Ítarefni

Fornt ákvæði

Á prestssetrinu Kálfafellsstað í Hornafirði áttu í heiðni að hafa búið hjón. Bóndinn hét Kálfur, en konan var Valva nefnd. Hvort það hefur verið nafn hennar, eða hún hefur verið nefnd svo, af því hún var forn í skapi, er ekki víst. En þegar kristni var lögtekin, var Kálfafellsstaður gjörður að prestssetri, og urðu þau því nauðug að víkja þaðan hún að Butru, sem var hjáleiga frá staðnum. En hvort hann hefur dáið áður en hún fór eða farið með henni að Butru, er óvíst. En hann er grafinn í langri laut, sem aðskilur Kálfafellsstað og innra Kálfafell, og er síðan nefnd Kálfagróf. Sést leiði þar ennþá, og er allótrúlegt, að bæirnir hafi tekið nafn sitt af Kálfi þessum. 

En það er frá Völvu að segja, að hún hamaðist mjög yfir að fara frá staðnum og lagði það á hann, að engum presti skyldi þar vel vegna lengur en 20 ár, fyrr en fengin yrði til kirkjunnar líkneskja Ólafs kóngs helga, „bróður“síns, og mundu þeir þó flestir hafa fullkeypt. Þótti það mjög rætast, áður líkneskjan var til fengin og urðu þar ýmsir prestar skammlífir, þar á meðal Haukur nokkur, sem var þar prestur. Hann varð bráðkvaddur uppi í Hrossadal, háum grjóthjalla uppi yfir bænum, og fleiri voru til nefndir, sem ekki kembdu hærurnar. En er líkneskjan var til fengin þótti batna, og var á henni lengi vel talsverður átrúnaður, t.d. hneigðu menn sig fyrir henni. Hún stóð yfir kórdyrum, og á hátíðum brunnu kertaljós í höndum hennar. Nú er hún komin á forngripasafnið í Reykjavík. Það var sem einhver heill væri yfir henni, því þegar kirkjan fauk og brotnaði í spón fyrir nokkrum árum, fannst Ólafur kóngur (svo var líkneskjan kölluð) standandi í flæðarmáli (að sögn) alveg heill, og er þó langur vegur, til þess að gera, frá staðnum og niður að sjó, og bæði klettar og klungur á leiðinni. Eftirfarandi saga sýnir hvað mikinn átrúnað menn höfðu á henni.

Þegar Kristján heitinn Vigfússon bjó á Kálfafellsstað fyrir nokkrum áratugum, skopaðist hann að þessum átrúnaði og sagðist skyldi sýna, hvað mikið hann tryði á  líkneskjuna, og hjó af henni nokkra fingur, svo hnífur sá, er hún hélt á, datt úr hendinni. Skaftið er ennþá til, en blaðið, sem var úr tré, er tapað. Það var ekki ólíkt skegghníf, nema að oddurinn sneri að bakkanum og var svo stór skerðing í honum, að blaðið var sirkilmyndað fyrir odd. Litlu eftir þetta atvik, var einkasonur Kristjáns heitins, sem Sæmundur hét, að leika sér við annan dreng, jafnaldra sinn, uppi á túninu. Báðir voru 10—12 ára. Sinnaðist þeim þá eitthvað, og hinn drengurinn, sem hélt á hníf, stakk honum í hjartað á Sæmundi, sem dó undir eins. Þetta átti að vera hefnd fyrir handarhögg Ólafs konungs. Valva var grafin í Butru, og er leiði hennar langt, snýr austur og vestur og er vestanmegin í túnjaðrinum. Það þótti vita á gott að hlaða það upp, bæta í það kökk eða hlynna eitthvað að því, og var það því vel upphlaðið fyrir 20—30 árum.

[1] Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm ( 1962) Þjóðsögur og sagnir,safnað hefur Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm;  Almenna Bókafélagið  bls 204 – 205

Scroll to Top