Selmýri
Um Selmýri
Inn á Selmýri í Staðardal, vestan Staðarár eru grónar tóftir en þó vel greinanlegar. Þar bjuggu einn vetur hjónin Benedikt Erlendsson f.1819 og Kristín Pálsdóttir f. 1823. Þau bjuggu víða á langri ævi, en m.a. um tíma í Borgarhöfn. Börn þeirra voru a.m.k. sex en aðeins þrjú þeirra lifðu til fullorðinsára, Þorbjörg, f. 1846, Oddný, f. 1847, d. 23.10. 1847, Pálína, f. 30.8. 1851, d. 5.10. 1851, Daníel, f. 1856, Pálmi, f. 1858, Pálína, f. 17.9. 1862, d. 12.4. 1874. [1][2]
Í Byggðasögu Austur Skaftafellssýslu segir: „Þá skal minnast á annan mann sem leitaði á náðir séra Þorsteins á Kálfafellsstað um jarðnæði. Það var Benedikt Erlendsson, sem lengi bjó í Borgarhöfn og víðar.“[3] Þau hjónin komu austan af landi með nokkrar kindur og talað var um að kindur hans hefðu annað fjárbragð og betra en það fé sem fyrir var í Suðursveit. „Það var því ráð prests, að hann vísaði Benedikt á Selmýrina inni á Staðardal, hjálpaði honum til að byggja kofa yfir þau hjónaleysin þar inn frá, og höfðust þau þar við um veturinn með kindurnar […] og segir sagan, að þær hafi gengið vel fram.“[3]
Benedikt var greindur karl og orðheppinn, segir Þórbergur.[4] En eitthvað hafði fólk út á hann að setja svo hann var ekki vel þokkaður. Hann bjó um tíma í Borgarhöfn við góð efni. Margar sögur voru á kreiki um fjölskyldu Benedikts og afkomendur hans en óvíst er um sannleiksgildi þeirra allra.
Benedikt dó á Breiðabólsstað árið 1904, hafði þá búið á fjölmörgum stöðum, en verið á sveit í einhver ár. Hann átti alltaf kindur sem hann flutti með sér og voru þær hans mesta yndi. Benedikt varð fjörgamall og blindur síðustu æviárin.
Steinþór Þórðarson segir á eftirminnilegan hátt frá dánardegi Benedikts Erlendssonar, í frásögn sem til er á hljóðbandi í Árnastofnun.[5] Einnig sögu af þeim hjónum þegar þau komu um haust austan úr Breiðdal í Suðursveit. Benedikt átti að bera út við Staðará eftir fæðingu, komið var að móður hans við bakkann en barninu bjargað frá því. Fylgdi það sögunni að presturinn í Einholti hafi verið talinn faðir barnsins. Torfi Steinþórsson á Hala talar um í frásögum sínum að hann hafi þótt forneskjulegur í útliti og mikið verið um hann talað.[6] Hann mundi eftir Pálma syni hans og var hræddur við hann.
Heimildir
[1] Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1849 – 1879. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[2] Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Prestþjónustubók 1847-1911. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[3] Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[4] Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[5] SÁM: Segulbandasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (1966). Nr. 85/239 EF, viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við Steinþór Þórðarson 18. 08. 1966. https://www.ismus.is/i/audio/uid-7b5aab69-d6b6-4447-b9d9-2ef1a1c9496c
[6] SÁM: Segulbandasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (1995). Nr. 12/4229 ST, viðtal Hallfreðar Arnar Eiríkssonar við Torfa Steinþórsson 04.12. 1995. https://www.ismus.is/i/audio/id-1042532