Sögur af síðustu ábúendum á Felli
Þórbergur Þórðarson lýsir Vigfúsi Sigurðssyni bónda á Felli svo: „Ég sá Vigfús langömmubróður minn einu sinni svo að mér sé í minni. Hann kom að Hala og stóð austan undir eldhúsveggnum, með bakið upp að veggnum og studdist fram á staf og var að tala við einhvern. Það var sólskin og sól áreiðanlega ekki komin í hádegisstað. Það skein austansól á Vigfús og vegginn. Mér sýndist hann vera afar gamall, og ég sá ekki betur en hann væri blindur. Hann horfði á móti sólinni eins og hann hitti ekki alveg á hana með augunum. Þá er mér óhætt að horfa mikið framan í hann, hugsaði ég og góndi mikið. Þá var ég lítill. Hann var með beint nef og sítt alskegg og tvær stórar tennur í efri góm, og það heyrðist í þeim líkt og maðkaflugu þegar hann talaði. Það var sagt að Vigfús hafi verið sterkur en frekar þungur