Fell
Bakki
Á Breiðamerkursandi voru nokkur býli sem teljast víða í heimildum hjáleigur Fells. Vitneskja um staðsetningu þeirra er glötuð nema vitað er um býlið Bakka. Það stóð í austur frá bæjarhúsum á Felli, við bakka Fellsár. Þar sjást enn veglegar tóftir og var búið þar samkvæmt manntali 1703. Bakki er talinn með bújörðum í Jarðabók Ísleifs Einarssonar 1709 og er það hið síðasta sem vitað er um hjáleigu þessa.[1] Vera má að búið hafi verið lengur á Bakka og það talið eitt af býlum Fells á 18. öld. Oftast var tvíbýli á Felli en einnig er dæmi um þríbýli um tíma. Þórbergur segir að Bakki hafi staðið 150 faðma í austurnorðaustur frá Fellsbænum. Þar sáust ennþá tættur á grasi grónum bakka, sem kallaður var Fellsbakki. Sú jörð mun hafa lagst fyrst í eyði af hjáleigum Fells.[2] Vekur það furðu, ekki síst vegna þess hversu greinilegar bæjarhúsatóftir er þar að finna, virðast þær ekki svo gamlar að sjá í samanburði við lágreistar tóftirnar af Fellsbænum.
Antasel
Annað fornt býli á Breiðamerkursandi er Antasel. Litlar heimildir eru um býlið aðrar en lýsir í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu, að bærinn hafi staðið í norðvestur frá Hrollaugsshólum.[3] Þar er lítill klettur er ber sama heiti. Talið er að Antasel hafi verið komið í eyði fyrir upphaf 18. aldar, þess er ekki getið í manntali frá 1703 eða síðar. Heimildir skortir um upphaf búsetu og ábúendur í Antaseli.
Heimildir
[1] Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[2] Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[3] Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
Manntal 1703
Nafn | Starfsheiti | Aldur | Kýr | Kvígur | Naut | Kálfar | Ær | Lömb | Sauðir | Hross | Yngri ó | Athugasemd |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Guðbrandur Guðmundsson | Búandi | 46 | 3 | 2 | 3 | 2 | 2 | 1 | Guðbrandur er bóndi hér 1703-07, börn hans önnur en hér eru talin, Ragnheiður f 7011, Auður,Einar | |||
Ragnhildur Jónsdóttir | Hans kona | 30 | ||||||||||
Sæbjörg Guðbrandsdóttir | ómagi | 10 | Sæbjörg er búsett í Borgarhöfn 1753, þar gæti hún staðið fyrir búi, tíundaði 6 hundruð í lausafé það ár | |||||||||
Oddný Guðbrandsdóttir | ómagi | 3 | Oddný giftist í Suðursveit 17.4 1724, maður Eyjólfur jónsson f. 1699? | |||||||||
Sigríður Jónsdóttir | ómagi | 24 | Sigríður talin systir húsmóður |