Ítarefni

Hallæristíðir

Þegar hallæristíðirnar voru, bjó á Felli í Suðursveit ríkur bóndi, Þorsteinn Vigfússon, maður Ingunnar, sem var hálfsystir Elínar, er sagði mér söguna. Ingunn var víst nokkrum áratugum eldri en Elín, sem dó á áttræðisaldri nú fyrir tuttugu árum. Þorsteinn þessi átti Fellið, sem þá var hundrað hundraða, en er nú aðeins metið eitt hundrað. Jörðin hefur góðar fjörur, en Vatnajökull hefur eyðilagt hana. Eitt vor átti Ingunn barn, og var þá svo þröngt í búi, að hún lét sjóða handa sér á sængina gamlan og tóman, hanginn grútar selmaga, og deif hún maganum ofan í grútinn, sem af rann. Sagði hún svo frá síðar, að enginn réttur hefði sér smakkazt betur, því hungrið kryddaði hann.

Sama vorið, eða vorið áður, kom göngufólk austan úr sveitum til að fá sér gistingu. Veturinn hafði verið geipiharður, svo að fólk horféll. Um vorið rak hákarl á Felli, og var lifrin brædd, en grútnum, sem var lítill, var fleygt á hauginn. Einn þeirra manna, sem komu að austan til að fá sér gistingum, var með ofurlítinn böggul á bakinu. Morguninn eftir, er hann ætlaði að fara, nam hann staðar við hauginn og horfði á hann um stund, en tárin hrundu niður vanga hans. Allt í einu var eins og hann áttaði sig, tók böggulinn af herðum sér, leysti hann upp og tók upp úr honum Vídalíns-postillu. Bað hann síðan Þorstein að selja sér grútarhnoðann í haugnum fyrir bókina. Þorsteini rann svo til rifja eymd mannsins, að hann gaf honum kindarlæri, nærri því það eina, er hann átti til, og svo grútarhnykilinn. En við bókinni tók hann ekki. Svo fór þessi vesalings maður leiðar sinnar, en ekki vissi Þorsteinn hversu honum reiddi af.

Torfhildur Hólm Þorsteinsdóttir ; Þjóðsögur og sagnir Almenna bókafélagið mars 1962

Scroll to Top