Ég man vel, þegar ég kom í fyrsta sinn í byggðarlagið, sem var næst fyrir austan Þorpið. Ég held faðir minn hafi sent mig þangað í einhverjum erindum, ég man ekki hverjum. Ekki man ég, hvað ég var þá margra ára, en ég var kominn það til manns, að ég gat farið þetta einn, þó að það væri hátt á þriðja tíma gangur og fjögur vötn á leiðinni auk Steinasands. En vötnin voru víst lítil, því að þetta var annaðhvort seint um haust eða mjög snemma vetrar. Ég man það af blænum á tímanum, og þá var alltaf lítið í vötnunum, ef ekki rigndi mikið.
Ég man líka eftir blænum á veðrinu. Hann var svoleiðis, að það hefur verið þykkt loft og ekkert sólskin, en stillt og gott veður og bykknið ekki þykkt. Það var ákaflega djúp og hreyfingarlaus haustþögn alla leiðina. Mér gekk samt ekki vel að hugsa. Það var eins og öll tilveran stæði á hleri.
Mér var boðið inn á bænum, sem ég var sendur á, en ég man ekki, hver gerði það. Ég kom inn í baðstofu, sem mér fannst skelfing lítil, og settist á rúm frammi við glugga vestanmegin. Austanmegin, beint á móti mér, lá kona í rúmi, og það var ósköp stutt frá mér að rúminu. Ég heyrði oft talað um hana og vissi, að hún hafði legið rúmföst í mörg ár. Hún var samt ekki gömul, og það var sagt hún væri ekki mikið veik, en henni fannst hún geta aldrei verið á fótum. Mig minnir hún vera heldur lagleg, þó að mér fyndist reyndar á þeim tímum engin kona lagleg nema móðir mín. Mér varð starsýnt á hendurnar á henni. Hún var með þær upp undan sænginni. Þær voru laglegar í lögun, og það var eins og það væri engin bein í þeim. Ég horfði mikið á þær. Svona hendur hafði ég aldrei séð fyrir sunnan Sand og ekki heldur í Þorpinu og aldrei á fólki utan úr Öræfum. Ég man ekki, hvort hún sagði nokkuð við mig. Eg hef áreiðanlega ekkert sagt við hana að fyrra bragði, og ekkert sagt við neinn á heimilinu, nema það, sem ég hef átt að skila eða var spurður um, og ég hef verið fljótur að segja það. Ég hef setið þegjandi á rúminu og einblínt á hendurnar á konunni. Ég er viss um, að fólkið hefur hugsað: „Ja ekki er á hann logið.“ Ég var feiminn þar sem ég kom ókunnugur. Ég hélt, að allt sem ég segði, hlyti að vera heimskulegt, og móðir mín hafði áminnt mig um að vera ekki framur á bæjum. Það var ekkert, sem ég var eins hræddur við og heimskuna, það er að segja heimskuna í sjálfum mér. Mér fannst allir vera vitrari en ég þó að ég væri gefinn fyrir að reikna út og mæla. „Það skyldu þó ekki vera fávitaeinkenni?“
Mér leið ekki vel, þar sem ég sat á móti þessari sjúku manneskju. Það verkaði veikindalega á mig. Mér fannst allt vera veikt í kringum mig, og það setti að mér óyndi. Mig langaði heim. Ég var alltaf að hugsa: „Það væri hræðilegt á Hala, ef hún mamma lægi sona veik.“ Ég varð feginn, þegar ég var búinn að éta góðgerðirnar og gat kvatt fólkið.
Mig minnir ég fara þessa ferð fótgangandi. Þegar ég kom heim fannst mér sálin í mér hafa vaxið af að hafa farið svona langa leið á þriðja klukkutíma gang, yfir fjögur vötn, fram hjá nokkrum huldufólksbyggðum og einu nykurvatni, yfir langa, hlerandi eyðimörk, þar sem sézt hafði veltandi eldhnöttur og óskiljanlegt tryppi, og svo að hata séð ókunnugt byggðarlag, allt aleinn og upp á eigin ábyrgð. Þetta var afrek. Mér fannst ég vera að byrja að verða mikill maður.
[1] Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning. bls 224 -225