Ítarefni

Sléttaleiti í Suðursveit

Sléttaleiti 2003 (ljósmynd Kristinn Heiðar Fjölnisson)

Þegar ekið er eftir þjóðveginum þar sem hann liggur meðfram Steinafjalli í Suðursveit undra sig margir á bæjarstæði upp í hlíðinni þar sem við blasa rústir af gömlu eyðibýli, Sléttaleiti. Nafnið hljómar sem öfugmæli enda stendur bærinn í brattri fjallshlíð undir hrikalegum hömrum.

Um nafnið hefur varðveist eftirfarandi vísa:

Sléttaleiti skilst mér síst að heiti betur 
færi, ef Brattahlíð
bærinn nefndist sína tíð.

Sléttaleiti stóð í sléttri og nokkuð brattri brekku uppi undir miðri fjallshlíðinni, talsverðan spöl fyrir austan Markaleiti. Þangað var tæpur hálftíma gangur frá Hala. Þar var útsýni mikið og fagurt til austurs og suðvesturs og langt út á sjóinn. En fyrir ofan bæinn voru háir klettar og stutt upp að þeim, af því að fjallshlíðin var lægri, þegar austur eftir dró en vestar með fjallinu. Það hrapaði öðru hverju úr klettunum og áður en minnst varði birtust nýstárlegir steinar í brekkunni, stundum með skellum og skruðningum, stundum hljóðir eins og svipir úr öðrum heimi. Þar var stór steinn við veginn, sem bjart ljóst sást í.

Þórbergur Þórðarson: 1975 Í Suðursveit bls 121

Síðustu ábúendur á Sléttaleiti voru hjónin Sveinn Mikael Einarsson( f. 1900 d. 1988) og Auðbjörg Jónsdóttir( f.1896 d. 1993) sem bjuggu þar ásamt börnum sínum Bjarna Sveinssyni og Guðrúnu Sveinsdóttur. Sveinn og Auðbjörg flytja að Sléttaleiti árið 1935 og búa þar til 1951, er þau flytja að Dynjanda í Nesjum og síðan á Höfn. Sveinn var sonur hjónanna Einars Pálssonar og Guðnýjar Benediktsdóttir frá Sléttaleiti. Guðný var dóttir Benedikts Einarssonar frá Brunnum og Ragnhildar Þorsteinsdóttur skipasmiðs. Benedikt var bróðir Guðnýjar á Hala, ömmu Þórbergs Þórðarsonar. Auðbjörg var dóttir Jóns Guðmundssonar bónda í Suðurhúsum í Borgarhöfn sem var sonur Guðmundar Jónssonar frá Skálafellsseli og Snjólaugar Jónsdóttur systur Eymundar í Dilksnesi, en móðir Auðbjargar var Guðrún Bergsdóttir systir Árna Bergssonar í Svínafelli í Nesjum.

Á undan Sveini og Auðbjörgu bjuggu á Sléttaleiti hjónin Þorsteinn Jónsson ( f. 1876 d 1947) og Þórunn Þórarinsdóttir frá Breiðabólsstað (f. 1887 d. 1958.) Þau bjuggu á Sléttaleiti frá 1908 til 1935 er þau flytjast til Hafnar. Þorsteinn var sonur Steinunnar Stefánsdóttur, dóttur Auðbjargar Sigurðardóttur á Brunnum og seinni manns hennar Stefáns Jónssonar. Faðir Þorsteins var Jón Þorsteinsson bóndi á Sævarhólum í Suðursveit. Foreldrar Þórunnar voru Þórarinn Steinsson bóndi á Gerði og síðar Breiðabólsstað og Guðleif Benediktsdóttir eiginkona hans. Þórarinn var bróðir Þórðar, föður Þórbergs Þórðarsonar en þeir voru synir Gamla Steins á Breiðabólsstað og Lúcíu Þórarinsdóttur fyrri konu hans. Guðleif var systir Önnu, móður Þórbergs, þær voru dætur Benedikts Þorleifssonar frá Hólum og Guðnýjar Einarsdóttur frá Brunnum. Þegar þau flytja á jörðina var hún eign Kálfafellsstaðarkirkju, en Þorsteinn og Þórunn kaupa jörðina árið 1920 og eftir það er hún í bændaeign.

Sveinn var fæddur á Geirsstöðum á Mýrum, en var komið í fóstur ársgömlum til Bjarna Runólfssonar og Steinunnar Jónsdóttur á Kálfafelli og kallaði hann þau alltaf fóstru og fóstra og Þórhall Bjarnason bónda á Breiðabólsstað fósturbróðir sinn. Sveinn var vinnumaður á Breiðabólsstaðarbæjum og síðan ráðsmaður á Reynivöllum hjá Guðrúnu Eyjólfsdóttur þegar maður hennar Sigurður Sigurðarson deyr 1928. Auðbjörg var vinnukona í Stórulág í Nesjum um svipað leyti, en þau gifta sig síðan árið 1931 og Guðrún dóttir þeirra fæðist að Reynivöllum 1932. Bjarni sonur þeirra er fæddur 1934 að Sandfelli í Öræfum, en þar bjuggu þau í þrjú ár. Þegar Þorsteinn Jónsson og Þórunn Þórarinsdóttir flytja frá Sléttaleiti á Höfn voru Sveinn og Auðbjörg að leita sér að jarðnæði, kaupa þau þá jörðina um vorið á 2400 krónur. Sveinn flytur á slóðir forfeðranna, og velur búsetu í nábýli við frændur sína og vini í Suðursveit.

Sléttaleiti var að mörgu leyti góð bújörð. Henni fylgdu mikil hlunnindi svo sem reki á Sléttaleitisfjöru, silungur úr Breiðabólsstaðarlóni, fiskur þegar róið var og skógarítak og beit á Steinadal. Sléttaleitistúnið var ekki stórt, en grasgefið og þurfti góðan þurrk til að geta hirt af því heyið. Teigarnir neðan við bæinn voru slegnir, en einnig var skorið birki handa kúnum og þær fóðraðar á því með heyi. Djúpugrófarteigar niður af Djúpugrófargili, austar og neðar en Sléttaleitisbærinn, voru mjög grasgefnir með góðri stör. Helsingi sótti mikið í störina í Djúpugrófarteigum vor og haust. Þorsteinn á Sléttaleiti sló inn á Fellsmýri á Steinadal og einnig var sóttur heyskapur í Kálfafellsstaðarengjar, þó mun Sveinn ekki hafa heyjað þar í sinni búskapartíð. Álög voru hins vegar á Steinahæðinni, þar mátti ekki slá enda var því trúað að þar byggi huldufólk. Sveinn sló hana samt einu sinni, en ekki er vitað hvort skaði hlaust af. Ekki mátti heldur nytja Borgarlandið, sem er syðst á svokölluðu Steineyjum, vestan Steinavatna, samanber eftirfarandi vísa sem eignuð er Ingimundi Þorsteinssyni sem bjó í Steinum þegar bæinn tók þar af árið 1829.

Látt’ ekki í Borgarlandi heyja lukkunar daga ef viltu sjá,
látt’ heldur grasið loðið deyja
En leggur þú þar höndur á.
Því ungbarn við heiminn skilja skal skortir á liðugt áratal.

Á Sléttaleiti eru miklar og merkilegar búsetuminjar frá öndverðri 20 öld. Íbúðarhúsið sem var að hruni komið var rifið sumarið 2003 og Guðrún Sveinsdóttir reisti sumarbústað sama ár á þeim stað sem gamli bærinn stóð. Sumarið 2003 var ráðist í það verkefni að taka myndir og skrá allar búsetuminjarnar sem tilheyra Sléttaleiti. Hluti af því verkefni er birt á Þórbergsvefnum. Annað verður varðveitt í Þórbergssetri til fróðleiks þeim sem seinna munu ganga um hlað á Sléttaleiti og rýna í gamlar rústir og hleðslur og velta fyrir sér löngu horfnum atvinnuháttum og handbrögðum þess fólks sem bjó á Sléttaleiti fyrri hluta 20. aldarinnar. Guðrún Sveinsdóttir rölti með undirritaðri um tún og engi á Sléttaleiti og er hún aðalheimildamaður þessa verkefnis. Jóhanna Þorsteinsdóttir, yngsta dóttir Þorsteins og Þórunnar á Sléttaleiti gekk einnig um allar tættur með undirritaðri og sagði frá bernskuárunum á Sléttaleiti. Þar með tókst að bjarga frá glötun vitneskju um húsaskipan og búskaparhætti tengda hverri tótt. Til að fylla enn frekar í þessa mynd er í bókinni, Þá var öldinni önnur, fyrsta bindi eftir Einar Braga rithöfund, skemmtileg frásögn af sumardvöl hans hjá Sveini móðurbróður sínum á Sléttaleiti og Auðbjörgu konu hans.

Sléttaleiti (íbúðarhús burst nr 1, fjós nr. 2 og hliðarhús nr 3;ljósm. Kristinn H. Fjölnis)

Þegar Sveinn og Auðbjörg flytjast að Sléttaleiti 1935 var þar torfbær og þau búa í honum til 1940. Það ár byggja þau steinsteypt hús, fyrst burstina, en síðan skúrhús við hliðina árið 1941. Mölin í steypuna var flutt utan af fjöru árið áður á kerru yfir Breiðabólsstaðarlónið á ís. Tyrft var yfir malarhauginn og mölin geymd til næsta árs þegar hafist var handa við bygginguna Tré rak á Sléttaleitisfjöru sem notað var í burðarviði og söguðu þau hjón, Sveinn og Auðbjörg það með stórviðarsög. Húsaskipan var þannig að gengið var inn í hliðarhúsið og þar var svolítil forstofa. Úr forstofunni var gengið inn í eldhúsið sem var í suðurstafni burstarinnar, en úr eldhúsinu lá stigi upp á loft. Þar voru tvö herbergi, í fremra herberginu sváfu hjónin og Guðrún, en í því nyrðra svaf Bjarni. Þar voru tóvinnutækin, prjónavél og saumavél.

Sléttaleiti ( hlaða nr.7, hrútakofi nr 8, hænsnakofi nr 9, vindmylla á steini nr 6; ljósmynd K.H.F. )

Fjósið var innan við eldhúsið og gengið inn í það úr hliðarhúsinu, en kýrnar gengu inn um dyr á austurveggnum. Flórinn var við suðurvegginn en stallur fyrir heyið við norðurvegginn. Búr var í norðvesturhorni skúrhússins, en lítil stofa við vesturvegginn með glugga fram á hlaðið.

Íbúðarhúsið var byggt undir stórum steini sem sagt er að hafi verið þarna í hlíðinni þegar bærinn fluttist frá Steinum að Sléttaleiti árið 1829 – 1830. Steinninn átti að hlífa íbúðarhúsinu fyrir grjóthruni ofan úr fjallinu og var baðstofan í gamla bænum fast undir honum. Sveinn steypti ofan á steininn undirsstöður undir vindmyllu sem Skarphéðinn Gíslason á Vagnstöðum aðstoðaði hann við að reisa uppi á steininum. Hún framleiddi rafmagn á rafgeyma og dugði það oftast fyrir ljósum í bæinn.
Bak við íbúðarhúsið var kúahlaðan, heyið var sótt í hana og borið í pokum eftir mjóum tröðum norðan við íbúðarhúsið og inn í fjósið að austan. Vestan við hlöðuna sér til tveggja lítilla tótta, þar voru hrútakofinn austar og hænsnakofinn vestar.

Húsaskipan heima við bæinn var svipuð þegar Jóhanna Þorsteinsdóttir var að alast upp á Sléttaleiti nema skemman var þá nýtt sem hlaða. Jóhanna mundi eftir fjárhúsi og litlu hesthúsi beint fram af bænum þar sem þjóðvegurinn er nú.. Heygarður var austan við hlöðuna á bak við bæinn, á milli hlöðunnar og stóra steinsins.

Sléttaleitisbærinn var alltaf í hættu fyrir hrapi úr klettunum nema baðstofan. Hún hafði verið byggð neðan undir stærðarbjargi, sem tók af henni hraphættuna ofan frá. Enginn vissi, hvenær sá steinn hafði komið. Stundum hlupu skriður á túnið í aftakarigningum. Í slíkum veðrum kom það fyrir, að fólkið flúði vestur á Breiðabólsstaðarbæi, af því það var hrætt við að skriða gæti komið á bæinn.

Þórbergur Þórðarson;1975 Í Suðursveit bls. 121
Sléttaleiti ( skemma nr. 10, útihús neðar og austar nr. 21,22,23; ljósmynd K. H. F )

Vestan við íbúðarhúsið var skemma með stafn fram á hlaðið. Hún var með timburlofti. Niðri voru geymd reiðtygi og áhöld en uppi mjöl og kornmatur. Gengið var inn á skemmuloftið að norðan. Neðan og austan við bæinn eru tættur af útihúsum, vestast er hlaða sem Sveinn byggði, en einnig lambhús og fjárhús sem voru þar þegar Þorsteinn bjó á Sléttaleiti. Jóhanna taldi að faðir sinn hefði lítið byggt meðan hann bjó á Sléttaleiti og hleðslurnar í útihúsunum eru því trúlega að stofni til eldri en frá hans búskapartíð.

Bústofn Sveins og Auðbjargar taldi mest 70 – 80 ær, 2-3 kýr, vetrung, hesta og hænur. Fjölskyldan lifði á því sem búskapurinn og náttúran gáfu. Saltfiskur mun hafa verið aðalfæðan árið um kring, kjöt var e.t.v. einu sinni í miðri viku og um helgar. Silungurinn úr Breiðabólsstaðarlóninu var kostafæða og þegar var verið að heyja í Teigunum niður við Lónið var gjarnan lagður netstúfur út frá bakkanum og þá veiddist silungur sem dugði í soðið þann daginn.

Sléttaleiti ( taðkofi nr.4 smiðja nr 5 vindmylla og steinn nr 6; ljósmynd K.H.F.)

Austan við bæinn var taðkofinn og útieldhús með hlóðum. Þar var slátrið soðið á haustin. Ofan við taðkofann er smiðjan. Að baki hennar á þessari mynd sést steinninn sem bærinn stendur undir. Steinn þessi er nafnlaus, en ýmsir hafa heyrt einkennileg hljóð frá honum, einhvers konar dump líkt og að mör væri barinn með steinsleggju. Jóhanna sagðist oft hafa leikið sér við steininn og ofan við hann.
Framan við bæinn var stór hlaðinn garður. Austan við miðju í garðinum eru tveir stórir steinar. Rabbabari var ræktaður í norðvesturhorninu en öskuhaugurinn var í norðausturhorninu. Neðan til í garðinum var ræktað kál, kartöflur og gulrófur. Ofan við, dálítinn spöl frá bæjarhúsunum eru líka garðhleðslur og allstór afmarkaður reitur. Guðrún man ekki eftir að sá garður væri nytjaður, en Jóhanna sagði að þar hefðu foreldrar sínir ræktað kartöflur.

Bærinn á Sléttaleiti var færður frá Steinum 1829 – 1830. Síðasti ábúandi í Steinum var Ingimundur Þorsteinsson frá Felli (f.1794 d. 1846) og kona hans Helga Bjarnadóttir( f 1799) frá Skaftafelli, ein af ellefu Skaftafellssystrum. Ingimundur virti að vettugi álög á jörðinni um að þar mætti ekki hreyfa við heygarðinum eða lagfæra húsakynni. Bætti hann húsakost á jörðinni og skopaðist af hjátrúnni. Það urðu örlög hans og fjölskyldu hans að þurfa að flýja bæinn eina óveðursnótt í júli vegna vatnavaxta, hlaups og grjóthruns úr fjallinu. Færðu þau bæinn að Sléttaleiti ári síðar og var búið þar samfellt til ársins 1951 þegar Sléttaleiti lagðist í eyði. (Sjá nánar í grein Benedikts Þorsteinssonar sem er einnig á Þórbergsvefnum)

Sléttaleiti ( hesthús, sumarfjós nr. 16, skítagryfja nr 17: heimreið nr 18 ljósmynd K.H.F.)
Sléttaleiti(haughús nr. 24; K.H.F)

Heimreiðin heim að Sléttaleiti er hlaðin og rétt ofan við hana í vesturátt frá bænum er hesthústóttin. Þar voru hestarnir á veturna, en á sumrin fluttu kýrnar úr bænum yfir í hesthúsið og var það þá kallað sumarfjósið. Rétt neðan við hesthústóttina er lítil niðurgrafin tótt, ferköntuð og kantarnir vel hlaðnir allan hringinn með stórum steinum. Þar var skítagryfjan frá hesthúsinu. Hrossataðinu og kúamykjunni var mokað þar ofan í til að það rynni ekki burt undan hallanum í rigningartíð og nýttist sem best. Samskonar tótt er ofan við heimreiðina dálítinn spöl austan við bæjarhúsin, en þar var mykjan úr kúnum geymd þangað til hún var borin á túnin á vorin. (sjá mynd)

Smiðjan á Sléttaleiti er eina húsið á Sléttaleiti frá búskapartíð Sveins og Auðbjargar sem enn stendur uppi. Einar Bragi segir svo frá í bók sinni, Þá var öldin önnur, að þegar Sveinn hafi selt jörðina hafi hann farið fram á það við nýja eigendur að smiðjunni yrði haldið við.,,Já einhvern veginn langaði mig að smiðjan fengi að standa,” sagði Sveinn ( Einar Bragi; Þá var öldin önnur I bls. 43; 1973) Ekki er vitað fyrir víst hver byggði hana, en ætla má að fyrsti bóndinn á Sléttaleiti hafi strax byggt sér smiðju og að stofni til sé hún ef til vill frá því um 1830. Víst er að Ingimundur Þorsteinsson var listasmiður, en einnig Þorsteinn Sigurðsson skipasmiður, langafi Sveins, sem dvaldist í skjóli dóttur sinnar Ragnhildar, ömmu Sveins, en hún bjó þar á árunum1874 – 1884 og 1885- 1887. Það hefur verið af tryggð við þessa völundi og forfeður, sem Sveini hefur runnið svo sterkt blóðið til skyldunnar, en án efa hafa líka verið erfið sporin þegar hann neyddist til að bregða búi og kveðja Sléttaleiti fyrir fullt og allt, og hann viljað að smiðjan yrði minnisvarði þeirra er þar erjuðu jörðina í 122 ár.

Það var síðan fjórtán ára hestastrákurinn á Sléttleiti sem galt frænda sínum Sveini samveruna frá sumrinu 1935 með þvi að endurbyggja smiðjuna á Sléttaleiti, þegar hún var fallin. Ljóst er að þar hafa ráðið sterk átthagatengsl og einlæg ást Einars Braga til sveitarinnar, forfeðranna og frænda síns Sveins. Þökk sé Einari Braga fyrir að taka upp hanskann fyrir núverandi eigendur jarðarinnar á svo eftirminnilegan hátt, og stuðla að varðveislu merkara menningarminja. Hver veit nema heyra megi hamarshöggin í smiðjunni á Sléttaleiti ef gengið er þar um hlaðið og huganum hvarflað til genginna kynslóða.

Sléttaleiti( hlaða nr. 25, fjárhús nr 26; ljósmynd K.H.F.)

Neðan heimreiðarinnar, austan og neðan við bæjarhúsin á Sléttaleiti eru þrjár útihúsatættur. Vestast er hlaða sem Sveinn byggði og sést á myndinni hér að ofan. Þar má vel sjá hversu góður hleðslumaður Sveinn hefur verið og sterkir kamparnir við innganginn eru greinilegir Austar fast við hliðina á hlöðunni eru tvær eldri fjárhústættur sem Þorsteinn nytjaði og eru þær meira grónar. Í austasta húsinu er baðþró fyrir sauðfé, sem hefur verið steypt í tíð Sveins á Sléttaleiti, Sveinn hlóð einnig upp fjárhústætturnar og endurbætti. ( sjá neðri mynd)

Sléttaleiti( fjárhús nr. 26, fjárhús með baðþró nr 27; ljósmynd K.H.F.)
Sléttaleiti ( fjárhús með baðþró nr. 27; ljósmynd K.H.F.)

Í austustu fjárhústóttinni eru þungir járnhlunkar sem hafa verið notaðir sem sig til að halda þakinu niðri til að draga úr fokhættu.

Á Sléttaleiti komu oft vond veður, hvassviðri með snörpum byljum sem stundum komu beint úr suðri, þannig að Lónið rauk upp á bæinn. Jóhanna Þorsteinsdóttir mundi vel eftir einu slíku veðri þegar hún var barn. Stórir steinar voru hafðir í sig á þakinu á gömlu baðstofunni, en þrátt fyrir það fauk þakið allt af baðstofunni. Einn stóri steinninn fauk í vegginn á móti rúminu hennar Þóru systur hennar og hékk síðan í vírnum niður úr þekjunni. Heimilisfólkið flúði niður í fjósið og hafðist þar við um nóttina.

Þó að Sléttaleiti hafi verið hlunnindajörð hefur nábýlið við fjallið verið ábúendum á Sléttaleiti erfitt. Skriður féllu og stakir steinar hröpuðu ofan úr fjallinu og má það kallast mikil mildi að aldrei hlutust slys af. Sveinn hlóð garð ofan og vestan við bæinn til að verjast skriðuhlaupum úr fjallinuog er það mikið mannvirki.

Jóhanna mundi eftir stórri skriðu sem kom á milli hesthússins og bæjarins og kastaði aur yfir túnið. Hún sagði að alltaf hefði þurft að tína steina og hreinsa túnin á vorin. Árið 1918 skrifar Þorsteinn á Sléttaleiti faðir Jóhönnu, Þorleifi Jónssyni bréf og bað hann um liðsinni. Þar segir:

Rjett fyrir Páska kom stórt hrap hérum bil af brún, en af því að jörð var þá þíð ristu björgin svo djúpt niður í jörðina að þau stöðvuðust ofan við bæinn en hefði þetta komið fyrir á gaddi er ekki annað hægt að sjá en það hefði lent beina leið á bæinn.

Bréf Þorsteins Jónssonar til Þorleifs Jónssonar 6. apríl 1918 Saga Hafnar bls 85 – 86 1997
Sléttaleiti( yfirlitsmynd ofan úr brekkum, hlaðinn garður nr 19; ljósmynd K.H.F)

Steinþór Þórðarson bóndi á Hala segir svo frá í bók sinni Nú, nú, árið 1969. ,, En svona hefur nú heppnin verið með, að aldrei kom steinkast á þennan bæ, meðan hann var í byggð. En nú var það í fyrravor, þá kemur steinkast. Og þá fer inn í eina tóftina í gamla bænum einn steinninn, og hoppar út um dyrnar og niður fyrir gamla kálgarðinn, sem var framan við hlaðvarpann, svoleiðis að ef byggð hefði verið á Sléttaleiti, þegar þetta gerðist, þá er ég nú anzi hræddur um að húsið hefði fengið skell.”( Steinþór Þórðarson ;Nú – nú, bókin sem aldrei var skrifuð:1970)

Sléttaleiti( hlaðin rétt, ekki inn á aðalmynd; ljósmynd K.H.F.)

Hleðslurnar lengst í austur frá Sléttaleitisbænum eru gömul rétt eða nátthagi. Jóhanna mundi vel eftir að réttað hafði verið í réttinni heima en einnig mundi hún eftir rétt í Gleypu, sem er inn með Steinahlíðinni. Sveinn hlóð Steinaréttina sem er framar en Gleypa en innar og austar en tóftirnar frá gamla Steinabænum. Þá hefur sennilega verið hætt að nota réttina við Gleypu, en dularfullt þótti hversu illa gekk að reka fé inn í hana. Í fjárhústóftunum á Sléttleiti er víða hlaðið út frá stórum steinum sem hrapað hafa ofan úr hlíðinni og hefur það einnig verið gert í réttinni eins og glöggt má sjá á þessari mynd. Sveinn endurbyggði einnig gömlu bæjartóttirnar í Steinum og hafði þar sauðahús.

Sléttaleiti( bátanaust nr. 15; ljósmynd K.H.F.)

Niður við Breiðabólsstaðarlónið er naust sem Sveinn Einarsson hlóð úr kökkum. Þar geymdi hann lítinn bát sem hann smíðaði sjálfur. Bátinn notaði hann við veiðiskap á Lóninu, en einnig reri hann á honum á sjó í góðu sjóveðri frá Sléttaleitisfjöru. Var hann þá í fylgd með Sunnansandaskipinu, og aðstoðuðu bátsverjar hann við að komast út fyrir brimgarðinn og í landtökunni. Báturinn mun þó vart hafa borið nema um 30 meðalstóra fiska.

Þegar Sveinn flutti á Höfn tók hann bátinn með sér og notaði hann við silungsveiðar á firðinum.

Sveinn Einarsson veiktist hastarlega vorið 1947. Hann hafði verið að grafa fyrir heimavistinni á Hrollaugsstöðum með sveitungum sínum og veiktist þar. Sennilega fékk hann slæma blóðeitrun, fékk síðan ígerð í mjöðmina og varð hún staur. Sveinn fór á sjúkrahús til Reykjavíkur tvisvar sinnum, kom heim í millitíðinni, en var þá mjög veikur og dvaldi hann meira og minna á sjúkrahúsi veturinn 1947- 1948. Sveinn átti þess kost að fara til útlanda og láta setja kúlu í mjöðmina. Af því varð þó ekki og urðu þessi veikindi meginástæðan fyrir því að Sveinn gafst upp við búskapinn, enda varð hann aldrei jafngóður og átti erfitt með að ganga til þeirrar erfiðisvinnu sem fylgdi störfum einyrkjabóndans á Sléttaleiti. Auðbjörg, eiginkona hans var mikil búkona, voru þau samhent við búskapinn, bar hún ábyrgð á búskapnum með börnum sínum á meðan Sveinn dvaldist á sjúkrahúsi í Reykjavík.

Í Byggðasögu Austur Skaftafellssýslu segir Þorsteinn Guðmundsson hreppsstjóri á Reynivöllum um Sléttaleiti, að margur vegfarandi sem ferðist framhjá Sléttaleiti telji þessa jörð algerlega óbyggilega. ,,En við sem búið höfum þar í nágrenni, minnumst hins hlýlega umhverfis og sérkennilegu fegurðar, þrátt fyrir hrikaleik og hrjóstur.

Uppi við fjallið og á milli stórbjarga er skjólsamt og hlýtt, gróðurinn þroskamikill og vaknar snemma á vorin. Bærinn stóð hátt og víðsýnt til flestra átta. Skammt er niður að ströndinni og auðvelt að fylgjast með skipaferðum austur og austan.

Þorsteinn Guðmundsson 1972 Byggðasaga Austur Skaftafellsssýslu ; bls. 241

Þau hjónin Sveinn og Auðbjörg flytja frá Sléttaleiti vorið 1951 og þar með lýkur byggðasögu þessa býlis. Saga þess er saga kynslóðanna sem byggðu þetta land, saga þess fólks sem lifði með landinu, tókst á við náttúruna með eigin afli, lét hana ekki buga sig, heldur efldist við hverja raun. Handbrögð og erfiði þess fólks sem þarna bjó, birtast okkur nú í merkum búsetuminjum þar sem gaman er að staldra við, lesa í umhverfið og hlusta á nið aldanna.

Scroll to Top