Fell
Brennhólar
Brennhólar á Breiðamerkursandi voru tvö býli í fyrndinni. Í Ferðabók Sveins Pálssonar er fjallað um þau sem sjálfstæð býli og talað um jarðarstærð þeirra. Því má telja að Brennhólar hafi ekki talist til hjáleiga Fells í byrjun. Sveinn Pálsson skráir: „Brennuhólar efri og neðri, hétu tvö býli eða hjáleigur frá Felli í Hornafirði, 12 hundr. að dýrleika hvor um sig. Eiga þeir að hafa staðið rétt vestan við Veðurá, rétt hjá klapparholti einu samnefndu og skammt frá jöklinum. Fóru býli þessi í eyði um 1707, er jökullinn tók að ganga fram, en eru nú með öllu grafin undir ísnum.“[1]
Klapparholtinu lýsir hann á öðrum stað í bók sinni og því hvernig jökullinn er kominn yfir þann stað í síðari ferð hans um Breiðamerkursand, árið 1794. Hann lýsir staðnum svo á ferð sinni 1793: „Austast á sandinum fast við fyrrnefnda Veðurá, stendur lítill hóll einstakur og grasi gróinn, á auðum sandinum. Mér var óskiljanlegt af hverju hann hafði ekki étist þarna burtu þarna rétt við jökulröndina, uns ég fann að hann var gerður úr grófu blágrýtisbergi. Gegnum það gekk stór eitill eða innskot úr rauðum jaspis sem stóð dálítið út úr klettinum annars vegar, en utan um það luktist hvítt kvars líkt og hjúpur er rann saman við jaspisinn á aðra höndina, en blágrýtisklettinn á hina.“[2] Í dagbók sinni 1794 segir Sveinn um ferðalag sitt á Breiðamerkusandi: „Austasti hluti hans eða Fellsjökull hefur gengið lengst fram og lagst algerlega yfir Brennhóla þá, sem getið var í dagbók fyrra árs, […].“[2]
Byggð var í Brennhólum 1703, sjá Manntal.[3] Þar var þá ein kona, Jórunn Guðmundsdóttir 55 ára að aldri sennilega systir bóndans á Bakka, Guðbrandar Guðmundssonar. Eiríkur Þórarinsson sonur hennar 7 ára og Steinunn Bjarnadóttir 16 ára, gæti verið dóttir Jórunnar voru einnig þar í heimili. Býlið fór í eyði eigi síðar en 1707, sjá tilvitnun í Svein Pálsson hér fyrr.
Heimildir
[1] Sveinn Pálsson, Jón Eyþórsson, Pálmi Hannesson, & Steindór Steindórsson, (1983). Ferðabók Sveins Pálssonar : Dagbækur og ritgerðir 1791-1797. II. Bindi (2. útgáfa). Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
[2] Sveinn Pálsson, Jón Eyþórsson, Pálmi Hannesson, & Steindór Steindórsson, (1983). Ferðabók Sveins Pálssonar : Dagbækur og ritgerðir 1791-1797. I. Bindi (2. útgáfa). Reykjavík: Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf.
[3] Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.