Ítarefni

Sögur af Ragnhildi Steinsdóttur

Ragnhildur var trúkona mikil og bænheit og þótti kraftur fylgja bænum hennar. Hún var hagorð, en af kveðskap hennar kann ég aðeins eina vísu. Þau Þorvarður áttu son, sem Steinn hét. Til hans kvað einhver smávaxinn náungi og máski ekki fullvaxta þessa vísu, þegar þau bjuggu í Hellum: –

Hvað ert þú að hrífugóla,
Hella punga geir?
Ertu að sækja soð til jóla
svo sem blöndu Freyr.

Ragnhildur svaraði fyrir son sinn:

Þó að þú hæðir mína og mig,
músarskottið gráa,
á soði og blöndu seddu þig.
Svo færðu vöxtinn háa.

Ragnhildur var yfirsetukona og þótti takast mjög vel. Sagt er hún hafi tekið á móti Torfhildi Hólm, dóttur séra Þorsteins Einarssonar, og að Torfhildur hafi haft á henni miklar mætur alla ævi.

Þessi saga var sögð um bænhita Ragnhildar. Hún sat yfir Sigríði Sigurðardóttur á Kálfafelli, konu Jóns Þórðarsonar, bróðursonar Ragnhildar, þegar hún átti fyrsta barn sitt. Þá var Ragnhildur gömul. Yfir Sigríði var líka önnur yfirsetukona miklu yngri en Ragnhildur. Hún hét Guðrún Bjarnadóttir, af Skaftafellsætt, kona Gísla Þorsteinssonar, bónda á Uppsölum.

Fæðingin gekk mjög treglega. Þegar Ragnhildi þótti í óefni komið, bað hún Guðrúnu að lofa sér að ganga snöggvast út úr baðstofunni. Hún muni ekki verða lengi. Hún gekk út og kom inn eftir litla stund og mælti þá af munni fram vers, sem hún hafði ort á meðan hún staldraði við úti. Það var bæn þess efnis, að Sigríður mætti losna við þjáningar sínar, annaðhvort til fullrar heilbrigði hér í heimi eða burtfarar til himneskrar tilveru. Það hafði mikill kraftur fylgt orðum Ragnhildar, þegar hún mælti fram versið, og rétt á eftir fæddist barnið.

Frá þessu atviki sagði Sigríður sjálf Elínu dóttur sinni, en hún sagði mönnum, sem nú lifa.

Ragnhildur andaðist úr illkynjaðri meinsemd í vinstra brjósti. Í því átti hún lengi. Sagt var, að hún kæmi síðast að Kálfafellsstað, þegar séra Jón Þorsteinsson var jarðsunginn, en það mun hafa verið í maímánuði 1848. Þá var Ragnhildur orðin þungt haldin af brjóstmeininu. Fólki var það minnisstætt, að það sá hana sitja á þúfu, aðrir segja á steini inni í bænum, og gera að sárinu og setti ofan í það hreinsaða fífu, sem hún hafði með sér. Þá hafði það grafið sig svo djúpt, að þeir sem horfðu á aðgerðina, sögðust hafa séð hjartað slá undir rifjunum. En til þess var tekið, hvað hörð hún hefði verið af sér og hve hraustlega hún hefði borið sjúkdóm sinn. Hún lézt í Butru 4. febrúar 1849, 71 árs að aldri.

Þórbergur Þórðarson; Í Suðursveit; Mál og menning 1981