Ítarefni

Vertu ekki hugsjúk

Systir Elínar Guðmundsdóttur, Hólmfríður að nafni, var gift manni, sem Jón hét. Dætur hennar og þeirra Elínar lifa ennþá. Hólmfríður þessi lagðist í einhverri veiki, og þegar veikin minnkaði, tók hún svoddan beinkröm, meðfram af langvinnri legu, að hana ætlaði að kreppa. Þeirra meðala var leitað, er föng voru á, en það kom fyrir ekki, hana kreppti meira og meira, svo fólk hélt, að hún yrði kararaumingi. Dreymdi þá Elínu heitina, sem þá var í Steinum, að bláklædd kona kæmi að rúmi hennar og segði: ,,Vertu ekki hugsjúk út úr heilsulasleika systur þinnar, því ég skal gefa henni smyrsl, þau er duga.” Hún vaknaði og þóttist sjá svip konunnar, er hún gekk burtu. En upp frá þessu fór henni að batna í fætinum, og sjúkdómurinn endaði svo, að hún varð alheil og lifði eftir það mörg ár. En ekki er þess getið, að konan hafi gefið henni nokkur smyrsli.

Torfhildur Hólm Þorsteinsdóttir ; Þjóðsögur og sagnir Almenna bókafélagið mars 1962

Scroll to Top