Ítarefni

Skór hverfa

Sögn Elínar Jónsdóttur 1875, dóttur Elínar Guðmundsdóttur.

Er foreldrar hennar bjuggu í Butru, sátu þau í fjósi eins og fátækt fólk í þá daga var vant að gjöra. Jón heitinn faðir hennar var vanur á kvöldin að láta hengja skó sína á fjóshurð að utanverðu svo þeir stiknuðu eða fúnuðu ekki inni, því lítið var um skæðaskinn, enda var það í þá daga siður. Eitt kvöld um haustið sendi hann Elínu með skó sína, þykka heminga (úr höm eða skekklaskinni af nauti). Hún hengdi skóna eftir vanda á hurðina og fór svo að sofa. Morguninn eftir, er hún ætlaði að sækja þá, voru þeir horfnir. Þau leituðu með dyrum og dyngjum, öllum hornum, en það kom fyrir ekki, skórnir fundust ekki að heldur. Aðrir skór voru gjörðir, og þessir gleymdust. En einhverju sinni snemma um veturinn héngu skórnir á sama stað einn morgun, er þau komu á fætur, og öldungis óbrúkaðir, eins og þeir voru, er þeir hurfu. – Nágrannana afsakaði hún og kvað illa mögulegt, að þeir hefðu náð skónum, og þó óhugsanlegra, að þeir hefðu skilað þeim aftur og það jafngóðum. Huldufólkinu í klettunum fyrir ofan var kennt um það.

Torfhildur Hólm Þorsteinsdóttir ; Þjóðsögur og sagnir Almenna bókafélagið mars 1962

Scroll to Top