarmálum, líklega 1903. Faðir minn brást við og hitti karl. Erindið var að afhenda honum hnakktötur sem ekki var nema virkin með lélegum löfum og setu. Var þetta hnakkur Benedikts sem hann hafði átt sína tíð. Sagði Benedikt að faðir minn skyldi hafa hnakkinn fyrir gjöfina á ánni, hann gæti látið gera hann upp handa einhverjum stráknum. Faðir minn þakkaði gjöfina og fékk síðar laghentan mann til að setja heydínu undir hnakkinn. Ekki veit ég af hverju það var eða hvort það nafn hefur fylgt hnakknum, en við strákarnir kölluðum hann „Pulluna“ og það festist við hann. Ekki var þessi hnakkur lengi við lýði á Hala, þó mun Benedikt bróðir hafa riðið í honum sínar fyrstu ferðir til sjós í Bjarnahraunssand. Heldur gerðum við bræður skimp að hverjum okkar sem var þegar einhver okkar var sestur á hestbak í Pullunni.

Ég man nokkuð vel eftir Benedikt þegar hann var á Gerði og Breiðabólsstað, þá blint gamalmenni. Andlitið sett rúnum ellinnar, augun afmynduð eftir margra ára blindu með þykka þokuvagla sem huldu augun sem voru illa hirt með graftarhrúður í augnakrókum og augnahárum. Benedikt mun hafa verið fremur laglegur þó ég muni hann kannski ekki nógu vel til þess að geta dæmt um það. Hann hafði hátt enni, fremur þunnt nef en ekki ólögulegt, allir andlitsdrættir svöruðu sér allt nokkuð vel, augun gráleit undir þykkum blinduskýjum. Hann mun hafa verið vel meðalmaður á hæð með nokkuð þrýstnar herðar, líklega fremur röskur í spori. Hann var barngóður, talaði alltaf hlýlega til okkar krakkanna þegar við komum að Gerði, og sagði þá oft: „Blessuð dyggðin.“

Þegar Benedikt var á Gerði varð hann fyrir því áfalli að detta á hálku og meiddi sig mikið í mjöðminni, marðist illa og beinið brákaðist eitthvað. Sár kom á hnútuna sem gróf í og hafðist illa við. Eyjólfur hreppstjóri á Reynivöllum sem fékkst við hómópatalækningar gekk daglega til hans til að þvo upp sárið og gera að því. Eftir nokkurn tíma greri þetta en ég held hann hafi ekki farið á fætur eftir þetta áfelli eða að minnsta kosti ekki út þau þrjú ár sem hann lifði eftir þetta. Enga borgun tók Eyjólfur.

Oddný Sveinsdóttir fyrrum húsfreyja á Gerði, sú mikla fróðleikskona og Benedikt Erlendsson voru samtíða á Gerði þau ár sem hann var þar. Heldur var grunnt á því góða milli þeirra, bæði þóttust nokkuð góð og höfðu þá til að snupra hvort annað, án illinda. Benedikt var heldur eldri. Einu sinni var það þegar Benedikt var á Gerði að Oddný fór í heimsókn að Breiðabólsstað og var þar eina eða tvær nætur. Meðan Oddný er í þessum leiðangri segir Benedikt: „Hvenær skyldi þá Gunnhildur tólfkóngamóðir koma heim?“ (Oddný átti marga sonu þó ekki væru þeir tólf. Þeir voru níu sem á legg komust). Stöðugt voru ferðir milli Gerðis og Breiðabólsstaðar og var Oddnýju því fljótlega færð fréttin um hina nýju nafngift. Þegar hún kemur heim segir Benedikt ósköp blíður í rómi: „Hvað segir þú nú í fréttum Oddný mín?“ „Og ekkert“ svarar sú gamla, „nema ég heyri sagt að það hafi komið mormónaprestur hingað á deginum og skírt mig Gunnhildi tólfkóngamóður“. Benedikt setti hljóðan, honum var illa við mormónatrú. Þetta vissi Oddný og þess vegna sneiddi hún að honum sem mormónapresti.

Ég hef grun um að Benedikt hafi verið nokkur hestamaður og líklega átt góða hesta og riðið þá vel til. Þennan grun minn byggi ég á ummælum Jóns Sigurðssonar í Lækjarhúsunum í Borgarhöfn er hann hafði um Lúðvík Magnússon frænda sinn. Jón var samtíðamaður Benedikts og hefur því þekkt hann vel. Einu sinni sagði Jón um Lúðvík frænda sinn: „Mikill reiðmaður Lúðvík Magnússon þó ekki sé hann eins og Gamli-Bensi Ellindsson sem gerði glennvakurt úr illgengu.“

Fleiri heimildir hef ég um það að Benedikt hafi átt góð og falleg hross.

Einu sinni lánaði Benedikt sveitunga sínum í Suðursveit hest í langferð, mig minnir vestur yfir Skeiðarársand. En svo illa vildi til að maðurinn lenti í hulinn sandhver. Allt fór á bólakaf, hesturinn seig í djúpið og sást ekki meir en manninum tókst með naumindum að bjarga sér. Þegar heim kom sagði maðurinn sínar farir ekki sléttar og vildi borga Benedikt hestinn. En hann vildi ekki við neinni borgun taka, sagði að það væri sér nóg, úr því sem ráða hefði verið, að maðurinn skyldi bjargast lífs af þó hesturinn tapaðist.

Þetta sýnir að drengskap hefur Benedikt átt til og máski verið drengskaparmaður þegar á reyndi þó ekki færu sögur af því fremur en margra annarra hans samtíðarmanna þó átt hafi það skilið.

Benedikt var sá fyrsti sem ég þekkti sem læknaði skitupest í sauðfé með tóbaki. Þegar hann var á Gerði var hann leiddur að Hala til að troða tóbaki í skitugemsa sem var langt leiddur af skitu. Hér var ekki um neina gerfilækningu að ræða heldur lækningu sem dugði við svona pest. Kvartél af tóbaki var sett í kind, skorið í smápísa og hverjum pís troðið ofan í kindina með sem snörustum handtökum. Síðar sá ég notað rjól til svona lækninga og baðtóbak. Var það soðið og lögnum hellt ofan í kindina. Ég man að við strákarnir vorum að segja að fingurnir á Bensa gamla væru vel lagaðir til þess að troða tóbaki ofan í kindur, þeir væru svo mjóir og langir. Af þessu drógum við þá ályktun að það þyrfti að hafa sérstakt fingralag til að troða tóbaki ofan í kindur.

þegar Benedikt var próventumaður hjá séra Birni í Sandfelli átti Kristín kona hans að hafa sagt þegar feitar sauðaribbur voru framreiddar: „Þetta er nú af sauðunum þínum Bensi minn“.

Eitt kennileiti var á Breiðabólsstaðarbæjum sem kennt var við Benedikt Erlendsson og kallað var  Gamla-Bensarof. Þetta var þannig til komið: Þegar Benedikt var á Sléttaleiti 1892 hafði hann enn dálitla sjónglætu svo hann fór á hesti án fylgdar frá Sléttaleiti að Reynivöllum sem er rúmur klukkutíma lestagangur. Á þessu ári fór hann eitt sinn í heimsókn að Reynivöllum ríðandi einn síns liðs. Á heimleiðinni aftur, þegar hann kom á svokallaðan Helghól sem er stutt vestan við Hala, lá gatan yfir þveran hólinn nyrst, tók hesturinn tauminn af Benedikt en hann hafði ekki það glögga sjón að hann áttaði sig á því hvert hesturinn fór. Austan við Helghól er stór og falleg vallendistorfa með uppblásnum moldarrofum að austan og sunnan sem mynduðu háa bakka en lá fallega að hólnum. Nú tók hesturinn strikið austur torfuna og stefndi á Breiðabólsstað, þvert úr réttri leið. Þegar hann kom á suðausturhorn torfunnar tregðaðist hesturinn við að halda áfram, en af því að sjón Benedikts var sljó þá sá hann ekki hvað framundan var og herti á hestinum með þeim afleiðingum að hesturinn stakkst á höfuðið niður fyrir rofbakkann og karl hentist fram af í moldarflagið en meiddist ekki. Föt hans urðu mjög ötuð í mold, eins andlitið. Fólkið á Breiðabólsstað sá til ferða Benedikts. Hljóp þá einhver heimamanna til hans þegar afdrif hans sáust og fór með hann þangað heim. Var hann þar þveginn og moldin verkuð úr fötum hans og honum síðan fylgt að Sléttaleiti eftir að hann hafði fengið góða hressingu. Eftir þetta fall Benedikts niður fyrir rofið var sá oddi þess sem hann lenti niður fyrir kallað Gamla-Bensarof.  Hafði hann þá fyrir mörgum árum hlotið nafnið Gamli-Bensi og gekk yfirleitt undir því nafni þegar um hann var talað.

Torfan sem gekk austur frá Helghól og áður var nefnd hét Innrarof en austan við það var Eystrarof. Djúp uppblástursgeil, fleiri metra á dýpt og 20-30 metra breið, aðskildi rofin. Nú er búið að slétta þessi rof niður og halla þau sér vinalega hvort mót öðru með grónar hallandi brekkur sem falleg lækjarsytra seitlar á milli.

Ég man vel eftir kvöldinu sem Benedikt dó. Þann dag var mikil rigning og hlákumyrkur um kvöldið. Við bræður fórum þetta kvöld að Breiðabólsstað að spila en lítið varð úr spilamennsku vegna andláts Benedikts. Þó dokuðum við eitthvað fram eftir kvöldinu á Breiðbólsstað. Við vorum allir mjög líkhræddir. Lögðum við því á stað heim með hálfum huga undir vökulokin. Úti var mesta náttmyrkur sem ég hef komið út í. Það sást ekki loft frá láði, öllu sló saman í einn sorta. Við tókum stefnu á ljósið sem blasti við í baðstofuglugganum á Hala þegar komið var vestur fyrir bæinn á Breiðabólsstað. Stutt frá götunni milli bæjanna stóð skíthaugur sem borinn var úr fjósinu á Hala. Ekki vissum við bræður fyrr en við féllum allir í einu fram á hendur okkar í hauginn og lá nærri að við rækjum nefin á kaf í hann. Einhverjum okkar varð að orði: „Þetta eru gerningar frá honum Gamla-Bensa.“

Benedikt var jarðsettur í kirkjugarði Kálfafellsstaðar daginn fyrir eða eftir þrettánda 1906.

Benedikt Erlendsson heyrir fortíðinni til. Eflaust gæti hann átt langa ævisögu þó hér hafi verið stiklað á örfáum punktum. Benedikt hefur verið nokkuð sérstæður maður, það gæti gefið til kynna að saga hans hefði gefið tilefni til ýmsra þátta sem vel hefðu þótt lesandi og geymt minningu þessa útvarðar horfinna kynslóða.

Pálmi Benediktsson

Pálmi er fæddur á Skálafelli í Suðursveit, sennilega 1859 eða 60. Foreldrar hans voru Benedikt Erlendsson og Kristín Pálsdóttir (áður getið í þætti af Benedikt Erlendssyni).

Pálmi ólst upp hjá foreldrum sínum sem bjuggu á ýmsum stöðum eins og getið er um í þætti af föður hans.  Með þeim vann hann að búskapnum meðan þau bjuggu og þeim fylgdi hann er þau fóru próventuhjú að Sandfelli í Öræfum, þá líklega 17-18 ára.

Þegar hann slítur samvistir við foreldra sína flytur hann að Karlsskála við Reyðarfjörð. Þar hefur hann dvalið stutt því á Smyrlabjörgum í Suðursveit er hann 1888. Þá fæðist honum sonur í Hestgerði í Suðursveit. Barnsmóðir hans hét Ingunn Þorsteinsdóttir og var vinnukona þar. Mikla andúð hafði venslafólk Ingunnar á þessum barnsburði. Barnið var tekið strax frá móðurinni um leið og það sá dagsins ljós og var flutt að Smyrlabjörgum til föður síns, en þá var hann ekki heima, hefur sennilega verið í kaupstaðarferð. Húsbændur Pálma voru Páll Benediktsson frá Árnanesi í Nesjum og Guðrún Hallsdóttir frá Skálafelli í Suðursveit. Vildi sá sem barnið flutti skilja það eftir hjá húsbændum hans en þau neituðu að veita því viðtöku og aftóku að það yrði borið í sín hús. Sá þá sá sem barnið flutti að ekki var um annað að gera en skilja barnið eftir þar á hlaðinu því honum var uppálagt að koma ekki með það aftur. Lagði hann því reifastrangann á öskuhaug sem var þar framan við bæinn þar sem Páll og Guðrún bjuggu. En þegar hann er að fara kemur vinnukona þar á bænum út með fasi miklu, Ingibjörg Einarsdóttir að nafni, gæðamanneskja, þrífur barnið með þeim ummælum að hún eigi þó alltaf bólið sitt og enginn geti fyrirmunað sér að leggja barnið þar.

Um þessar mundir var þríbýli á Smyrlabjörgum. Eitt þeirra hét Ekra og stóð norður af Smyrlabjargarbænum vestri, uppundir fjallsrótinni á sléttum og fallegum grasfleti. Hjónin sem þar bjuggu hétu Einar Sigurðsson og Hólmfríður Bjarnadóttir. Hjá þeim kom Ingibjörg barninu fyrir um sinn. Síðar hlaut það nafnið Kristinn.

Stuttu eftir barnsburðinn andaðist Ingunn (móðir barnsins). Nóttina sem andlát hennar bar að var Pálmi nætur á Sævarhólum. Bágt átti hann með að festa svefn um kvöldið, lá hann nokkra stund vakandi og bylti sér á ýmsa vegu. Sá hann þá að hvítklædd vera kemur inn baðstofugólfið og stefnir að rúminu til hans. þar nemur hún staðar og horfir til Pálma litla stund, hverfur svo. Þetta gerðist á þeim tíma nætur sem Ingunn andaðist.

Um þrítugsaldur missti Pálmi annan fótinn. Orsakaðist það af krapavaðli yfir Hornafjarðarfljót. Þorgrímur Þórðarson læknir í Borgum í Nesjum tók fótinn af 3. mars 1891, eftir því sem Þorleifur Jónsson segir í ævisögu sinni, en hann var Þorgrími til aðstoðar að taka fótinn af. Þetta átti að kosta Pálma 330 krónur, eða 33 ær loðnar og lemdar. Sagt er að fæðingarsveit hans hafi orðið að borga þetta en líklega hefur Pálmi greitt þetta aftur því ég heyrði aldrei talað um að hann væri í skuld við Borgarhafnarhrepp.

Eftir þessa aðgerð gekk Pálmi á „Stúfsa“ eins og hann orðaði það. Þetta var hringlagaður skór með allþykkum leðursóla. Við hann var festur hringlagaður hólkur úr leðri sem náði upp undir hné. Neðan á sólanum var skrúfa úr járni, í hana setti hann smábrodda á vetrum þegar hált var. Pálmi var harður af sér og sá ekki á verkum hans að hann hefði bilaðan fót og gengi við hækju.

Það er erfitt að rekja feril Pálma. Hann mun hafa verið í mörgum vistum en hvergi lengi. Árið 1890 er hann vinnumaður í Dal og þá með son sinn með sér. Lengi mun hann hafa verið á ýmsum bæjum á Jökuldal og kannski víðar á Héraði. Líklega hefur hann þótt góður fjármaður og trúr við yfirstöður á fé á vetrum. Ég heyrði hann segja að staðið hefði verið með féð þar til stjörnur komu á loft, þá hefði það líka verið fullt. Pálmi talaði um Hnefilsdal og mér fannst hann tala um hann með mikilli virðingu. Líklega hefur hann verið þar eitt eða fleiri ár.

Það mun hafa verið haustið 1904, nýlokið var við blóðmörssuðu á Hala úr hálsóttum sauð sem Benedikt afi minn átti. Fólkið hafði etið soðningu sína af slátri og drukkið soðið af slátrinu með. Var það því vel undir svefninn búið. Um það leyti sem gengið var til náða var kvatt dyra. Afi kallaði út um gluggann „Hver er maðurinn?“ „Pálmi Benediktsson með son sinn“ var svarað úti. Afi flutti gestafréttina í baðstofuna. Faðir minn fór til dyra og kom brátt aftur með gestina, þá Pálma og Kristin son hans. Okkur strákunum brá undarlega þegar við sáum Kristin. Hann var svo mikið reifaður um hálsinn og graftarhrúður sást upp undan klútnum. Við hvísluðum að mömmu hvað væri að drengnum. Hún vissi það ekki en hélt það væri kirtlaveiki. „Er það vond veiki?“ spurði einhver okkar. Mamma svaraði engu. Ekki man ég hvort Pálmi bar upp erindið um kvöldið eða morguninn eftir. Það var þess efnis að biðja foreldra mína að taka Kristin um veturinn, hann væri í vandræðum að koma honum fyrir. Kristinn var útgrafinn um allan hálsinn upp á miðjar kinnar og upp undir hársrót framan við eyrun. Heita mátti að enginn blettur á hálsi og kinnum væri ekki útgrafinn með opin graftarsár. Þetta var andstyggileg sjón.

Hvort sem lengur eða skemur var rætt um veru Kristins á Hala þá réðist það samt að hann var tekinn þangað vetrarlangt en Pálmi fór vetrarmaður til Eyjólfs hreppstjóra á Reynivöllum og gerðist gegningamaður á útibúi hans á Geirsstöðum á Mýrum þar sem hann heyjaði á sumrin en hafði gripi á heyinu á vetrin.

Það var þá svona. Kristinn var haldinn mjög slæmri kirtlaveiki sem Pálmi sagði að læknar teldu mjög litlar líkur til að væri hægt að bæta. Hann var búinn að vera á sjúkrahúsi á Seyðisfirði sumarið áður en fékk engan bata. Það var því ekkert álitlegt að taka Kristin, hver vissi nema þetta gætu verið berklar. Lengi fram eftir vetri skipti mamma um sárabindi einu sinni á dag á Kristni og þvoði vandlega sárin úr karbólvatni og fyllti graftarbollana með bómull. Eyjólfur á Reynivöllum fékkst við hómópatalækningar. Hann lét Kristin hafa dropa sem hellt var í sárin og líka inntöku. Strax um hátíðar sáust batamerki á Kristni. Í mars gat hann gengið með beran hálsinn, þá gróinn allra sinna sára. Þetta var kallað kraftaverk og ekki síst af Pálma.

Mikil nákvæmni var Kristni sýnd af móður minni. Fram yfir venjulegan skammt fékk hann mörk af nýmjólk í hvort mál, það fengu ekki aðrir á Hala. Fremur var hlynnt að honum fram yfir okkur bræður og þá helst af þeim mat sem móðir mín taldi honum hollan, eins og harðfisk og kartöflur og drýgstur var smjörbitinn hans. Við bræður vorum ánægðir með þetta því við vildum umfram allt að honum batnaði.

Kristinn var skemmtilegur piltur, hægur í lund og glaður. Hann kunni það fram yfir okkur bræður að stíga dans og spila á munnhörpu. Hann vildi kenna okkur að dansa en það var heldur lítið dansrými í baðstofunni á Hala en það var eina húsið sem hafði timburgólf. Þá var hún líka svo illa löguð, mjótt milli rúma svo vart var hægt að snúa sér við. Varð því minna úr danskennslunni en til var ætlast. Benedikt afa mínum var illa við þetta hark á gólfinu. Stundum sagði hann: „Nú eru þeir teknir til með helvítis trappið, ekki hætta þeir fyrr en þeir eru búnir að brjóta niður pallinn.“

Alveg er ég búinn að gleyma hvar Kristinn sagðist hafa dvalið eftir að hann komst til minnis en líklega mun hann hafa frameftir uppvaxtarárum sínum hafa fylgt föður sínum á vist. Á Hauksstöðum á Jökuldal var hann þegar hann fermdist og var búinn að vera þar einhver ár áður og þar var hann þegar hann fór á spítalann á Seyðisfirði, líklega 16 ára, þaðan kom hann svo að Hala. Mikið kjöt sagði hann að borðað hefði verið á Hauksstöðum en lítið um fisk og kartöflur.

Ýmsar hendingar kunni Kristinn sem hann nam þegar hann var á Jökuldal. Eftirfarandi erindi kenndi hann okkur:

Lagarfljótið læðist að
lífi manns að ræna.
Vertu viss ég þekki það
það er bölvuð spræna.

Og þetta um stúlku sem datt af hestbaki:

Kímilega konan fór,
klofið sneri upp í loft.
Hún við sína sálu sór
að svona skyldi ei fara oft.

Fleira kenndi hann okkur bræðrum þó það verði ekki skráð hér.

Kristinn var frekar laglegur. Að vísu óprýddu hann örin eftir kirtlaveikina meðan þau voru ekki nógu vel holdfyllt. Hann var prúður í framkomu og drengur hinn besti.

Vorið 1905 fór Kristinn vinnumaður til Eyjólfs hreppstjóra, þar var hann í tvö ár. Þaðan lá leið hans til Austfjarða og eftir stutta dvöl þar til Ameríku. Eftir að hann hafði verið einhver ár í Ameríku fékk faðir minn bréf frá honum með nokkurra dollara innihaldi, ekki man ég hvað upphæðin var há, bað hann föður minn að koma peningunum til Pálma föður síns, hann vissi ekki hvar hann væri niður kominn en treysti föður mínum manna best til að koma þessu til skila eftir fyrri kynnum sínum af honum. „Þá treysti ég þér“ segir Kristinn „að mega hafa bréfasamband við þig með aurasendingu frá mér til föður míns framvegis því ég veit aldrei hvar hann verður niður kominn.“ Þegar þetta gerðist var Pálmi í einhvers konar sjálfsmennskubúskap í Suðursveit, átti faðir minn því hægt um vik að koma peningunum á framfæri. Mikið gladdi þessi sending Pálma og kom sér vel í hans basli. Faðir minn skrifaði Kristni aftur með mikilli kveðju og þökk frá föður hans fyrir dollarana. Sagði faðir minn að honum væri velkomið að senda peninga, hann skyldi koma þeim til skila. Stuttu eftir þetta fréttist lát Kristins. Þar með var von Pálma um aðstoð frá honum að engu orðin.

Þegar Pálmi fór að eldast átti hann erfiða sambúð með fólki. Hann varð nokkuð einrænn og þoldi fremur illa yfirráð annarra. Af þessu leiddi að Pálmi fór að hokra í kofa í námunda við bæinn á Leiti. Í þessum kofa hafði hann líka fáar kindur sem hann átti og gráskjótta hryssu. Þessar skepnur gáfu yl í kofann sem dró úr mesta kuldanum þar inni. Eitthvað var Pálma rétt vikið frá næstu bæjum, að öðru leyti mallaði hann eitthvað handa sér sjálfur þarna í kofanum. Bændurnir á Kálfafelli Bjarni Runólfsson og Þórður Jónsson buðu honum að koma til sín sinn daginn til hvors í kvöldmat. Þetta boð þáði Pálmi en ekki hafði hann lengi sótt boð Þórðar þegar hann hætti að koma þar. Ástæðan var þessi: Pálmi brúkaði í nefið. Nú er það næsta kvöld áður en hann hætti að koma til Þórðar að hann býður Þórði í nefið. „Æ, nei“ sagði Þórður „þær eru svo loðnar innan á mér nasirnar að ég hef ekkert gagn af því.“ Pálmi sagði ekkert en þykktist við. Nú kemur Pálmi tvö kvöld í röð til Bjarna. Seinna kvöldið sem hann kemur segir Bjarni í glettni eins og honum var lagið: „Ertu nú búinn að afrækja Þórð?“ „Ég kem þar ekki framar“ sagði Pálmi „hann vildi ekki þiggja hjá mér í nefið, allt af bölvaðri stórmennsku. Ég þigg ekki góðgerðir hjá svoleiðis mönnum.“ Þannig endaði þessi matarvist. Þetta sýnir hvað Pálmi var viðkvæmur á efri árum.

Pálmi andaðist seinnipart vetrar 1917. Var hann þá í kaupstaðarferð, sennilega að sækja sér eitthvað til páskanna. Á heimleiðinni veiktist hann, þá næturgestur í Heinabergi á Mýrum, lá fáa daga áður en hann dó þar. Lungnabólga hefur sennilega verið hans banamein. Hreppsnefndin í Suðursveit sá með sóma um útför hans og sótti hann sjálf á dánarstað.

Þórhallur Bjarnason, sem þá var á Kálfafelli en gerðist nábúi minn 1918, sagði að Pálmi hefði komið til sín daginn áður en hann lagði í þessa ferð og beðið sig að kaupa skjóttu hryssuna sína ef hún yrði seld því óvíst væri hvort hann kæmi lifandi úr þessu ferðalagi. Sagðist Þórhallur hafa lofað þessu sem hann og efndi. Þegar reytur Pálma voru seldar átti hann hryssuna og þrjár kindur af gangandi peningi.

Pálmi var tæpur meðalmaður á hæð, snarlegur í öllum hreyfingum og góður verkmaður. Hann var fremur laglegur, hafði dálítið hásan málróm en var allorðhvatur, fremur greindur.

Steinþór Þórðarson, Hala Stefán Jónsson, Hlíð (kaflinn um Kristján Vigfússon) Skaftfellingur 21. árgangur

Scroll to Top