Ítarefni

Sögur af síðustu ábúendum á Felli

Þórbergur Þórðarson lýsir Vigfúsi Sigurðssyni bónda á Felli svo: „Ég sá Vigfús langömmubróður minn einu sinni svo að mér sé í minni. Hann kom að Hala og stóð austan undir eldhúsveggnum, með bakið upp að veggnum og studdist fram á staf og var að tala við einhvern. Það var sólskin og sól áreiðanlega ekki komin í hádegisstað. Það skein austansól á Vigfús og vegginn. Mér sýndist hann vera afar gamall, og ég sá ekki betur en hann væri blindur. Hann horfði á móti sólinni eins og hann hitti ekki alveg á hana með augunum. Þá er mér óhætt að horfa mikið framan í hann, hugsaði ég og góndi mikið. Þá var ég lítill. Hann var með beint nef og sítt alskegg og tvær stórar tennur í efri góm, og það heyrðist í þeim líkt og maðkaflugu þegar hann talaði. Það var sagt að Vigfús hafi verið sterkur en frekar þungur til vinnu. Hann var kvæntur og kona hans hét Margrét. Hún hafði verið fjörmanneskja og vel greind og dugleg og heldur lagleg. Mælt var, að Vigfús hafi stundum sagt þegar hann sá hana tala við karlmenn á mannamótum: „Margrét! Mundu nú eftir mér!“.“[1]

1872-1873 bjuggu í Stekkjartúninu Jón Markússon, f. 1830 og Elín Jónsdóttir sögð bústýra hjá Jóni. Þau komu bæði frá Kálfafellsstað við prestaskipti þar. Elín fór síðar norður í Húnavatnssýslu til ekkju séra Þorsteins, Guðríðar. Hún segir margar þjóðsögur úr Suðursveit sem Torfhildur Hólm skráði eftir henni í bók sinni Þjóðsögur og sagnir. Jón Markússon ólst upp hjá séra Þorsteini Einarssyni og Guðríði Torfadóttur föðursystur sinni og var í leiðangri þeim er Þorsteinn sendi til að leita að afréttarlöndum inn í Vatnajökli. Jón brá búi á Felli 1873 og fór síðan víða um sem vinnumaður. Hann var aldrei við kvenmann kenndur svo vitað sé. „Meira gaman að hugsa um kindurnar, kindurnar.“ er haft eftir honum.[2] Jón var vinnumaður hjá Þorleifi Jónssyni í Hólum og er skemmtileg mannlýsing í Ævisögu Þorleifs sem er eftirfarandi: „Jón var næsta einkennilegur í sjón og raun. Hann var fremur lágur vexti, en herðibreiður og þrekvaxinn nokkuð, breiðleitur mjög, með alskegg, ljósmóleitt. – Jón var ákaflega geðgóður. Aldrei sá ég hann reiðast hér. Blótsamur var hann heldur ekki og bölvaði sjaldan, og barngóður var hann með afbrigð­um. [] Jón hafði gaman af kindum og var sœmilega natinn að fóðra. Seinvirkur var hann í öllum verkum. Aldrei lá neitt á. Ákafi og framgangur var ekki hans eðli. – En öðru máli var að gegna með tunguna. Hún var lipur og ólöt. Ég hef aldrei kynnzt neinum Íslendingi, sem hefur verið jafnóðmæltur og Jón Markússon, svo að erfitt var fyrir ókunnuga að skilja hann, en svo tvítók hann oft hverja setningu eða orð. Jón var ákaflega spurull og forvitinn. [] Jón var sérstakur með það, að ekki bragðaði hann vín, svo ég vissi, neitaði, ef honum var boðið að súpa á. „Vil ekki, vil ekki.“ Aftur á móti var hann mikill neftóbaksmaður, en langan tíma tók stundum að skera „rjólið“. [] Jón var enginn hestamaður og lítill reiðmaður, fór oftast löturhægt, ef hann var á hesti. Honum var kærara að labba milli bœja en taka sér hest. Hann var seigur göngumaður og fór stundum langferðir fótgangandi. [] Alltaf átti Jón töluvert af kindum, sem hann hafði á kaupi sínu, og ekki þurfti hann að lóga miklu í kaupstað, því hann eyddi engu nema fyrir rjólið. Skylduföt svokölluð fékk hann eins og önnur vinnuhjú, enda var hann talinn vel efnaður vinnumaður. [] Hann var engum til meins á lífsleið sinni, en gladdi fremur marga með skrafi sínu og hinu lipra tungutaki.“[2] Þorleifur nefndi ýmis dœmi um, hvað Jóni þótti fólk í öðrum landshlutum illa máli farið. Hilmar Finsen landshöfðingi hafi til dœmis ekki vitað, hvað klippingur var eða bolstrengur. Og Húnvetningar hafi kallað skjólur fötur, stúlkur stúlgur, hval kval og hrúta hallinskíða. Jón var matmaður, og tók til þess, þegar biskup Pétur bauð honum einhverju sinni til kvöldverðar, hvað lítið var á borðum: „Engin kaka, engin kaka, nokkrar sneiðar af pottbrauði, fjarska þunnar, þunnar. Ekkert kjöt, ég kalla það ekki kjöt, nokkrar örþunnar flísar af mögru ærkjöti. Svo var ostbiti, dálítill ostbiti, og eins og upp í nös á ketti af smjöri í gler-krús. Svo var tesopi með.“[2]

Þegar Jón Markússon og Elín Jónsdóttir fara frá Felli er lokið búskaparsögu Fells, þessa forna höfuðbýlis á Breiðamerkursandi. 

Heimildir:

[1] Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[2] Þorleifur Jónsson (1954). Þorleifur í Hólum, Ævisaga. Reykjavík: Bókaútgáfa Guðjóns Ó. Guðjónssonar