Fell
Borgarhóll
Borgarhóll er sagður hafa verið í byggð fram eftir 18. öld. Enginn veit fyrir víst hvar bærinn stóð. Í Byggðasögunni er talið að hann hafi verið í suðvestur frá Felli og nálægt Veðurá.[1] Jón Helgason getur þess í skrá sinni um eyðijarðir 1793 að Veðurá hafi tekið af túni Borgarhóls. Býlið virðist fara í eyði fyrir aldamótin 1800.[1]
Engin merki um mannvist hafa fundist sem bent gætu til staðsetningar Borgarhóls, enda landið allt farið undir jökul á 19. öldinni. Hugsanlegt er að ábúendur Borgarhóls hafi verið taldir búa á Felli einhver árin á 2. eða 3. býli. Þórbergur Þórðarson segir: „Það var margt í Fellslöndum, sem tortímingin hafði rutt í burt eða grafið í urð og þögn í æsku minni.“[2] Þórbergur segir einnig: „Borgarhóll var einhvers staðar í sléttunni í suður frá Felli, nær bænum en Fellssel. Þar hefur verið hóll og líklega fjárborg nálægt honum, sem hóllinn dregur nafn af, og svo hefur bærinn fengið nafn af hólnum. Hann var í byggð 1783 en kominn í eyði 1793 fyrir uppblástur og ágang Veðurár, segja heimildir.“[2] Þessar heimildir bera þess merki að ekkert var vitað um staðsetningu býlisins og eru getgátur þeirrar kynslóðar.
Við manntal 1703 eru ábúendur á Borgarhól: Jón Vigfússon f. 1670 og Þórdís Jónsdóttir f. 1669, sjá nánar Manntal 1703.[3] Meðal barna Jóns og Þórdísar er Steinunn f. 1705, móðir Jóns Eiríkssonar konferesráðs og hans systkina, einnig Vigfús Jónsson prestur að Stöð í Stöðvarfirði . Vigfús kenndi Jóni til skóla og samdi einnig Vigfúsarhugvekjur sem mikið voru hafðar til húslestra á föstunni.
1721 er býlið skráð í byggð.[4]
1735: Við bændatal þetta ár er skráður þar Stefán Jónsson f 1689. Um hann er lítið vitað. Er í foreldrahúsum á Borg 1703. Kona hans Oddný Jónsdóttir.[4]
1753: ef til vill Páll Salómonsson, hann er skráður á 2. býli á Felli en einnig á Borgarhól.[4]
1755: ef til vill faðir Guðrúnar Sigurðardóttur, f. 1755. Hún er skráð fædd á Borgarhól.[4] Kona Bjarna Þorvarðarsonar.
1759-1761: Magnús Salómonsson, f. 1720 bróðir Páls Salómonssonar Um hann er lítið vitað og kona hans skráð því undarlega nafni Fides Eiríksdóttir f 1726. Steingrímur biskup skráir að þau hafi ekki átt barn. Magnús bjó fyrr í Prestsbakkakoti á Síðu, fór að Hnappavöllum.[4]
1762-1763: Daði Jurinsson, f. 1718. Faðir: Jurin Jónsson, f. 1691. Upprunninn í Suðursveit, bóndi á Kálfafelli 1759-62 og á Borgarhól 62-63 (44 ára 1762). Kona Daða var f. 1724. Börn hjá þeim 1762: dóttir, f. 1741, sonur, f. 1758. Daði kom frá Kálfafelli, hann er síðasti nafngreindi bóndinn á Borgarhól.[4]
Í Byggðasögunni er sagt að heyrst hafi að býli þetta hafi staðið vestur með Fellsfjalli og tekið skyndilega af. [1]Vitnað er í ummæli Þórðar Jónssonar á Kálfafelli f 1850 að þar hefðu þá búið tveir Sesseljusynir, hefðu þeir flust að Kálfafelli með nokkrar kindur og tvo rauða hesta, góða gripi. Á þessum gripum hefði verið sýlt á báðum eyrum og hafi það mark síðan haldist á Kálfafelli.[1] Undrar Þorsteinn Guðmundsson sig á hve lítið er vitað um endalok Borgarhóls og þessi saga hans er ef til vill í þjóðsögustíl. Merkilegt er að Sveinn Pálsson fjallar ekkert um Borgarhól þegar hann er á ferð um Breiðamerkursand 1793 og 1794. Þá virðist býlið vera farið í eyði og undir jökul, en hann minnist ekki á neinar sagnir þar um. Í skrá um eyðijarðir í Austur Skaftafellssýslu frá 28. sept. 1793 eftir Jón Helgason sýslumann í Hoffelli segir að Borgarhóll hafi farið í eyði eftir 1783.[4] Borgarhóll er ekki sagður í byggð í búnaðarskýrslum Jóns Helgasonar frá 1786 – 1800.[4]
Heimildir
[1] Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[2] Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[3] Manntal á Íslandi árið 1703, (1924-1947). Tekið að tilhlutun Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Reykjavík: Hagstofa Íslands.
[4] Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.