Frá Steinum og Sléttaleiti í Suðursveit
Erindi sem Benedikt Þorsteinsson frá Sléttaleiti flutti á ættarmóti sem niðjar Þorsteins Jónssonar og Þórunnar Þórarinsdóttur héldu. Þorsteinn og Þórunn bjuggu á Sléttaleiti 1908 – 1935 ásamt börnum sínum.Heimildir greina frá að með vissu hafi verið búið í Steinum frá árinu 1600 og sennilega nokkuð lengur. Upphaflega hafa Steinar verið í landnámi Hrollaugs Rögnvaldssonar sem nam land í Hornafirði og bjó fyrst undir Almannaskarði og síðar á Breiðabólsstað. Ýmis örnefni í landi Steina og Breiðabólsstaðabæja benda til að Papar eða aðrir kristnir menn hafi búið þar áður svo sem eins og Papbýlisfjall sem síðar nefndist Breiðabólsstaðarfjall eða Staðarfjall. Sögur herma að í Steinum hafi oft búið uppgjafaprestar frá Kálfafellsstað og stundum prestsekkjur. Steinar þóttu góð bújörð og henni fylgdu ýmis hlunnindi svo sem sjávarfjara alllöng, skógur á Steinadal, grastekja í Hvannadal, silungsveiði í Lóninu og ekki síst voru talin hlunnindi að fram með bæjarveggnum rann lækur ofan úr brekkunni og út í Lónið