Sléttaleiti

Um Sléttaleiti

Jörðin Steinar hélst í byggð þrátt fyrir miklar náttúruhamfarir sem dundu yfir þar árið 1829. Bæjarstæðið var flutt að Sléttaleiti árið 1830 af Ingimundi Þorsteinssyni og Helgu Bjarnadóttur. Þau höfðu flúið sumarið áður frá Steinum í miklu óveðri er flóð kom úr Köldukvísl sem braut sér leið meðfram bænum. Steinar hrundu úr fjallinu fyrir ofan bæinn og einn þeirra stöðvaðist í miðri skemmunni og eyðilagði matarbirgðir heimilisins.

Sléttaleitisbærinn var byggður undir stóreflisbjargi og ber einkennilegt nafn miða við bæjarstæði í brattri fjallshlíð. Getgátur eru um að þarna hafi verið fyrir örnefnið Sléttaleiti, haft um grasgrefinn bala framan við bæinn. Á Sléttaleiti eru miklar búsetuminjar allt um kring frá mismunandi tímum.

Ingimundur var smiður góður og ætla má að hann hafi byggt á búsetuárum sínum smiðjuna á Sléttaleiti sem stendur enn. Það var að áeggjan Einars Braga rithöfunds að smiðjan var endurbætt á árunum í kringum 1990 að ósk Sveins frænda hans. Sveinn hafði beðið þess að bændurnir á Breiðabólsstaðarbæjum héldu smiðjunni við þegar þeir keyptu jörðina 1951.[1] Þau hjónin Ingimundur og Helga stoppuðu stutt við á Sléttaleiti og fluttu sig um set að Reynivöllum árið 1832.

Á Sléttaleiti urðu síðan tíð ábúendaskipti á 19. öld. Árið 1874 kom á Sléttaleiti Benedikt Einarsson f.1836 og kona hans Ragnhildur Þorsteinsdóttir f. 1841, hún var dóttir Þorsteins skipasmiðs. Benedikt var bróðir Guðnýjar ömmu Þórbergs Þórðarsonar og afi Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli. Benedikt og Ragnhildur bjuggu í 10 ár á Sléttaleiti, en fóru þaðan að Skálafelli. Hallur Pálsson og kona hans, Herdís Bergsdóttir, sem búið höfðu á Skálafelli, gáfu Benedikt próventu sína. Benedikt varð bráðkvaddur við heyskap fyrsta sumarið á Skálafelli 12. ágúst 1884 aðeins 47 ára að aldri. Stefán Benediktsson yngri, fyrrverandi þjóðgarðsvörður í Skaftafelli, sagði frá dauða langafa síns Benedikts Einarssonar þegar hann kom sem gestur í Þórbergssetur árið 2010. Lýsti hann nákvæmlega aðstæðum og hafði beint eftir afa sínum Stefáni Benediktssyni eldri, sem var úti á túni með föður sínum og var vitni að atburðinum. Stefán eldri var þá 11 ára gamall hjálparsveinn Benedikts föður síns við heyskapinn.

Það var áhrifamikil stund að heyra frásögn af löngu liðnum atburði frá fyrstu hendi afkomendanna. Benedikt var virtur mjög og var mörgum harmdauði. Oddný á Gerði orti svo um hann: [2]

Benedikt er burðarsnar,
ber af hásetonum,
ágætastur allra þar,
unna flestir honum.

Þórbergur Þórðarson skráði, að Benedikt hafi verið talinn tveggja manna maki að burðum. Hann hafi eitt sinn glímt nœturlangt við Stein Þórðarson, f. 1830, afa hans og skömmu fyrir fótaferð komið honum á kné.[2]

Örlagarík er saga Jóns Hallssonar og konu hans Sigríðar Eyvindsdóttur sem komu að Sléttaleiti þegar Benedikt og Ragnhildur fluttu að Skálafelli. Sigríður dó árið 1886 og Jón fór síðar að Smyrlabjörgum. Jón Hallsson drukknaði við hvalskurð í Hálsós ásamt þremur öðrum sveitungum sínum 9. maí 1887. Ingunn Jónsdóttir á Skálafelli segir svo frá. „Af þeim sem drukknuðu í Hálsós, rak þrjá næsta dag upp á Sævarhólafjöru. Þeir voru jarðsungnir af sóknarprestinum séra Jóhanni Knúti Benediktssyni og hvíla allir í sömu gröf í Kálfafellsstaðarkirkjugarði. Þeir voru Jón Jónsson frá Sævarhólum; Jón Hallsson Smyrlabjörgum, hann þá búinn að missa konu sína fyrir tveimur árum frá 5 börnum, því elsta 9 ára og því yngsta 2ja ára. Nábúar Jóns buðu honum að taka börnin í fóstur og þáði hann það með þökkum. Börnin voru vel upp fóstruð.“ Þriðji var Einar Gíslason á Ekru á Smyrlabjörgum, nýfluttur að Smyrlabjörgum. Fjórði Bjarni Gíslason fannst síðar um sumarið sjórekinn á Meðallandsfjöru.[3]

Nokkrar sögur fara af Jóni Hallssyni m.a. hjá Þórbergi Þórðarsyni. Jóni hafði verið strítt og Sigurður Sigurðsson á Kálfafelli gerði í því að taka hann fyrir ef marka má glettnisögur hjá Þórbergi. Brá hann fyrir Jón fæti á kirkjugólfinu, en einnig borgaði hann Sigríði Þorsteinsdóttur vinnukonu fyrir að lýsa meinbugi á giftingu hans og Sigríðar og reiddist Jón þessu mjög. Afkomendur Jóns Hallssonar og Sigríðar Eyvindsóttur, eru myndarfólk með góða greind og ágætar viðkynningar segi Þórbergur Þórðarson. Hallur sonur hans fór til Vesturheims og lifði þar góðu lífi. „Það var kraftur og seigla í þessu fólki,“ sagði Þórbergur Þórðarson.[2]

Ragnhildur Þorsteinsdóttir kom aftur að Sléttaleiti frá Skálafelli eftir dauða Benedikts manns hennar, ásamt 6 börnum þeirra hjóna. Þar var skráður sem fyrirvinna Þórður Arason f. 1848 og voru 10 manns í heimili.[4]Þórður og Ragnhildur giftust síðan árið 1887 en þá giftust um leið Guðný dóttir hennar og Brynjólfur Jónsson f. 1862, fyrri maður hennar. Þórður og Ragnhildur bjuggu á Sléttaleiti til ársins 1894 er Þórður dó úr lifrarveiki 45 ára. Þau eignuðust eina dóttur Steinunni f 1886. [4] Ragnhildur bjó áfram með börnum sínum á Sléttaleiti eftir dauða Þórðar. Árið 1895 voru skráð í heimili 8 manns á Sléttaleiti og þar af 6 börn Ragnhildar og Ragnhildur Rannveig Einarsdóttir f. 1893 fósturbarn (ömmubarn).[5] Steinunn dóttir Ragnhildar og Þórðar varð háöldruð kona, lést 10. febrúar 1987 þá orðin 100 ára og bjó lengst af á Eskifirði. Hún kom í heimsókn á Hala að heimsækja frændfólkið, var trú uppruna sínum og sagði oft sögur úr Suðursveit. Afkomendur hennar hafa komið í heimsókn í Þórbergssetur og vitnað beint í orðræður þeirra mæðgna Ragnhildar og Steinunnar, en Ragnhildur dó árið 1933 og eyddi síðustu æviárunum hjá Auðbergi syni sínum á Eskifirði.

Þórbergur Þórðarson ólst upp í nágrenni við börn Ragnhildar fyrstu árin og fjallar um fjölskylduna í verkum sínum. Hann lofar Ragnhildi mjög: „Hún var myndarkona, skynsöm og fyrirmannleg“ skráir hann. Skemmtileg og tilfinningaþrungin saga tengist Ragnhildi í bók hans Steinarnir tala. Þar lýsir Þórbergur tilkomu rakgrindarinnar á Hala. „Einu sinni kannski rétt fyrir sumarmálin, kom kona austan frá Sléttaleiti að heimsækja fólkið á Hala. Hún hét Ragnhildur Þorsteinsdóttir. […] Hún var vinkona móður minnar. – Það var byrjað að rökkva, þegar Ragnhildur lagði af stað frá Hala. Hún var fótgangandi og átti hálftímaleið heim til sín. Móðir mín gekk með henni austur með fjallinu, og ég fékk að fara með þeim. Það var þykkt loft og milt í veðri og vorblær yfir fjallshlíðinni og Lónið fallegt. Þær voru alltaf að tala saman og töluðu lágt, og mér fannt þær mundu tala spaklega. Þegar við vorum að fara austur Gerðisskriðuna var Ragnhildur að segja móður minni, að nú væri húsmóðurstöðu sinni á Sléttaleiti bráðum lokið, og mér fannst henni leiðast það. Stefán sonur sinn væri nú trúlofaður Jóhönnu í Skaftafelli, eins og hún vissi, og færi þangað í vor alfarinn, og fyrir sér lægi ekki annað en fara þangað með honum, og mér heyrðist eitthvað örlagaþrungið í málrómi hennar, og það setti að mér söknuð. Nú hefði hún ekkert lengur að gera við rakgrindina sína og bað mömmu að þiggja hana af sér.“ Mikið hagræði var af rakgrind Ragnhildar á Hala. „Svona var gamli tíminn að smádeyja á Hala.“[2]

Árið 1909 fluttu að Sléttaleiti Þorsteinn Jónsson, f. 1876 og kona hans Þórunn Þórarinsdóttir frá Breiðabólsstað. Þrátt fyrir að Sléttaleiti væri ágæt bújörð undi Þorsteinn sér ekki vel þar. Vildi hann fá leyfi til að færa bæinn vegna þess hann taldi sig búa „þar við mjög erfið skilyrði undir hrikalegum hömrum Steinafjalls. Túnið var lítið og skriðurunnið og ómögulegt að færa það út en útheyskapur mikill og fyrirhafnarsamur. En erfiðast af öllu var þó sambúðin við fjallið; nærvera þess var yfirþyrmandi og þrúgandi.“[6] Samkvæmt ljósmynd af Sléttaleiti á búskaparárum þeirra Þorsteins og Þórunnar voru húsakynni fremur léleg og lýsti Jóhanna yngsta dóttirin á Sléttaleiti því hversu vond veður gátu komið þar, ofsarok með miklum vindhviðum sem ollu þeim miklu angri. Fjölskyldan var því alla tíð óróleg að búa þarna á staðnum og lýsti Jóhanna því í samtali í Þórbergssetri. Þorsteinn keypti samt jörðina af Kálfafellsstaðarkirkju árið 1920, og seldi hana síðan til næsta ábúanda Sveins M Einarssonar árið 1935. Fjölskylda Þorsteins og Þórunnar flutti þá á Höfn. Lilja Magnúsdóttir, dóttir Þóru Þorsteinsdóttur gaf Þórbergssetri afrit af dagbókum móður sinnar þegar Þóra var ung stúlka að alast upp á Sléttaleiti. Ekki er hægt að sjá þar að áhyggjur eldra fólksins hafi þjakað unglingana því lífið virtist hafa verið einkar skemmtilegt hjá stórum hópi ungs fólks sem var að að alast upp á Sunnansandabæjunum um þessar mundir og mikill samgangur á milli bæja.

Sveinn M. Einarsson, f. 1900 og Auðbjörg Jónsdóttir f. 1896 kona hans fluttu að Sléttaleiti árið 1935. Þau voru síðustu ábúendur á jörðinni. Sveinn var uppeldisbróðir Þórhalls Bjarnasonar á Breiðabólsstað og móðurbróðir Einars Braga rithöfundar. Sveinn byggði nýtt steinsteypt íbúðarhús á Sléttaleiti. Vildi honum það happ til að tré rak á Sléttaleitisfjöru sem hann gat nýtt til húsbyggingarinnar. Guðrún dóttir þeirra sagði að foreldrar sínir hefðu unnið hörðum höndum og meðal annars flutt alla steypumölina á ís utan frá fjöru yfir vetrartímann, mokað á sleða og dregið yfir með handafli. Einar Bragi skráði: „að Sveinn hafi verið einstaklega verklaginn og verkhygginn, búhagur vel, harðduglegur maður og óvæginn við sjálfan sig, ræðinn, gamansamur, nærgætinn og geðprúður.”[1] Í bók Einars Braga segir Sveinn frá Sæbjargarslysinu við Bjarnahraunssand 4. maí 1920, en honum skolaði þá fyrir borð og saup drjúgan, en tókst að krafsa sig í land. Einnig segir hann frá slysinu í Breiðamerkurjökli 7. september 1927 er Jón Pálsson frá Svínafelli fórst og hestur Sveins fór ofan í Jökulsá en bjargaðist.[1] Sveinn og Auðbjörg seldu Sléttaleiti árið 1951 og fluttu að Dynjanda í Nesjum vorið 1952. Bændur á Breiðabólsstaðarbæjum keyptu þá Sléttaleitisjörðina og sameinuðu hana jörðunum á Breiðabólsstaðartorfunni, Hala, Gerði og Breiðabólsstað.

Síðar byggði Guðrún Sveinsdóttir Sléttaleiti upp að nýju, fékk leigða lóð og byggði íbúðarhús í stíl við gamla húsið sem foreldrar hennar steyptu þar upp á fimmta áratug síðustu aldar. Húsið var byggt árið 2003 og minnir sannarlega á liðna tíð, þó segja megi að það sé háreistara en gamla steinsteypta húsið. Haldin var vegleg opnunarhátíð þar sem séra Einar Jónsson á Kálfafellsstað vígði húsið og fjölmenni var mætt á staðinn. Húsið gaf Guðrún síðar Rithöfundasambandi Íslands í minningu um frænda sinn Einar Braga rithöfund. Einar Bragi hafði skrifað skemmtilegar bernskuminningar frá dvöl sinni á Sléttaleiti sem vikapiltur hjá Sveini M. Einarssyni frænda sínum og föður Guðrúnar sumarið 1945.[1]

Heimildir

[1]  Einar Bragi, (1973). Þá var öldin önnur I. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja hf.
[2]  Þórbergur Þórðarson, (1984). Í Suðursveit. Reykjavík: Mál og Menning.
[3]  Ingunn Jónsdóttir, (1973, 13. 10.). Slysið við Hólsós. Tíminn Sunnudagsblað, bls. 616-618. Sótt á https://timarit.is
[4]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1881-1888. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[5]  Þjóðskjalasafn Íslands (e.d.). Kálfafellsstaður, Sóknarmannatal 1890-1905. Sótt á http//vefsja.skjalasafn.is
[6]  Arnþór Gunnarsson (1997). Saga Hafnar í Hornafirði, fyrra bindi, aðdragandi búsetu og frumbýlisár. Hornafirði: Hornafjarðarbær.