Ítarefni

Fífutjörn

Björn hét maður og var Jónsson, Björnssonar ríka á Reynivöllum, Brynjólfssonar prests á Kálfafellsstað, Guðmundssonar, en kona Björns á Reynivöllum og móðir Jóns var Bergljót dóttir Sigurðar Stefánssonar, sýslumanns á Smyrlabjörgum. Vandað fólk og fremur merkilegt.

Björn Jónsson bjó í Borgarhöfn. Hann átti gráa hryssu, sem hélt sig alltaf í grennd við Fífutjörn, þegar hún gekk í haga. Eitthvert sumarið, líklega milli 1850 og 1860, skeði sú furða, að merin fyljaðist við tjörnina. Þetta þótti undur, því að menn þekktu þarna svo til allra kringumstæðna, að þeir töldu sig vita með fullri vissu, að enginn þessa heims graðfoli hefði komið nærri hryssunni. Svo kastaði hún folaldi á sínum tíma. Það var gráskjóttur hestur rennivakur. En það hótti einkennilegt, að hann var miklu loðnari en tíðkaðist um önnur folöld. Snemma fór líka að bera á því, að hann var mjög illvígur og hagaði sér líkast grimmum hundi, fitjaði upp á og bjó sig til að bíta, ef nærri honum var komið. Það var líka einkennilegt við hann, að hann hneggjaði ekki, heldur orgaði líkt og naut. Svona folaldi hafði enginn haft kynni af fyrr.

Um haustið var hann tekinn frá hryssunni og settur í hesthús, eins og venja er með folöld. Þar gerðist hann svo grimmur, að sá sem gaf honum, varð að vara sig á að koma nálægt honum, því að þá beit hann alltaf. Hann var látinn út á morgnana með fullorðnu hrossunum, þegar fór að vora, þá veturgamall, en það gekk mjög illa að koma honum inn á kvöldin. Eitt kvöld um vorið bað Björn bóndi Björn son sinn, sem þá var rúmlega tvítugur, að láta folann inn, en þá snöri hann á móti piltinum, og hann gat engu tauti við hann komið. Þá komu einhverjir til að hjálpa Birni, en við það umhverfðist folinn og gerði sig til að ráðast á þá, fitjaði upp á eins og grimmur rakki og öskraði, líkt og blótneyti. Þessum látum lét hann nokkra stund, þar til hann datt niður fyrir framan mennina og var þegar dauður.

Þetta þótti allt mikið undur, og var talið efalaust, að merin hefði haft með dularfulla hestinum, sem sézt hafði við Fífutjörn og sumir kölluðu nykur. Svipað kom fyrir kú á Mýrum í Hornafirði og Í Flatey á Breiðafirði, og voru þar við sjónarvottar á báðum stöðum. Þetta mætti kannski athuga, áður en farið er að dást að skáldlegum tilþrifum í frásögninni af Glæsi í Eyrbyggju.

Sagan af hryssu Björns bónda í Borgarhöfn og gráskjótta folaldinu var alkunn í Suðursveit í ungdæmi mínu og lifir þar enn. Ég var vel kunnugur Birni syni Björns bónda. Hann var þá vinnumaður á Breiðabólsstað hjá Steini afa mínum. Hann var vel greindur karl og óskreytinn og hafði yndi af söng.

Þórbergur Þórðarson Í Suðursveit ; Mál og menning 1981