
Búsetuminjar í Suðursveit

Suðursveit er ein fimm sveita í fyrrum Austur-Skaftafellssýslu, nú Sveitarfélagið Hornafjörður. Á síðustu öldum bjuggu margir Suðursveitungar við aðstæður sem myndu þykja mjög óvenjulegar í samanburði við núverandi búsetuhætti. Fjölskyldur flæmdust á milli staða vegna ágangs jökla, jökulvatna, jökulhlaupa og annarra náttúruhamfara. Erfiðar aðstæður urðu til þess að fjölmörg býli og hjáleigur fóru í eyði. Á þeim tíma voru búskaparhættir á Íslandi með allt öðrum brag en í dag. Húsakynnin voru torfbæir og baðstofan kynnt upp með ylnum frá kúnni sem stóð á bási sínum undir baðstofugólfinu. Hesturinn var megin aflgjafinn við erfiðisvinnu hjá bændum enda dráttavélar ekki komnar til sögunnar. Fjárhús voru lítil ef einhver voru en fjárborgir og fjárskjól algengari. Á sama tíma var veðráttan kaldari og jöklar í framrás, ekkert rafmagn, læknisaðstoð var takmörkuð og barnadauði algengur. Ísland hafði ekki öðlast sjálfstæði.
Suðursveit afmarkast við vestari Heinabergsvötn í austri og vestur fyrir Nýgræður á Breiðamerkursandi, frá Vatnajökli í norðri til sjávar í suðri. Frá austri til vesturs mun sveitin vera um 50 km að lengd og víða er stutt milli fjalls og fjöru. Nafn hennar er dregið af samhangandi byggð meðfram fjöllunum sem snúa bæjardyrum sínum mót suðri. Um miðja átjándu öld varð Suðursveit sér hreppsfélag og hlaut nafnið Borgarhafnarhreppur með þingstað í Borgarhöfn. Suðursveit hefur jafnan verið skipt í fjögur byggðahverfi. Austasta hverfið er Mörk, þá Borgarhöfn og Miðþorp vestan Staðarár að Steinasandi. Vestasta hverfið er Sunnan við sand eða Sunnansandabæir, nefnt Fellshverfi til forna.
Sunnan við sand
Vestasta bæjarhverfi kallast Sunnan við Sand og íbúarnir Sunnsendingar. Landsvæði þess nær frá Steinvötnum í austri að mörkum Suðursveitar og Öræfa á Breiðamerkursandi í vestri. Áður fyrr var hverfið kallað Fellshverfi, með skýrskotun til höfuðbólsins Fells undir samnefndu fjalli austast á sandinum. Árið 1850 voru býlin 10 alls í bæjarhverfinu en munu hafa verið 12 meðan hjáleigur Fells voru í byggð, þó ekki öll samtímis. Búsetusaga eyddra býla er skráð hér, m.a. Fells og Steina undir Steinafjalli, ásamt staðarlýsingum.
Miðþorp
Miðþorp eða Þorpið nefnist byggðin milli Staðarár og Steinasands og íbúar Miðþorpsmenn. Árið 1850 voru 10 ábúendur í Þorpinu með heimajörðunum Kálfafelli og Kálfafellsstað. Undir Staðnum lágu nokkrar hjáleigur í gegnum aldirnar, sem enn má sjá ummerki eftir í landi Miðþorps. Hér er dregin fram saga þessara fornu hjáleigna og annarra leiguliða, m.a. frá Butru og Hellum.
Borgarhöfn
Borgarhöfn er annað bæjarhverfið í Suðursveit, talið að austan. Land þess afmarkast af Hestgerðiskambi í austri og Staðará í vestri, með fjörumörkin við Hálsós og Bjarnahraun. Íbúarnir í Borgarhöfn kallast Borghefningar. Borgarhöfn var skráð sem ein jörð í heimildum frá 18. öld en ávallt með mörgum býlum sem báru hvert sitt nafn. Árið 1850 voru skráð 11 býli í byggð í Borgarhöfn en 100 árum síðar átta ábúendur. Í Borgarhafnarlandi er víða að finna fornar búsetuminjar m.a. frá 18.öld eins og í Græntanga, Helluhrauni og Ekru. Samantekt á búsetusögu þeirra er kynnt hér.
Mörk
Austasta hverfi Suðursveitar nær frá mörkum Suðursveitar og Mýra í austri að Hestgerðiskambi í vestri og hefur verið kallað Mörk og íbúarnir Merkurmenn. Um 1850 voru skráð 12 býli í byggð á Mörkinni, í dag eru þau 5-6. Hér segjum við frá nokkrum þeirra er farið hafa í eyði fram undir aldamótin 1900, m.a. Sævarhólum, Austurlandi, Nípum og Skálafellsseli.