Fell

Um Fell

Vestasta jörð í Suðursveit var Fell sem stóð undir samnefndu fjalli, Fellsfjalli. Segja má að Fell sé einn af merkari sögustöðum Suðursveitar, ef til vill Austur- Skaftafellssýslu. Í sögu þess staðar má sjá augljós merki um sambýli Skaftfellinga við jökla, kenjótt jökulvötn og máttuga náttúru sem réð örlögum fólks öldum saman. Fell fór endanlega í eyði árið 1873 eftir að Breiðamerkurjökull hafði lagt undir sig stóran hluta af undirlendi jarðarinnar með framskriði sínu á 18. og 19. öld.

Þórbergur Þórðarson segir að Fell hafi verið „mikil jörð á sínum blómatímum, metin til hundrað hundraða.“[1] Í Byggðasögu Austur-Skaftafellssýslu segir að Fell hafi verið talið 40 hundruð á sínum blómatíma.[2] Einar Bragi segir að í Alþingisbókinni 1725 hafi Fell verið metið á 40 hundruð forn og er það samhljóða því sem Þorsteinn Guðmundsson skráir í Byggðasögunni.[3] En aðeins 9 árum síðar er jörðin metin 20 hundruð og hafði eyðst vegna ágangs vatna og jökla.[3]

Fell mun ávallt hafa verið í bændaeign en eigendaskipti voru tíð. Geta má þess að 1522 er hálft Fellið talið meðal eigna Teits Þorleifssonar í Bjarnanesi og 1570 er hálft Fell talið til þeirra jarða er Anna á Stóruborg erfði eftir bróður sinn, Pál Vigfússon sýslumann á Hlíðarenda.[2]

Fell var talin mikil hlunnindajörð á öldum áður. Þórbergur Þórðarson lýsir því svo: „Hún átti lönd öll þangað vestur, sem Breiðá fellur nú á Breiðamerkursandi. Það samsvara 13 kílómetra leið í beina línu, og breidd þeirra frá sjó hefur verið allt að 12 kílómetrar, máski meira. Á glæsitímum Fells hefur mikill hluti þessa lands verið grasi og skógi vaxin slétta. En í mínu ungdæmi var öll þessi víðátta hulin sandi og jökli. Það var austurhluti Breiðamerkursands og Breiðamerkurjökuls. Auk þess átti Fell alla beit í Fellsfjalli og Veðurárdal og miklar og rekasælar fjörur, selveiði í ósum og lónum á Breiðamerkursandi og sennilega mávsvarp og skúmsvarp úti á sandinum.“[1] Víst er að margt hefur breyst á Breiðamerkursandi síðan Þórbergur skrifar þessa lýsingu.

Á Felli sjást enn miklar mannvistarleifar. Þar eru tóftir af bæjarhúsum og sauðahúsum sem voru nýtt eftir að jörðin fór endanlega í eyði árið 1873. Vitað er að á Felli stóð uppi sérstök bygging, í daglegu tali kölluð sýslumannsskálinn, allt til ársins 1868. Hefur skálinn án efa verið hluti af bæjartóftunum og segir svo frá að hann hafi staðið uppi eftir hlaupið. Var skálinn byggður af góðum rekaviði og var rifinn eftir að jörðin fór í eyði, en efniviðurinn m.a. notaður til að byggja upp sauðahús Eyjólfs Runólfssonar á Reynivöllum. Þau fjárhús stóðu til ársins 1913 og var til þess tekið hversu lítið fúinn þessi viður var, allur vel heflaður og tilsniðinn í sperrur, langbönd og reisufjöl en svartur af ljósreik. Einnig er talað um að Gísli Þorsteinsson á Uppsölum hafi rifið stofuna á Felli og flutt með sér viðina og byggt upp stofu á Uppsölum er hann flutti þangað frá Felli um 1840.[1]

Hálfkirkja var á Felli. Vitað er að Ísleifur sýslumaður Einarsson lét byggja kirkju laust fyrir aldamótin 1700. Til er ein skoðunargerð á kirkjunni frá árinu 1720. Þá er kirkjan nýlega endurbætt og henni hafa bæst gripir, nýtt altari og predikunarstóll ásamt kaleik og patínu úr silfri. Ekki er vitað hvar kirkjan stóð, en á síðari árum hefur mátt sjá móta fyrir lítilli tóft í suðaustur frá bæjarhúsunum. Leiða má líkum að þar hafi kirkjan staðið. Kirkjan er eydd 1747, samkvæmt heimildum Sigurðar Stefánssonar sýslumanns.[2]

Fell var höfuðból og sýslumannssetur og þar sat Ísleifur Einarsson f. 1655 sem sýslumaður Austur Skaftafellssýslu á árunum 1688 til dauðadags 1720. Kona hans var Vilborg Jónsdóttir f. 1666 og var Fell eignajörð Vilborgar, hafði erfst í kvenlegg frá móður hennar Ragnhildi, dóttur Jóns Ketilssonar Ólafssonar prests á Kálfafellsstað. Jón afi hennar bjó á Felli frá 1649 og síðan Ketill sonur hans frá 1663 – 1681.[3] Segja má að höfðingjabragur hafi verið á þeim hjónum á Felli og voru þau afkomendur voldugra ætta sýslumanna og presta á 17. öld. Á fyrstu búskaparárum Ísleifs á Felli voru hörðustu ár litlu ísaldar, afar erfitt tíðarfar, búfjárfellir, veikindi og dauðsföll af völdum Stóru bólu 1707. Eftir þann tíma fór því verulega að halla undan fæti hvað varðar aðstæður til búskapar á jörðinni vegna framskriðs jökla og kólnandi veðráttu. Ísleifur hafði mikið umleikis á meðan hann bjó á Felli og þau hjón áttu fjölda eignajarða víða um land. Af honum fara margar sögur og bréfabók Ísleifs hefur varðveist með heimildum um umstang hans í embætti og eignaumsýslu, oft í eigin þágu. Jón Ísleifsson sonur þeirra tók við embætti föður síns. Hann dó 1732, þá skuldum vafinn og búinn að minnka svo um munar hróður staðarins og embættis frá tíð föður hans og var að lokum settur af. Vilborg móðir hans bjó á Felli til ársins 1736. „Hefur hún þá verið búin að þrauka þar hátt í hálfa öld við misblíð kjör og komin fast að sjötugu“, segir Einar Bragi.[3]

Tíð ábúendaskipti voru á Felli og oft var þar tvíbýli. Einnig var búið á hjáleigum Fells, Bakka og Brennhólum fram yfir 1700, og Borgarhól líklega til síðari hluta 18. aldar. Ekki er alltaf ljóst hver bjó á hvaða býli og eigendaskiptin voru tíð. Miklar sögur fóru af Rannveigu Jónsdóttur er bjó á Felli frá 1788 og til aldamóta 1800. Bjó hún þar sem gift kona og síðar ekkja. Rannveig eignaðist fjóra syni, að talið er alla með Sveini Sveinssyni vinnumanni sínum eða tilsjónarmanni, sem einnig var giftur. Sveinn var dæmdur til dauða vegna brotanna. Dómnum var síðar breytt í fangelsisdóm en Rannveig var dæmd til fjársekta. Einar Bragi rithöfundur skráði sögu formóður sinnar Rannveigar á Felli, í bók sinni Þá var öldin önnur II bindi. Þar leiðir hann líkum að því að Rannveig, sem var þrígift og eignaðist sjö börn, hafi ekki eignast neitt af þessum börnum með eiginmönnum sínum. [3]

Um aldamótin 1800 fluttu að Felli Þorsteinn Vigfússon f. 1756 og kona hans Ingunn Guðmundsdóttir Brynjólfssonar prests frá Kálfafellsstað. Þau komu frá Kálfafelli og þangað fór Rannveig, þau skiptu á jarðapörtum. Fyrr hafði Þorsteinn keypt hlut í Fellinu og var búið á einu býli þar í hans tíð. Tíu af börnum þeirra lifðu og eru fjölmargir Skaftfellingar út af þeim komnir:

  • Guðný Þorsteinsdóttir á Reynivöllum f. 1786, kona Sigurðar Arasonar.
  • Sigríður Þorsteinsdóttir á Hnappavöllum f. 1787, kona Magnúsar Þorsteinssonar.
  • Jón Þorsteinsson í Skálafellsseli f. 1788, maður Sigríðar Þorvarðsdóttur.
  • Sigurður Þorsteinsson í Hestgerði f. 1789, maður Sigríðar Sigurðardóttur.
  • Brynjólfur Þorsteinsson á Reynivöllum/Skaftafelli f. 1891, maður Þuríðar Bjarnadóttur.
  • Guðrún Þorsteinsdóttir á Rauðabergi f. 1793, kona Jóns Þorvarðssonar.
  • Kristín Þorsteinsdóttir á Kvískerjum f. 1794, kona Bjarna Þorsteinssonar.
  • Ingimundur Þorsteinsson í Steinum f. 1794, maður Helgu Bjarnadóttur.
  • Gísli Þorsteinsson á Uppsölum f. 1804, maður Guðrúnar Bjarnadóttur.
  • Auðbjörg Þorsteinsdóttir á Hala f. 1809, kona Guðmundar Sigurðssonar. [4]

Þórbergur Þórðarson skráði: „Þorstein Vigfússon á Felli heyrði ég talað um sem merkisbónda. Oddný á Gerði sagði þá sögu, að einhverju sinni hefði Suðursveitungar deilt ákaft á hvalfjöru. Þá sáu þeir til ferða Þorsteins í fjöruna. Þá sögðu einhverjir hvalskurðarmennirnir: „Nú skulum við hætta að skammast. Hann Þorsteinn á Felli er að koma. Frá þessu atviki sagði Oddný sem dœmi um virðingu manna fyrir Þorsteini.“[1]

Gísli Þorsteinsson sonur þeirra hjóna tók við búi á Felli eftir föður sinn. Hann flutti síðan að Uppsölum og virðist skipta á búi við Þorstein Sigurðsson systurson sin. Þá varð aftur tvíbýlt á Felli og ábúendaskipti tíð, nema Þorsteinn Sigurðsson bjó á Felli til dauðadags, 19. júlí 1868. Þá var hann búinn að missa þrjár eiginkonur, á heimilinu var mikil ómegð og skammt til örlagaríkra atburða er mörkuðu endalok búsetu á Breiðamerkursandi. Síðsumars árið 1868, skömmu eftir lát Þorsteins bónda á Felli kom mikið vatnshlaup í Veðurá og rann hún þá allt í kringum bæjarhúsin á Felli, sem stóðu á lágum hól. Rann vatnið eftir lægð á milli bæjarhúsa og fjallsins í fyrstu, kýrnar voru heima við og voru reknar á sund yfir álinn og upp í brekkurnar. Heimilisfólkið bjargaðist en vatnið beljaði á bæjarhúsunum og margt fór til spillis og flaut með til sjávar samkvæmt frásögn. Eitthvað stóð þó uppi af húsum þegar fjaraði.[2]

Frá 1861 bjó á Felli með Þorsteini, bróðir hans Vigfús Sigurðsson og fjölskylda. Þau komu frá Skálafelli og bjuggu á Felli þegar Veðurá ruddi sér leið yfir bæjarstæðið og graslendið í kring. Þau flúðu staðinn og reistu sér bæjarhús í svokölluðu Stekkjartúni, inn með hlíðinni. Þar bjuggu þau fram til 1872, en það ár brá Vigfús búi og fjölskyldan tvístraðist. Börn Þorsteins voru bæði móður og föðurlaus við þennan atburð og fóru í fóstur víða um héraðið. Búið var í Stekkjartúninu í skamman tíma því jörðin Fell fór endanlega í eyði árið 1873. Eyjólfur Runólfsson hreppstjóri á Reynivöllum keypti stærstan hluta Fellsjarðar og nytjaði í sinni búskapartíð. [2]

Heimildir

[1] Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[2] Þorsteinn Guðmundsson, (1972). Byggðasaga Borgarhafnarhrepps. Í Byggðasaga Austur-Skaftafellssýslu: II. Bindi. Mýrar og Suðursveit (bls. 131-264). Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjónsó.
[3] Einar Bragi, (1974). Þá var öldin önnur II. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[4] Fjölnir Torfason, samantekt.