Ítarefni

Borgarhöfn

Þessi byggð, sem ég kom þarna í fyrsta sinn í, hét Borgarhöfn. Það var mikið nafn, en það verkaði alltaf á mig eins og spéheiti. Þar var sem sé engin höfn. Og hver var borgin? Fólkið, sem þar bjó var kallað Borghefningar og Suðursveit Borgarhafnarhreppur, þegar menn töluðu um hreppsómaga. Þarna var víst þingstaður hreppsins, en það var áður en ég mundi til.

Borgarhöfn var í austur til austurnorðausturs frá Þorpinu og um það bil hálftíma gangur milli byggðanna. Þar rann Staðará á milli og mjóir aurar beggja megin við hana.

Borgarhafnarbæirnir voru átta á mínum fyrstu árum þar eystra. Sex stóðu stutt hver frá öðrum í hlýlegum króki, suðaustan undir lágu felli og suðvestan undir hærra fjalli, Borgarhafnarfjalli. Vestasti bærinn hét Ekra og stóð framan í fellinu. Hún var komin í eyði, áður en ég fór að heiman. Lítinn kipp fyrir austan hana voru Suðurhús, suðaustan í fellinu neðst. Það voru gömul munnmæli í Suðursveit, að þar hefði verið fyrsta byggð í Borgarhöfn. En gömul munnmæli, — hvað er leggjandi upp úr þeim?

En viti menn! Fyrir skömmu hnaut eitthvert verkfæri um eitthvað grunsamlegt niðri í Jörðinni í námunda við Suðurhúsabæinn. Þá var farið að róta betur til. Og sjá! Þarna koma menn niður á ævarfornt steinker. En það hefur víst ekki verið grafið þarna meira. Það eru sterkar líkur til, að þarna sé fundinn bær Hildis hins gamla, sem Njála segir, að búið hafi í Borgarhöfn og hafi verið faðir Glúms, sem fór með Flosa til að leggja grundvöllinn að Brennu-Njáls sögu.

Stutt fyrir austan Suðurhús voru Lækjarhús. Á milli bæjanna féll lítil á í laglegum klettagljúfrum. Hún kom ofan úr Bæjardal og rann í mörgum bugðum niður Borgarhafnarland út í lónið. Hún prýddi þorpið og lífgaði upp. Það var gaman að horfa á tunglið spegla sig í henni á kvöldin.

Skammt fyrir austan Lækjarhús stóðu tveir bæir hlið við hlið. Þeir hétu Gamligarður, en lítið spottakorn fyrir sunnan Lækjarhús var Neðribær.

Fyrir vestan eða suðvestan fellið, vestur undir Staðará, upp undir tuttugu mínútna gang fyrir vestan Suðurhús. stóð bær, sem hét Græntangi, þegar ég mundi fyrst eftir. Hann var fallinn í eyði, þegar ég fór úr Suðursveit.

Þá voru Vagnsstaðir. Þeir stóðu úti í landinu fyrir sunnansuðvestan Neðribæ, og var um tólf minútna gangur á milli bæjanna. Það var stutt út að lóninu frá Vagnsstöðum, og þar var það aftur orðið breitt.

Í Borgarhöfn voru fleiri bæir fyrr meir. Krókur hét bær fyrir mitt minni skammt fyrir austan Gamlagarð. Hann var aftur kominn í byggð um það leyti, sem ég skyldi við Suðursveit. Girðingin var stutt fyrir vestan Ekruna. Ég heyrði oft talað um hann Sigurjón í Girðingunni og kynntist honum löngu seinna. Það varð mikil saga. Kriki hafði staðið út með Staðará. Hann var líka kallaður Krikabakki og Kríkarbakki. Og ekki má ég gleyma Helluhrauni, suð-vestur af Vagnsstöðum, úti undir lóninu. Það varð mikið útsýni aftur í tímann, þegar hann Jón í Helluhrauni bar á góma í rökkrinu.

Mér fannst landslagið í Borgarhöfn öðruvísi en það ætti að vera, þegar ég kom þar í fyrsta sinn. Það var svo alólíkt landslaginu fyrir sunnan Sand. Þar var það reglulegt, eins og það hefði verið hugsað fyrir fram. En í Borgarhöfn sýndist mér það vera allt á úi og strúi og engin fyrirframhugsun í neinu. Það átti illa við mig. En ég vandist þessu þó með tíð og tíma, og þá fór mér að þykja skemmtilegt í Borgarhöfn.

Þórbergur Þórðarson Í Suðursveit ; Mál og menning 1981

Þórbergur Þórðarson Í Suðursveit ; Mál og menning 1981

Scroll to Top